Af hverju geta ríkisstjórnir ekki stjórnað?

Á hvaða tímabili lifum við? Við upphaf 20. aldar var oft sagt að við lifðum á krepputímum, á tímum styrjalda og byltinga. Við upphaf 21. aldarinnar vantar hvorki kreppur né styrjaldir, en byltingar með stóru bé-i láta á sér standa, að minnsta í þeim skilningi sem lagður var í þær fyrir hundrað árum síðan. Kerfið sem þá átti að hrynja er jafnvel sterkara nú en þá og þau öfl sem áður vildu brjóta það niður reyna nú að styrkja það. Hið gamla neitar að deyja. Hið nýja getur ekki fæðst. "Úr liði er öldin!" sagði Hamlet.

Eftir seinna stríð var velferðarþjóðfélagið málmiðlun þjóðfélagsátaka sem hæglega hefðu getað leitt til byltinga. Baráttan gegn fasismanum hafði virkjað almenning og nú tók við stórveldistími jafnaðarmanna. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn smitaðist af jafnaðarstefnunni. Jafnaðarmenn fengu völdin á norðurhveli jarðar og skeið velferðarþjóðfélags rann upp með norrænni samvinnu þar sem öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir einsog í leikritinu sem flest börn á Íslandi kunna utanbókar. Við unga fólkið á Íslandi sátum í nýju lýðveldi og lásum Andrérs Önd á dönsku á meðan húsmæðurnar sýndu kvennablöðum nágrannaríkjanna mikla ræktarsemi, bæði Feminu og Alt for damerne.

"I was born in welfare state/ ruled by beareaucracy/ contained by civil servants/ and people dressed in gray," söng hljómsveitin Kinks á plötunni Muswell Hillbillies við upphaf áttunda áratugarins, nánar tiltekið árið 1971 þegar danska herskipið Vædderen sigldi inn í Reykjavíkurhöfn og Danir afhentu okkur handritin sem ekki bara innsiglaði sjálfstæði Íslendinga og vináttu þjóðanna heldur gaf fyrirheit um hvernig aðrar þjóðir gætu greitt úr fornum flækjum. Svona var velferðarþjóðfélagið gott. Synir og dætur alþýðunnar stóðu fluglæs á hafnarbakkanum og veifuðu fánum.

En skjótt skipast veður í lofti. Við lok sama áratugar var Margaret Thatcher komin til valda í Englandi og hóf nú styrjöld við kolanámumenn, velferðarkerfið og verkalýðshreyfinguna, allt eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði gripið inn í málefni Englands, fyrst Evrópuríkja. Líklega er pönktónlistin ein helsta menningarafurð Englendinga frá þessum tíma og að mörgu leyti viðbrögð við þeim þjóðfélagsbreytingum sem þá gengu í garð. No Future! varð slagorð tímans og þótti ýmsum sem nú væri tímibili fúturismans lokið, þeirrar stefnu sem Rússar og Ítalir hófu til vegs og virðingar upp úr fyrri heimstyrjöld, hvor með sínum hætti. En kannski var No Future! einmitt framtíðin og fútúrisminn að fæðast þarna, sá heimur sem við lifum í dag, einhvers konar blanda af sýndarveruleika og bóluhagkerfi hins skáldlega auðmagns sem engu eirir nema fjármagninu.

Það liðu tæp þrjátíu ár þar til Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greip inn í málefni Íslands og var Ísland land númer tvö í Evrópu til að njóta þess heiðurs, á eftir Englendingum. Síðan hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið gestur í svo mörgum Evrópulöndum að menn eru hættir að kippa sér upp við komu hans. Hvar sem fulltrúar hans koma hverfa þeir á braut með töskur fullar af skuldbindingum og því segja sumir að sjóðurinn komi fyrst þegar hann fer. Lánað er til að bjarga bönkum en skattgreiðendur framtíðarinnar gerðir ábyrgir fyrir reikningnum. Það er kveðjan til hinna óbornu en minnir ekki á samnefnt ljóð Bertolts Brecht.

