Það sem læra má af sigri Trumps

Þá hefur Donald Trump unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Það gengur þvert gegn flestum skoðanakönnunum sem gerðar voru fyrir kosningarnar, en er í takt við afar hættulega, alþjóðlega þróun.

Hvernig gerðist þetta?

Fyrir tæpum tveimur árum fór að verða spennandi að vera vinstri maður. Í upphafi árs 2015 vann Syriza kosningarnar í Grikkland og hóf harða baráttu gegn niðurskurðarstefnu Evrópusambandsins. Podemos var í skoðanakönnunum stærsti flokkur Spánar. Þetta var betri árangur en náðst hafði þegar vinstri flokkarnir höfðu áður staðið sterkt eftir síðari heimsstyrjöld, þegar Evrópukommúnistarnir náðu miklu fylgi á 8. áratugnum. Nokkrum mánuðum síðar birtist Jeremy Corbyn og sigraði í leiðtogakjöri breska Verkamannaflokksins, og sósíalistinn Bernie Sanders var um skieð á góðri leið með að sigra Hillary Clinton í baráttunni um útnefningu til forsetaefnis Demókrataflokksins í Bandaríkjunum.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan gat maður látið sig dreyma um Sanders forseta og Corbyn forsætisráðherra, sem gætu kveðið nýfrjálshygguna í kútinn, en nú sitjum við uppi með Trump forseta og May forsætisráðherra, sem fylgja sömu nýfrjálshyggjustefnunni að viðbættum vænum skammti af ótta við innflytjendur.

Í nóvember 2016 er útlitið nefnilega öllu dekkra. Syriza fékk ekki þann stuðning frá sósíaldemókrötum í Evrópusambandinu sem flokkurinn hafði vænst. "Mið-vinstri" flokkarnir gengu í lið með íhaldsmönnum og brutu stjórn Syriza á bak aftur, jafnvel þvert gegn viðvörunum AGS um neikvæð efnahagsleg áhrif áframhaldandi niðurskurðaraðgerða í Grikklandi. Þetta leiddi síðan til að Podemos missti fylgi í skoðanakönnunum. Þótt Verkamannaflokkur Corbyns næði góðum árangri í sveitarsjórnarkosningum, þá hóf flokkseigendafélag Verkamannaflokksins uppreisn til að losa sig við hann eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna. Jafnvel þótt hann ynni nýjar leiðtogakosningar, þá hafa innanflokksátök í Verkamannaflokknum dregið máttinn úr honum þannig að ólíklegt er að flokkurinn geti náð fylgisforskoti Íhaldsflokksins. Í Bandaríkjunum vann forysta Demókrataflokksins markvisst gegn Sanders í baráttunni um útnefninguna til forsetaefnisins, og þvi lauk með því að hann beið ósigur fyrir Hillary Clinton. Sem síðan bíður nú ósigur fyrir Donald Trump.

Hver er Trump?

Þegar litið er yfir hin ýmsu útspil Trumps, þá rifjast upp fyrir mér kafli úr ævisögu Mussolinis eftir Göran Hägg, þar sem hann dregur upp mynd af einræðisherra sem "náði að tjá og svíkja nær öll þekkt viðhorf á þessari jörð. Hann var nútímalegri stjórnmálamaður en samtíðarmenn hans, þótt hugmyndin að nota einkennisbúninga, athafnir, skrúðgöngur og samsöng hafi gengið heldur langt. Hann minnir á stjórnmálamenn dagsins í dag, sem í stað þess að taka upp mál út frá hugmyndafræðilegri sannfæringu grípa til mála sem slá í gegn og gefa þeim sjálfum og flokk þeirra völd."

Skortur á skýrum pólitískum stefnumálum hefur verið einkenni á kosningabaráttu Trumps. Ekki bætir úr skák að Trump byggir mjög á rökum sem þekkt eru frá hinum klassíska fasisma. Hann ýtir undir kynþáttafordóma og byggir mjög á öfgakenndri karlmennskuímynd, líkt og Mússólíní gerði, og sem Pútin gerir einnig mikið af.

Mun meiri áhyggjum veldur þegar Repúblíkanar nota þessa stefnu í framkvæmd með því að leggja niður kjörstaði þar sem minnihlutahópar í Bandaríkjunum kjósa fyrst og fremst, sem vinnur gegn "voter suppression act" - lagasetning sem batt enda á kynþáttamismunun í kosningum. Önnur ógeðfelld aðgerð felst í því hvernig Íhaldsmenn í Bretlandi breyta marvisst mörkum á einmenningskjördæmum þannig að þeir tryggja sín sæti og veikja stöðu Verkamannaflokksins. Völdin eru þannig markvisst notuð til grafa undan hinum lýðræðislegu kerfum. Þetta eru ekki þróunarlönd í þriðja heiminum. Þetta eru ekki öfgahægriflokkar sem hafa klórað sig til valda í stormasömum stjórnmálum Austur-Evrópu (þótt hliðstæðir hlutir gerist einnig þar). Þetta ætti að valda öllum sem er annt um lýðræði áhyggjum.

Ýmsar raddir hafa heyrst í Noregi sem segja að Trump sé ólíklegri til að reka árásargjarna utanríkisstefnu en Clinton. Það tel ég að sé hreint lotterí. Í viðbót við að hann skortir með öllu ákveðna stefnu á þessu og öðrum siðum þá gerir töffaraímynd hans að verkum að hverju áreiti verður að svara af fullri hörku. Það má minna á að einmitt það sama var sagt um George W. Bush - að í forsetatíð hans yrði sjónum fremur beint að innanlandsmálefnum en árásargjarni utanríkisstefnu. Í tíð hans var þvert á móti farið út í árásargjörnustu og misheppnuðustu utanríkisstefnu Bandaríkjanna í manna minnum.

