FRÁSÖGN FRÁ FERÐ TIL MADRIDAR 7-9 OKT 2011

gsa 3 -.jpg

Living in debtocracy.

Debt in the North: Learning from the South

7th and 8th October in Madrid

Attac á Íslandi var boðið að senda fulltrúa á ráðstefnu um debtocracy. Undirritaður fór því til Madridar á Spáni helgina 7-9 október 2011. Ráðstefnan var skipulögð af samtökum sem heita hver skuldar hverjum. Samtökin eru blanda af áhugafólki um þjóðarskuldir og ecológíu(vistfræði). Samtökin hafa útibú víðs vegar um Spán og tengjast þar að auki mörgum öðrum grasrótarhópum. Samtökin eru m.a. virkur þáttakandi í 15M(15 maí hreyfingunni) á Spáni.

Dagskráin var bæði merkileg og góð. Þemað var að lýsa og greina skuldir Evrópuþjóða og leita lausna. Margir sem komu á ráðstefnuna hafa unnið við slíkt árum saman gagnvart þriðja heiminum og reynt var að heimfæra reynslu þeirra upp á Evrópu.

Eric Toussaint (CADTM) mikill reynslubolti hélt góðan fyrirlestur þar sem hann fór yfir skuldastöðu landanna í Evrópu og Suðri. Tók hann lönd eins og Ekvador og Argentínu sem dæmi. Þar hafa skuldir verið felldar niður, í Ekvador var dept audit, þar sem stór hluti skuldanna var dæmdur ólöglegur og því látnar niður falla. Árangurinn hefur sýnt sig í bættum þjóðarhag. Hann fullyrti að stór hluti skulda Evrópuþjóða væru ólöglegar og bæri að vísa heim til föðurhúsanna. Hann telur að mikið megi læra að löndunum í Suðri, hvernig þær berjast gegn skuldunum og afleiðingum þeirra. Hann ræddi nokkuð um Spán og óttast að þeir lendi í klóm AGS fyrr en síðar.

Í viðræðum mínum við spánska þátttakendur á ráðstefnunni kom fram ótti um að tækifærið yrði notað eftir kosningarnar í nóvember á þessu ári til að innlima Spán í "velgjörðarnet" AGS. Talið er nokkuð víst að hægri menn munu ná meirihluta í þeim kosningum. Á tímabilinu á milli ríkisstjórna er starfstjórn og óttast Spánverjar að hún muni semja við AGS. Þar sem það er gert eftir kosningarnar þá þurfa Social demókratar ekki að standa skil á því í kosningabaráttunni. Einnig mun nýja stjórnin taka við orðnum hlut og geta því þvegið hendur sýnar í augsýn almennings. Það sem er merkilegt er að leiðtogi hægri flokksins (Partido Popula) er fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Francó. Finnst mörgum Spánverjum eins og um draugagang sé að ræða.

Nýlega var stjórnarskrá Spánar breytt. Það gerði þingið. Nýja stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir því að Spánverjar geti neitað að borga skuldir sínar. Þessi breyting var aldrei borin undir þjóðina og eru Spánverjar mjög ósáttir við þessa meðferð hjá valdhöfunum. Spánverjum fannst það nokkuð merkilegt að við hefðum getað heimsótt forsetann þegar við afhentum honum undirskriftirnar vegna Icesave. Að við hefðum komist í eigin persónu þetta nálægt valdinu án þess að lögreglumenn þungvopnaðir væru allt um kring . Spánverjar lýstu inngrónum ótta sínum við yfirvaldið sem væri mjög erfitt að yfirstíga og valdhafarnir nýttu sér óspart.

Sem dæmi þá var hópur aktivista í Madrid sem tók sig til og ákvað að vera með glens og gaman í andyri þinghússins. Þau voru eingöngu með smá læti, stugguðu ekki við nokkrum manni og hlýddu öllum fyrirmælum. Hluti þeirra hefur nú verið ákærður og eiga þau yfir höfði sér 1000 evra sekt. Abel Esteban sem skaut yfir mig skjólshúsi í íbúðinni sinni er einn af þeim. Það eru miklar hliðstæður í þessu atviki við mál 9 menningana á Íslandi.

Annar hópur umkringdi þinghúsið og kom í veg fyrir að stjórnin kæmist inn í þinghúsið þannig hún varð að nota þyrlu til að komast leiðar sinnar. Núna hafa nokkrir verið ákærðir, lítill hluti, og eru ákærurnar byggðar á ljósmyndum. Þau eiga yfir höfði sér nokkurra ára fangelsi ef þau verða dæmd.