...

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til okkar einn dag í október árið 2008 um svipað leyti og forsætisráðherrann birtist í sjónvarpinu og bað guð að blessa landið í beinni útsendingu. En hvernig átti guð að fara að því þegar Mammon hafði messað í átján ár og Margret Thatcher verið einsog María mey, hin heilaga jómfrú úr járni? Þegar bankarnir voru einkavæddir sögðu fulltrúar þeirra að nú færi hið dauða fjármagn í umferð, óveiddir fiskar veðsettir og allt keypt með lánsfé. Sögunni var lokið, öll samstaða út í hött. Allt varð gamaldags sem ekki var hægt að veðsetja. Lágvöruverslanir áttu að koma í staðinn fyrir stéttabaráttu, auðmenn í jólasveinabúningum leysa opinbera þjónustu af hólmi og bankarnir sjá um menningarviðburði.

Á Íslandi gaf Viðskiptaráð tóninn samanber þessa stefnuyfirlýsingu: "Röksemdir gegn opinberri reglusetningu og eftirliti á fjármagnsmarkaði eru meira sannfærandi en röksemdir með slíkum opinberum afskiptum. Miklu skynsamlegra væri að láta markaðsaðilum það eftir að setja sér eigin reglur og framfylgja þeim." Og um árangurinn af þessari stefnu segir: "Athugun Viðskiptaráðs sýnir að Alþingi fór í 90% tilfella að hluta eða öllu leyti eftir tilmælum ráðsins." Það þurfti ekkert ofbeldi til að koma þessum breytingum á, þvert á móti runnu þessar hugmyndir smurðar í gegnum Alþingi án þess að nokkuð stæði í vegi fyrir þeim. Það var frekar einsog löggjafinn væri í vinnu hjá viðskiptalífinu.

Hið norræna velferðarkerfi fékk nýtt nafn og var kallað "forsjárhyggja ríkisvaldsins" og nú hvísluðu frjálshyggjumennirnir hver að öðrum: Múrinn er hruninn! Næsta skotmark: Velferðarkerfið. Í byrjun hrukku auðvitað nokkrir brauðmolar af borðum. Nú áttum við ekki lengur að miða okkur við Norðurlönd, við vorum svo miklu fremri á flestum sviðum. Okkar menn fóru um Norðurlönd og keyptu fyrir lánsfé verslanir, stórhýsi, tyggingafélög, banka og fjármálastofnanir. Viðskiptalífið tók völdin í landinu. Þessi bylting er stundum nefnd þögla byltingin og hún fór fram víðar en á Íslandi. Þessu lauk með hruni. Forsætisráðherrann gafst upp og bað guð að blessa landið. Hægrisinnuðu flokkarnir fóru frá völdum eftir að hafa nánast sett landið á hausinn og skuldsett íbúana langt inn í framtíðina eða réttara sagt, fjöldamótmæli leiddu til þess að þeir sögðu af sér.

Eldar loguðu á Austurvelli. Þinghúsið var grýtt. Mjólkurafurðir og egg láku niður veggi þess og eftir gangstéttum. Meira að segja jólatréð sem Norðmenn gefa okkar árlega stóð í ljósum logum. Þetta eru mestu uppþot sem orðið hafa í landinu. Að lokum fór ríkisstjórnin frá og boðað var til kosninga. Vinstriflokkarnir sigruðu. Fyrsta vinstristjórnin með hreinan meirihluta var mynduð. Hún kallaði sig Norrænu velferðarstjórnina og var mynduð í Norræna húsinu. Allt hafði þetta yfir sér táknrænan blæ, að snúið væri af braut frjálshyggjunnar og inn á braut hinnar norrænu jafnaðarstefnu. Skrifuð var rannsóknarskýrsla um hrunið, níu bindi og embætti sérstaks saksóknara var stofnað til að rannsaka afbrot sem þátt í hruninu. Einnig voru sett fram loforð um nýja stjórnarskrá, nýtt kerfi í sjávarútvegi og fleira mætti telja.

