ESB 2012 - Ekki verðugur friðarverðlaunahafi

ESB-fáni smækkuð.jpg

Friðarverðlaun Nóbels eru virtustu friðarverðlaun sem veitt eru. Með því að veita Evrópusambandinu verðlaunin árið 2012, er verið að verðlauna þau sem kynda undir vígbúnaðarkapphlaupi. Í ljósi þessa hafa nærri 50 tengd samtök tekið sig saman um að mótmæla verðlaununum, sunnudaginn 9. desember í Ósló.

Allt síðan norska Nóbelsnefndin tilkynnti ákvörðun sína 12. október 2012, hafa talsmenn verðlaunaafhendingar þessa árs haldið á lofti mikilvægi þess að viðurkenna sögulegt hlutverk ESB við að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu. Við getum fallist á þetta sjónarhorn. Í sögulegu ljósi er hlutverk Evrópusambandsins að stuðla að friði. Kola-og stálbandalag Evrópu, sem stofnað var árið 1950, stóð í vegi fyrir því að Þýskaland gæti endurhervæðst í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, og ESB hefur með tíð og tíma orðið að yfirþjóðlegri stofnun sem stuðlar að stöðugleika í milliríkjasamskiptum og samstöðu innan Evrópu. Hins vegar þykja okkur fullyrðingar um að Evrópusambandið stuðli enn þann dag í dag að friði mjög vafasamar. Það er því vafamál að ESB verðskuldi friðarverðlaun Nóbels eða að bandalagið uppfylli skilyrði þau sem Alfred Nóbel setti fyrir veitingu verðlaunanna.

Í erfðaskrá Nóbel er tekið fram að verðlaunin skuli veitt til heiðurs afvopnun og samdrætti í fastaherjum. Þetta samræmist illa Sameiginlegri öryggis og varnarstefnu Evrópusambandsins. Lissabon-sáttmálinn, sem öll aðildarríki ESB hafa staðfest og tók gildi 1. desember 2009, hvetur aðildarríkin til að efla hernaðarmátt sinn. Fullyrðingar um að ESB stuðli að afvopnun eru því villandi. Þvert á móti er ESB í stöðugri hernaðaruppbyggingu. Þetta er augljóst þegar skilyrðin fyrir björgunaraðgerðum ESB vegna skuldavanda ríkja á borð við Grikkland, Spán, Portúgal og Ítalíu eru skoðuð, en í öllum tilfellum er skilyrði aðstoðar að ríkin skæru ekki niður fjárlög til varnarmála og að ekki yrði dregið úr vopnainnflutningi.

Útgjöld Grikklands til hernaðarmála árið 2010 námu 7,1 milljörðum evra, sem er umtalsverð aukning frá árinu 2007, þegar útgjöldin námu 6,24 milljörðum evra. Helsta réttlætinginin fyrir svo miklum hernaðarútgjöldum er hætta á átökum við Tyrkland. Að Grikklandi steðjar þó engin bein hernaðarleg ógn og í ljósi þess hversu gríðarlegar skuldir Grikkja eru, mætti ætla að skynsamlegt hefði verið að draga úr útgjöldum til hernaðarmála. En meðan skorið er misskunnarlaust niður á öllum öðrum sviðum er ekki hróflað við þeim útgjöldum sem þó eru síst nauðsynleg. Svokölluðum björgunarpökkum sem Grikkir hafa neyðst til að taka við hafa fylgt þau skilyrði að ekki skuli skorið niður í hernaðarútgjöldum sem tryggir áframhaldandi vopnainnflutning. Um leið gefur þetta möguleika á að halda áfram hernaðaruppbyggingu þrátt fyrir skuldakreppunna.

Sem stendur hefur Evrópusambandið engan fastaher, en sambandið hefur engu að síður sameiginlega varnar og öryggisstefnu. Þá hafa pólítískar yfirlýsingar og orðræða sambandsins gefið til kynna að á þessu kunni að verða breyting. ESB hefur þróast í átt að svæðisbundnu stórveldi með hernaðarlega tilburði sem teygir sig langt út fyrir Evrópu. Innan sambandsins eru sterk öfl sem kalla eftir því að settur verði á fót sérstakur herafli sambandsins sem yrði óháður bæði ESB og NATO. Á undanförnum áratug hefur Evrópusambandið haft í frammi æ ákveðnari tilburði um að vera gildandi í hernaðar- og öryggismálum á alþjóðavettvangi. Efnahagslegum mætti ESB hafa fylgt hugmyndir um að sambandið afli sér sambærilegs máttar í varnarmálum, sér i lagi þegar kemur að íhlutunum á nærliggjandi svæðum. Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkis- og varnarmálaráðherra fimm Evrópulanda; Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Póllands og Spánar, sem gefin var út í nóvember síðastliðnum, eru ræddir möguleikar á hernaðarlegum og borgaralegum aðgerðum í löndum eins og Malí, Sómalíu, Líbíu, Georgíu auk vestanverðs Balkanskaga. Það er full ástæða til að spyrja hvort norska Nóbelsnefndin sé hér að taka þá áhættu að handhafi friðarverðlauna Nóbels muni í nánustu framtíð standa í umfangsmiklum hernaðaraðgerðum.

Nokkrir þeirra sem hafa tekið þátt í umræðum um réttmæti þess að Evrópusambandinu séu veitt friðarverðlaun Nobel hafa bent á að Evrópusambandið sjálft standi ekki fyrir vopnaútflutningi eða vörslu kjarnorkuvopna í Evrópu. Þar er horft fram hjá því að ESB er yfirþjóðleg stofnun sem lagar sig að hagsmunum aðildarríkjanna. Þó ESB flytji ekki út vopn hefur það lítið gildi þegar sambandið gerir ekkert til að draga úr eða koma í veg fyrir vopnasölu. Þess í stað auðveldar bandalagið vopnasölu milli aðildarríkjanna. Hergagnaiðnaðurinn er að mestu hluti hins innri markaðar ESB, sem örvar vopnasölu og auðveldar aðildarríkjum að koma sér í kringum löggjöf sem takmarkar framleiðslu eða útflutning á vopnum í viðkomandi landi, með því að flytja einfaldlega framleiðslu yfir í annað aðildarríki þar sem lög eru ekki eins ströng.

Fjölda alþjóðlegra stofnana og samtaka auk fyrrverandi handhafa friðarverðlauna Nóbels hafa gagnrýnt veitingu verðlaunanna þetta árið. Í Noregi hefur gagnrýnin komið bæði frá hægri og vinstri, og endurspeglað áratugagamla umræðu um aðild Noregs að ESB. Sú staðreynd að hvorki norskir fjölmiðlar, þingmenn né ráðherrar í ríkisstjórnum hafa getað þokað umræðunni um aukið samstarf Noregs við ESB, heldur aðeins styrkt andstöðuna, ber þess vitni um að við erum tilbúin fyrir að breytingar verði á því hvernig friðarverðlaun Nóbels eru veitt . Þessi atburður sýnir einnig glögglega að taka þarf til alvarlegrar skoðunar tillögu Norsku friðarsamtakanna um að norska stórþingið skipi nýja friðarverðlaunanefnd sem mönnuð væri fræðimönnum og aðgerðarsinnum sem hefðu meiri reynslu og dýpri þekkingu á alþjóðlegum friðarmálum.