Spánverjarnir lýstu tveimur vandamálum í baráttu sinni sem við könnumst vel við líka. Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar sem á að kallast vinstri eru mjög ófúsir til að mótmæla. Þeir taka flokkshollustna fram yfir pólitískar skoðanir því ríkisstjórn Spánar framfylgir fyrirmælum nýfrjálshyggjupostulanna frá Whasington, stefna sem Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu hafa gert að sinni. Reyndar er eins vel hugsanlegt að tilurð ESB hafi alltaf snúist um að samhæfa aðgerðir í Evrópu gegn kjörum almennings og til að tryggja bankakerfinu stjórnunarlega yfirburði. Hvað varðar mótmælatregðu stjórnarsinna eigum við sama vandamál að strýða á Íslandi. Sérstaklega hjá fylgismönnum Samfylkingarinnar og þeirra skoðanabræðrum innan Vg virðist standa slétt sama um hvort almenningur sé arðrændur í þágu fjármálaaflanna í nafni stjórnmálaflokka þeirra.

Hitt vandamálið sem er kunnuglegt er að verkalýðshreyfingin á Spáni er heillum horfin eins og á Íslandi. Samkrull peningaaflanna og forustumanna hins vinnandi manns hefur leitt til algjörrar geldingar þeirra síðarnefndu og þekkjum við það vel hér á Íslandi.

Spánverjar eru duglegir að mótmæla því það voru tvær mótmælagöngur í Madrid á laugardagskvöldinu. Því miður vorum við svo seint búin á ráðstefnunni að við misstum af þeim. Í annrri voru kennarar að mótmæla niðurskurði og í hinni var verið að mótmæla einkvæðngu á vatnsveitu Madrid borgar. Áætlað er að selja 49% til einkaaðila. Spánverjum finnst það gróft að fyrirtæki sem almenningur hefur byggt upp og það eigi núna að leyfa einkaaðilum að taka til sín 49% hagnaðinum sem væri mun betur kominn hjá almenningi. Sá hópur ætlaði inn á Sol torgið en komst ekki vegna þess að lögreglan kom í veg fyrir það og sveimuðu lögregluþyrlur yfir okkur á meðan því ráðstefnan var rétt hjá.

Ef við víkjum aftur að ráðstefnunni þá tók ég þátt í tveimur umræðum. Fyrts var ég í borði með;

12-14h TABLE 2:

The crisis in other parts of Europe: perspectives.

- Greece: Leonidas Vatikiotis (Greek economist and journalist)

- Ireland: Andy Storey (Economist, AFRI - Action from Ireland)

- Iceland: Gunnar Skuli Armannsson (ATTAC Iceland)

- Portugal: Luis Bernardo (ATTAC Portugal)

Það var merkilegt að taka þátt í þessum umræðum. Í öllum aðalatriðum er saga þessara landa keimlík. Skortur á lánfé gerir bankana óstarfhæfa og almenningur er gerður ábyrgur fyrir skuldum þeirra. Skuldum sem við vitum lítið hvernig til var stofnað, hverjir eiga eða til hvers peningarnir voru notaðir. Það er nokkuð víst að peningarnir hafi verið notaðair til fjármálgjörninga, afleiðuviðskipta og annarrar spilavítishegðunar bankakerfisins. Ekki er möguleiki á að allir þessir fjármunir hafi farið í gagnlega uppbyggingu hjá viðkomandi þjóðum. Síðan er fljatskjárkenningin notuð óspart til að kenna almenningi um allt saman. Ég tel að ég hafi komist nokkuð skammlaust frá kynningu minni.

Leonidas Vatikiotis hagfræðingur hélt ræðu og lýsti ástandinu í Grikklandi. Við getum þakkað fyrir að við erum ekki á sama stað og Grikkir. Þvílíkur niðurskurður allt til að þóknast bankavaldinu.

Andy Storey hagfræðingur frá Írlandi hélt einnig ræðu. Sögur Írlands, Grikklands og Íslands eru svo keimlíkar að það er í raun með ólíkindum. Í raun sér maður að ákveðin uppskrift er að baki allri þessari atburðarás. Þau á Írlandi hafa sett á stofn debt audits-skulda dómstóla þar sem almenningur með aðstoð sérmenntaðra einstaklinga reynir að gera sér grein fyrir skuldum þjóðar sinnar. Það sem þau hafa komist að er að stór hluti skuldanna er til kominn vegna einkarekinna banka. Það er að segja að skuldir einkafyrirtækja hafa verið lagðar á herða almennings. Svo kallaður pilsfaldakapitalismi á Íslandi. Það var einnig merkilegt að heyra að þrátt fyrir mikla vinnu þá vita þau ekki hverjum þau eru að borga. Það er að írska ríkið, írskir skattgreiðendur sem eru að borga stórar fjárhæðir vegna einkafyrirtækja en ekkert er vitað hverjir þeir eru. Þessi fyrirtæki hafa ekkert nafn, hvað þá andlit. Slík hegðun flokkast víst undir svokallaða bankaleynd.