Norrænu velferðarstjórinni eða vinstri stjórninni tókst sumt, sumt ekki. Hún setti sér stór markmið en megnaði ekki að framkvæma þau, ekki síst vegna þess að hún vildi standa í þessu ein með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ekki virkja fólkð sem kom henni til valda með sér. Þegar mótmælununum lýkur fyrir utan þing og stjórnarráð taka við mótmælaaðgerðir fyrir innan, mótmæli útgerðarmanna, fjármálstofnana og banka, í stuttu máli, þeirra sem í raunveruleikanum ráða; eða ráða þeir kannski raunveruleikanum? Norrænu velferðarstjórninni, vinstristjórninni, tókst ekki að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann róttæka hátt sem flestir vilja, ekki að koma í gegn nýrri stjórnarskrá og heldur ekki að endurskipuleggja fjármálakerfið í anda félagslegra sjónarmiða. Samtök útvegsmanna og bankarnir og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyndust sterkari en ríkisstjórnin og höfðu hana undir í flestum glímubrögðum og létu hana setja fram sín sjónarmið. En ríkisstjórninni tókst að standa vörð um velferðarkerfið sem er ekki sjálfgefið á tímum bankakreppu og skuldakreppu. Henni tókst að hluta að jafna tekjur í gegnum skattakerfið og ná tökum á efnahagsmálunum þannig að landið náði á ný fótfestu í alþjóðasamfélaginu, sem svo er nefnt. Spádómar um einangrun og volæði rættust ekki. Ríkisstjórninni tókst að halda niðri atvinnuleysi og standa vörð um náttúruna, samþykkja rammaáætlun, sem stóriðjukapítalismi núverandi ríkisstjórnar vill nú brjóta upp. Þó að ýmislegt hafi verið gert í skuldamálum heimilanna náðist engin lausn í þau mál og eru þau mál enn í slíku uppnámi að erfitt er að skilja heildarmyndina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti rammann og vildi sértækar aðgerðir í stað almennra leiðréttinga og því enduðu skuldamálin fyrir dómstólum eða umboðsmanni skuldara með þeim afleiðingum að deilur um tæknilegar útfærslur urðu ríkjandi á kostnað réttlætissjónarmiða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi líka niðurskurð í velferðarkerfinu en treysti sér ekki í þann slag þegar hann fann andstöðuna gegn þeim hugmyndum. En velferðarkerfið er engu að síður verulega laskað og nú er kominn hægri stjórn sem líklega mun laska það enn meir.

...

Í sumar var mynduð ný ríkisstjórn á Íslandi, hreinræktuð hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ef völva hefði séð fyrir komu þessarar ríkisstjórnar í miðri búsáhaldabyltingunni hefðu ekki margir álitið að spádómsgáfa hennar væri merkileg. Til marks um það eru nokkrir yfirlýstir hatursmenn búsáhaldabyltingarinnar nú komnir til valda og verma jafnvel ráðherrastóla. Sumir segja að vísu að ráðherrastólar hugsi sjálfstætt. Það skipti ekki máli hver sitji í þeim. Stóllinn hafi orðið. En það er önnur saga. Frekar að hún eigi við fyrri ríkisstjórn, fyrstu hreinræktuðu vinstristjórn í sögu lýðveldisins, en hún þótti standa sig svo vel við endurreisn fjármálakerfisins að haft var í flimtingum í höfuðstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hún tæki við völdum í Grikklandi. Nýja stjórnin hefur strax látið til sín taka og fært þeim efnuðu aftur hluta af því sem þeir töldu sig hafa tapað í gin samneyslu og velferðar, sem vinstri stjórninni tókst að ýmsu leyti að verja þrátt fyrir niðurskurð. Veiðigjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni hefur verið lækkað og þótti ekki hátt fyrir og kannanir sýna að meira en 80% þjóðarinnar vilja að sanngjarnt gjald komi fyrir nýtingu auðlindarinnar, enda er hún skilgreind sem sameign þjóðarinnar.

