Alþjóðavæðing á undanhaldi

Undanfarið ár hefur einkennst af undanhaldi alþjóðavæðingarinnar. Alþjóðasamningar eins og TTIP og TISA fjalla m.a. um auðveldari aðgang fjölþjóðafyrirtækja að vinnumarkaði einstakra þjóðríkja. Þeir voru í undirbúningi, en TTIP hefur nú verið lagður á hilluna. Það átti að vera samningur um „frjálsari“ viðskipti milli Evópusambandsríkja og Bandaríkjanna. Annar hliðstæður samningur milli Bandaríkjanna og Asíuríkja, TPP, er úr sögunni. Honum var sagt upp einhliða af hálfu Bandaríkjanna. Mikil leynd hefur ríkt um samningaviðræður um þessa samninga og lekar um efni þeirra verið fjöldamargir og vakið hörð viðbrögð almennings.

TISA, Trade in Services Agreement, er samningur sem íslenska lýðveldið hyggst eiga aðild að. Samningurinn beinist að því að „minnka höft“ á ýmsum þjónustuviðskiptum, svo sem á sviði heilbrigðisþjónustu, bankaviðskipta og samgangna. Evrópusambandið, Bandaríkin, Japan, Ástralía, Perú og fleiri ríki eiga aðild að þessum viðræðum auk Íslands. Þessar viðræður eru einnig háleynilegar, en lekar frá þeim sýna að samningurinn miðar að því auðvelda einkavæðingu í þjónustugreinum, að minnka réttindi verkafólks sem vinnur í þessum greinum og takmarka möguleika ríkisvaldsins til að hafa áhrif á starfsemi einkafyrirtækja á þessum sviðum.

Alþjóðasamtökin Attac og þar á meðal Íslandsdeild þeirra leggjast eindregið gegn þessum samningi og berst gegn honum ásamt mörgum öðrum almannasamtökum í Evrópu, Ameríku, Asíu og Eyjaálfu. Meðal þess sem fram hefur komið er að til stendur að auðvelda með TISA samningnum miðlun upplýsinga um einstaklinga á netinu, gera þær að betri söluvöru. Þetta heitir að „minnka höft“. Allar upplýsingar um ferðir fólks um netið eiga að vera aðgengilegar einkafyrirtækjum og söluvænar. Fulltrúar stórfyrirtækja á þessu sviði, Facebook, Amazon og Google standa yfir samningamönnum og segja þeim fyrir verkum. Þetta er gróft brot á almennum reglum um friðhelgi einkalífsins. Undirritun TISA hefur ítrekað verið frestað, en óljóst er hver staðan er í viðræðunum núna.

CETA, samningur um „frjálsari“ viðskipti milli Kanada og Evrópusambandsins var undirritaður nýlega þrátt fyrir harða andstöðu almennings í viðkomandi ríkjum. Hann gefur t.d. bandarískum fyrirtækjum ýmsa möguleika á að smjúga inn á Evrópumarkað gegnum Kanada, en Ísland á ekki aðild að þessum samningi.

Íslandsdeild Attac lýsir yfir andstöðu við einkavæðingu þjónustuviðskipta og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, hvort sem er af völdum alþjóðasamninga eða Óttars Proppé heilbrigðisráðherra Bjartrar framtíðar. Alþjóðavæðingin er á hröðu undanhaldi í bili, en full þörf er á því að almenningur haldi vöku sinni og fylgist með tilraunum auðvaldsins til að skerða réttindi verkafólks og raka til sín enn meiri gróða.

Íslandsdeild Attac                                                                                                              attac.is