Þetta er langtímaþróun hjá Repúblíkönum. Eftir á að sjá er ekki erfitt að koma auga á að þau forsetaefni Repúblíkana sem unnið hafa kosningar undanfarna áratugi hafa einmitt verið afar öfgafullir og popúlískir. Og það hefur ágerst frekar en hitt: Frá Reagan til Bush yngri, frá Bush til Trump.

Hverjir eru kjósendur Trumps?

Einhverjir hafa nefnt að það sé verkalýðsstéttin sem sé hrygglengjan í hinni nýju popúlísku bylgju. Tölfræðin sýnir að svo er ekki. Kjósendur Trumps hafa meðaltekjur sem eru hærri en meðaltalið. Með klassísku Bordieu-sniði má samt sjá að þrátt fyrir góðar tekjur þá hafa þeir að meðaltali minni menntun - þeir hafa yfir að ráða meiri efnislegum en menningarlegum auði - meiri peninga en þekkingu. Þetta er vel þekkt mynstur frá hægri popúlískum flokkum. Að auki eru karlmenn og hvítir menn áberandi í kjósendahópi hans. Einfölduð mynd af kjósendahópi Trumps er þar með ekki hin fátæka verkalýðsstétt sem misst hefur vinnuna, heldur reitt og hrætt, lítið menntað millistéttarfólk.

Hverjir eru valkostirnir?

Það er eitt ákveðið stjórnmálaafl sem fremur en nokkuð annað hefur greitt götu hægripopúlista í Norður-Ameríku og Evrópu. Það eru mið-vinstri flokkarnir - sósíaldemókratar, eða í bandarísku samhengi hinir frjálslyndu Demókratar. Í fyrsta lægi notuðu þeir mun meiri tíma og krafta til að berjast gegn hreyfingum til vinstri við þá heldur en að berjast gegn hægri öflum. Við sáum það í því hversu hart var brugðist við uppgangi Syriza, og sú harka var af stjórnmálalegum orsökum. Við sáum nýlega þegar spænski sósíalistaflokkurinn valdi þegjandi eftir innanflokksuppgjör að styðja sitjandi hægristjórn fremur en afhenda Podemos völd. Við sjáum hið sama þegar flokkseigendafélag Verkamannaflokksins velur, fremur en nýta Brexit til að ráðast á veiklaðan Íhaldsflokk, að eyðileggja eigin flokk. (Hér grunar mann að margir Blairistar vilji miklu heldur hafa Theresu May sem forsætisráðherra en Corbyn), og við sáum þetta á heldur ógeðfelldum skemmdarverkum forystu Demókrata gegn kosningabaráttu Sanders.

Meðan Sósíaldemókratar gera allt sem þeir geta til að eyðileggja allar hreyfingar vinstra megin við sig, þá opna íhaldsflokkarnir sig fyrir kynþáttahyggju öfgahægristefnunnar. Við sjáum þetta á stefnumálum Theresu May, en einnig hjá Sarkozy í Frakklandi. Repúblíkanar í Bandaríkjunum eru að taka upp hugmyndafræði Tea Party-hreyfingarinnar.

Á sama tíma ráðast sósíaldemókratar um öll Vesturlönd einmitt á þær hreyfingar sem gætu verið svar við uppgangi öfgahægrimanna - þær hreyfingar sem dregið hafa þúsundir ungs fólks út á göturnar. Hvernig stendur á þessu?

Miðjan er dauð.

Að hluta til óttast Sósíaldemókratar að róttækar vinstripopúlískar hreyfingar muni leiða til þeirra eigin falls. Þeir hafa ekki enn skilið að hin svokallaða "Pasokíséring" (þróun lík þeirri sem varð í Grikklandi þegar fyrrum valdamikill flokkur sósíaldemókrata, Pasok, hvarf um leið og Syriza efldist, þróun sem líkist mjög hruni Samfylkingarinnar hér á landi - þýð.) er þeirra eigin sök og ekki annarra. Að hluta til heldur mið-vinstrið enn fast í þá hugmynd að baráttan um miðuna sé leiðin til valda. Vandamálið er að þessi greining er ekki lengur rétt. Í Bandaríkjunum hefði þetta átt að vera orðið ljóst við tvo kosningasigra George W. Bush (þótt fyrri sigurinn geti vart kallast sigur nema út frá ákveðnum forsendum). Hann vann ekki sigur með því að höfða til miðjukjósenda. Hann vann sigur með því að höfða til íhaldssömustu kjósendanna.

Tvennt orsakar þessa þróun. Annað er greinilegur klofningur í stjórnmálakerfinu, pólarísering milli hægri og vinstri á síðust áratugum, sem hefur aukist með hruninu og kreppunni eftir 2008. Þegar átök harðna eru færri sem sitja á miðjugirðingunni. Einnig hefur kosningaþáttaka minnkað mikið í mörgum löndum. Þá er þörf á því að beita aðferðum sem fær fólk til að fara og kjósa fremur en einhverju sem ekki hræðir hina ýmsu kjósendahópa. Það er kominn tími til að leggja af gömlum vana frá níunda og tíunda áratug og hugsa upp á nýtt.

Það eru heldur skuggalegir pólitískir straumar á kreiki í Evrópu og Bandaríkjunum nú um stundir. Þetta mun krefjast mikils af mörgum stjórnmálamönnum. Hægri menn mega ekki gera þau mistök að taka fasísku öflinn inn í hlýjuna til að tryggja sér völd. Sósíaldemókratar mega ekki að sínu leyti gleyma hinni gömlu og góðu kennisetningu Chr. Hornsrud: "Munið, óvinurinn er alltaf til hægri."

Þýðing: Árni Daníel Júlíusson