Ályktun Íslandsdeildar Attac um pólitísku kreppuna á Íslandi

Afhjúpanir fjölmiðla víðsvegar um heiminn á fjármálaspillingu hinnar alþjóðlegu auðstéttar hafa valdið uppnámi á Íslandi. Landið varð skyndilega að tákni fyrir skattaundanskot og spillingu stjórnmálamanna og auðmanna; jafnskyndilega varð að það á ný að tákni fyrir mótspyrnu almennings gegn yfirgangi fjármálavalds, nýfrjálshyggju og auðsöfnun hins allsráðandi ríka prósents. Hreyfingin frá 2008 og 2009 birtist á ný á Austurvelli og fékk kröfu sinni framgengt. Forsætisráðherra sagði af sér. Allt gerðist þetta með miklum hraða, ekki síst vegna markvissrar framsetningar RÚV á afhjúpuninni.

Undanfarin sjö ár hafa fjórir stjórnmálaflokkar fengið að reyna sig við stórslysastjórnun efnahagsmála hér á landi, með afar umdeildum afleiðingum. Fyrst tókst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, skipuð vinstri flokkunum Samfylkingu og Vinstri grænum handa við að endurreisa efnahagskerfið eftir leiðbeiningum AGS, eftir að hafa unnið stórsigur í kosningum í apríl 2009. Almenningur horfi upp á hvernig fyrsta hreina vinstri stjórnin í sögu lýðveldisins þjónaði kapítalismanum og endurreisti hann í því sem næst óbreyttri mynd, bæði fyrirtæki og banka. Af hálfu vinstri flokkanna var engin tilraun gerð til þess að gera upp við nýfrjálshyggjuna sem leitt hafði íbúa landsins fram af brún hengiflugsins.

Getu- og viljaleysið til að takast á við vald alþjóðlegra kapítalista var slíkt að til stóð að gera samninga, kennda við Icesave, þar sem Íslendingar skyldu greiða fullu verði fjármálaævintýri Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Mótmælahreyfing almennings reis upp gegn þessum áætlunum og eftir tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og dóm EFTA-dómstólsins, sem dæmdi Íslandi í hag, haltraði vinstri stjórnin til kosninga og beið risaósigur.

Framsóknarflokkurinn hafði sigur í kosningunum, hann hafði andæft Icesave samningunum og bauð í kosningabaráttunni vafasama skuldaniðurfærslu heimilanna. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var þó frá upphafi hálflömuð vegna fortíðarvanda beggja flokkanna. Þeir báru sameiginlega höfuðábyrgð á því hvernig komið var fyrir Íslandi, og þeir gátu ekki fremur en vinstri flokkarnir boðið upp á neina lausn á þeirri pólitísku kreppu, sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Óbragð almennings vegna þessa snérist fljótt upp í fylgishrun stjórnarinnar, fylgi flokkanna sem hafði samanlagt verið um 50% í kosningunum fór niður í 30% og hefur haldið sig þar.

Alvarlegast fyrir yfirstéttina er varanlegt fylgistap Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur misst fylgi hópa meðal almennings sem lengi voru honum trúir, og virðist ókleift að ná aftur því fylgi sem hann hafði fyrir 2008; 35-40%. Þetta er í sjálfu sér nægilegt til að valda miklum titringi í íslenska valdakerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá 1944 verið lykilflokkur í . Flokkurinn verður að sætta sig við að Framsóknarflokkurinn, rúinn öllu trausti, heldur forsætisráðherraembættinu í endurnýjaðri ríkisstjórn flokkanna í kjölfar afhjúpunar fjölmiðla á aflandseyjabraski forsætisráðherrahjónanna. Tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa einnig tekið þátt í siðferðilega óréttlætanlegum aflandseyjaviðskiptum, ásamt borgarfulltrúum , en flokkurinn hefur sýnilega ekki burði til að takast á við slíkt risa hneyksli, enda mjög laskaður eftir mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra og almennt eftir skelfilega frammistöðu sína í landsmálum undanfarna áratugi.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við afhjúpunum á aflandseyjaviðskiptum ráðherra lýsa afar djúpri kreppu í pólitíska kerfinu á Íslandi. Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að hafa verið svipt öllum trúverðugleika, en heldur engu að síður áfram setu sinni og þæfist við að boða til þingkosninga. Yfirstéttin stendur sem heild afhjúpuð frammi fyrir almenningi sem svindlarar, braskarar og skattsvikarar. Yfirgengileg spilling auðstéttarinnar er nú augljóst öllum sem sjá vilja, ekkert hefur breyst frá því í hruninu og íslenska yfirstéttin ætlar ekki, og vill ekki breyta neinu. Hún hefur enn á ný kastað hanskanum og berst nú um á hæl og hnakka í stéttastríði sínu gegn lágstéttunum sem nauðugar viljugar hafa þjónað henni.

Krafan um alþýðuvöld er skýr. Það er alls óvíst að kosningar og ný ríkisstjórn nái að byggja upp lögmætt stjórnkerfi, ef alræði auðstéttarinnar heldur áfram undir nýjum merkjum á bak við æ þynnri lýðræðistjöld. Almenningur lætur sér ekki nægja farsakennd stólaskipti sem engu skila. Fari svo að enn ein svikastjórnin setjist að völdum eftir næstu kosningar tekur við áframhaldandi barátta almennings, sem hlýtur að taka völdin af arðræningjunum með ráðum sem til þess duga.