Sumir segja þessa nýju ríkisstjórn vera ríkisstjórn útgerðarmanna og eignafóks en landsamband útgerðamanna eru ótrúlega vel skipulögð samtök. Telji þeir sig verða fyrir skakkaföllum hefja þeir áróðursherð með blaðaauglýsingum, sjónvarpsauglýsingum, lýsa yfir lokun frystihúsa, í stuttu máli sagt, þeir veifa sinni svipu yfir öllu samfélaginu. Samt eiga þeir allt undir því komið að samfélagið sé sátt við þá en það er samfélagið ekki ef marka má kannanir. Þeir skipuleggja jafnvel mótmæli þar sem áhafnir mæta í vinnugöllum enda vellaunaðar og þola illa að missa vinnuna. En málið er ekki svona einfalt: Ríkisstjórnin var ekki kosin vegna stuðnings síns við útgerðina. Hún var kosinn vegna þess að Framsóknarflokkurinn sem fyrir nokkrum árum var deyjandi flokkur lofaði að leysa skuldavanda heimilanna.

Fyrri ríkisstjórn var tilbúin með almenna lausn á skuldavanda heimilinna, lausn sem hefði gilt fyrir alla en auðvitað ekki allir orðið ánægðir með, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sló á fingur hennar og vildi að hver maður ræki sitt eigið mál fyrir dómstólum, sem sé málaferli í stað þjóðfélagsbaráttu, og það varð úr. Nú leggst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og allir seðlabankar og lánastofnanir og matsfyrirtæki gegn tillögum framsóknarmanna og ríkisstjórnarinnar sem Framsóknarflokkurinn stýrir og þá er sagan komin í hring því stjórnarandstaðan ver allar þessar glæfralegu fjármálastofnanir og álitsgjafa.

Ríkisstjórnin var því kosin út á mál sem fyrri ríkisstjórn tókst ekki að leysa, jafnvel þótt hún væri líka kosin til að leysa þau. Svo virðist sem flestar ríkisstjórnir sem komast til valda um þessar mundir treysti sér ekki til að framfylgja eigin stefnuskrá. Hollande sem vann stórsigur í forsetakosningunum í Frakklandi lofaði að ráðast gegn spilltum og gráðugum fjármálaheiminum en skipaði síðan fjármálaráðherra sem grefur undan því ætlunarverki hans. Í miðjum uppþotum á Spáni komst hægristjórn til valda. Ekki nýtur danska vinstristjórnin mikilla vinsælda eftir því sem maður heyrir í fréttum. Obama kemst til valda í Bandaríkjunum með því að vekja vonir en veldur síðan vonbrigðum. Morsí vann sigur í Egyptalandi vegna þess að "framfaraöflin" studdu hann gegn andstæðing tengdum hernum. En svo er herinn allt í einu orðinn "framfaraaflið" og steypir Morsí af stóli.

...

"Úr liði er öldin! Ó, mig hryllir við þeim örlögum að kippa henni í lið." Var Hamlet með þetta? Eru þetta tímarnir sem við lifum? Það er ekkert einfalt svar. Af hverju verða ötulustu stuðningsmennirnir alltaf fyrir vonbrigðum? Á Íslandi eru kjósendur sagðir hafa gullfiskaminni. Svo gjósa menn upp í reiði og hneyslan yfir því hvað fólk er vitlaust í kjörklefanum. Hver dæmir? Hið gamla sem neitar að deyja. Hið nýja sem getur ekki fæðst. "Úr liði er öldin!"