AGS fær falleinkunn

bonnet-c2083_copy.jpg

"Skoðanir Sjóðsins stýra rannsóknum hans", "hugmyndafræðileg hlutdrægni", "sjálfsritskoðun", "fyrirframgefnar niðurstöður", "lítill fjölbreytileika í fræðilegum aðferðum og enn minni þegar kemur að því að meta reynslu", "þröngsýni", "greiningarramminn hentar ekki raunveruleika landanna sem eru í athugun", "endurtekið vanhæfi til að nýta rannsóknir innlendra fræðimanna" ... Þegar allt kemur til alls var betra fyrir spekinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að kastljósin beindust að framkvæmdastjóra hans, sem var handtekinn í New York 14. maí 2011, frekar en að nýjustu skýrslunni frá Óháðu matsnefndinni (The Independent Evaluation Office (IEO)) sem kom út viku síðar við algert tómlæti fjölmiðla.

Nú, eftir fjármálaóróann og skuldakreppuna, þegar alþjóðlegi veðlánaveitandinn hefur aftur verið settur við stjórnvölinn og leggur harðar aðhaldsaðgerðir á vaxandi fjölda landa sem föst eru í neti hans1 (Lettland, Úkraína, Rúmenía, Ungverjaland, Ísland, Írland, Grikkland, Portúgal ...), varpar könnun þessi sem fjallar um "Rannsóknir AGS: vægi og notkun"2 skæru ljósi á hag"vísindin" sem framkvæmdastjórar AGS treysta á þegar þeir kenna löndum, nær og fjær, góða hegðun.

Horfur í alþjóðlegu efnahagslífi (World Economic Outlook), Skýrsla um fjármálastöðugleika í heiminum (Global Financial Stability Report) og aðrar opinberar skýrslur AGS, sem leiðtogar heimsins lesa vandlega - og sem leiðtogar skuldugra landa lesa með skelfingu, eru fræðilegir hornsteinar Sjóðsins. Róttækar aðlögunaráætlanir (Structural Adjustment Program) sem lagðar eru á nýmarkaðslöndin eða lönd í kreppu byggja mjög á þeim. Fræðilega séð "stuðla [rannsóknirnar] að þróun og uppfærslu á fræðilegum líkönum og tólum sem liggja til grundvallar greiningarvinnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins." Til að ganga úr skugga um að svo sé í raun fór Óháða matsstofnunin gaumgæfilega í gegnum greiningar sérfræðinganna í Washington um áratuga skeið (1999-2008) og notuðu til þess trausta aðferðafræði: endurskoðun greina og skýrslna af hagfræðingum háskólanna, í samræmi við viðurkennda aðferðafræði háskólanna, spurningalistar voru lagðir fyrir ráðamenn fjárhags-og peningamála aðildarlandanna sem og hagfræðinga sem vinna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og fjöldi viðtala voru tekin við einstaklinga. Niðurstöðurnar benda til þess að í stað þess að næra stefnumótandi hugsun Sjóðsins þjóna rannsóknirnar því að réttlæta hugmyndafræðilegar forsendur hans.

"Margir ráðamannanna sem spurðir voru töldu að rannsóknir AGS væru mjög fyrirsjáanlegar og lokaðar fyrir tjáningu ólíkra skoðana. Þetta á við um allar greiningar Sjóðsins" að sögn skýrslugjafanna. Auk þess "virtust rannsóknir AGS fylgja fyrirfram gefnum skoðunum og stundum byggðist ráðgjöfin ekki á greiningunni". Þetta var einnig viðhorf margra þeirra utanaðkomandi fræðimanna sem löggðu mat á skýrslurnar. Í þeirra augum var Sjóðurinn "heltekinn af einni tegund skilaboða og tóku ekkert tillit til annarra sjónarhorna". Og það sem verra var í augum vísindamanna, sem vanir eru að setja fyrst fram vandamálið áður en lausnin er fundin, "var að flestar niðurstöður og ráðgjöf sem sett var fram í "Vinnupappírum" og "Almennum spurningum" áttu sjaldnast eitthvað skilt við greinagerðina sem fylgdi". Eftir að hafa farið í gegnum skýrslur um ríkisfjármál taldi einn matsmaðurinn sig greina þráhyggju með að lækka skatta og undraðist að fræðilíkanið sem aðallega var notað "gerði hvorki ráð fyrir tekjujöfnun (redistribution) né atvinnuleysi".

En vandræðalegasta gagnrýnin kemur innan úr stofnuninn sjálfri. Meðal hinna 714 hagfræðinga AGS sem svöruðu spurningarlistanum "töldu 62% sig "mjög oft" eða "frekar oft" knúna til að aðlaga rannsóknir sínar og niðurstöður afstöðu AGS. Viðtölin staðfestu þessa tilhneigingu: meir en helmingur starfsmannanna sögðu að þeir sjálfir hefðu reynslu af, eða þekktu dæmi um, að niðurstöðum hefði verið hagrætt í átt til þess sem talið var sjónarhorn stofnunarinnar á efnið". Til að forða því að einhver freistist til að bera áreiðanleika Sjóðsins saman við sovéska tölfræðinga sem voru þekktir fyrir að vera á undan væntingum ráðamanna, leggja skýrsluhöfundarnir til við stjórnendurna að þeir "opni sig fyrir öðrum fræðilegum sjónarhornum". Einnig telja þeir nauðsynlegt að leggja áherslu á að "fræðimennirnir verði að geta fjallað um vandamál án fyrirframgefinna niðurstaða né skilaboðum um að loka augunum".

Skýrslan hljómar sem lokaaðvörun. 10. janúar síðastliðinn hafði önnur skýrsla á vegum Óháðu matsstofnunarinnar um "Aðgerðir AGS í aðdraganda alþjóðlegu fjármála- og efnahagskreppunnar (IMF Performance in the Run-Up to the Financial and Economic Crisis: IMF Surveillance in 2004-07)" þegar gefið Sjóðnum falleinkunn. "Kreddufullar, fyrirframgefnar, skoðanir AGS stóðu í vegi fyrir því að sjóðurinn gæti almennilega greint vaxandi áhættuna" var staðhæft í skýrslunni. "Ríkjandi skoðun meðal starfsmanna AGS - sem er samheldinn hópur þjóðhagfræðinga (macroéconomistes) - var að agi og sjálfstýring (autorégulation) markaðarins nægði til að koma í veg fyrir meiriháttar vandamál fjármálastofnananna." Miskunnarlaust minntu skýrsluhöfundar á að "AGS hefði lagt áherslu á kosti skuldabréfavafninga (securitization)" og vitnuðu til skýrslu um Bandaríkin sem kom út 2007, nokkrum mánuðum fyrir hrun Lehman Brothers og bankakerfis Vesturlanda: "Viðskipta- og fjárfestingabankarnir eru í grundvallaratriðum í góðri fjárhagsstöðu og kerfisáhættan virðist lítil." Við lútum höfði fyrir slíkri skarpskyggni.


Franskur blaðamaður og aðstoðarritstjóri Le monde diplomatique

ViðhengiSize
Research at the IMF-Relevance and Utilization. May 20, 2011.pdf779.08 KB
IMF Performance in the Run-Up to the Financial and Economic Crisis - IMF Surveillance in 2004-07.pdf652.69 KB