Spönsku grasrótarsamtökin hafa nú ákveðið að fara þessa leið eins og Írarnir og setja á stofn skulda réttarhöld til að fá einhverja vitneskju um lögmæti skuldanna og hverjir eru í raun lánadrottnar þeirra.

Ég tel það vel þess virði að við Íslendingar förum að dæmi Íra og setjum á stofn skulda dómstóla/réttarhöld/rannsóknarnefnd til að reyna að gera okkur grein fyrir því hversu stór hluti skulda almennings er kominn frá einkafyrirtækjum og hvaða fyrirtækjum. Auk þess er nauðsynlegt að sína fram á með rökum að skuldirnar séu ólögvarðar.

Síðar sama dag tók ég þátt í stóru pallborði þar sem reynt var að draga saman helstu atriðin. Þar gafst áheyrendum tækifæri til að spyrja okkur öll sem sátum þar.

17-19h: TABLE 3

Alternatives and resistance to the debt in the North. Building bridges with the South.

- With the participation of the majority of speakers from the tables 1 and 2 and Carmen Rodriguez of the Economics Commission - 15-M Movement in Madrid.

Spánverjarnir vildu vita um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem sumir héldu að hefði losað okkur úr klóm skuldanna. Því miður varð ég að valda þeim vonbrigðum og segja frá því að um væri að ræða lítinn hluta af skuldum Íslands og alls óvíst hvort málinu væri endanega lokið. Ég útskýrði hvernig stóð á því að við höfðum þennan möguleika og hvernig almenningur sameinaðist um að þrýsta á forsetann svo hann myndi ekki skrifa undir. Ég sagði frá stefnu AGS á Íslandi og að hún væri ekki í neinum meginatriðum frábrugðin frá stefnu þeirra í öðrum löndum. Gjaldeyrishöftin hefðu þó verið stílbrot og nokkuð sérstakt fyrir Ísland. Ég benti þeim á lánið okkar sem bíður í Whasington eftir því að gjaldeyrishöftunum verði aflétt. Auk þess varð ég að valda þeim vonbrigðum með nýju stjórnarskránna okkar. Hún ætti eftir að fara í gegnum nálarauga Alþingis og framkvæmdarvaldsins þannig að á endanum yrði hún sennilega ekki rótæk breyting almenningi í hag.

Frásögn mín um ástandið á Íslandi vakti athygli. Kom mörgum á óvart að í einu af ríkustu löndum í heimi þyrftu hjálparstofnanir að gefa fólki mat. Skuldastaða heimilanna kom mönnum einnig mikið á óvart. Almennt má segja að mikill áhugi sé á Íslandi. Ég var stöðugt spurður út í framgang kreppunnar hjá okkur og ástand og horfur. Ég held ég hafi lent í næstum því 10 viðtölum við fjölmiðla af ýmsu tagi, m.a var ég í viðtali hjá spænska sjónvarpinu og að sjálfsögðu attac.tv. Ekki fannst mér ég vera sleipur á svellinu en vonandi ekki landi og þjóð til skammar.

Eftir frásögn mína um Ísland fékk ég tækifæri að ræða um peninga og hugmyndir mínar tengdar þeim, tilurð þeirra og hverjir stjórna magni þeirra. Þar sem peningar eru búnir til sem skuld fannst mér þetta eiga erindi á þessum vettvangi. Ekki truflaði ég framgang dagskrárinnar því ég var alltaf sá eini sem hélt mér innan tímamarka, hinir virtust alltaf geta talað endalaust. Mörgum fannst þetta mjög athyglisvert, reyndar var greininlegt að hugsununin var mjög framandi fyrir mörgum og mikill misskilninur í gangi um hvað peningar eru. Það er reyndar mjög skiljanlegt vegna þess að öll slík umræða er ekki vel séð. Eldri prófessor frá Mexíco, Pablo Gonzáles Casanova sem sat til borðs með mér eftir fyrirlesturinn var mjög hrifinn af nálgun minni um peninga og auk þess var hann mjög áhugasamur um Ísland og hvernig er komið fyrir okkur.

Eric Toussaint (CADTM) ræddi einnig vandamálið með peningamyndun sem skuld í lokaumræðunni. Auk þess rötuð þessar hugmyndir að nokkru leiti inn í lokaályktun samkomunnar.

Það er ekki hægt að draga saman lokaniðurstöðu um heimsókn mína til Madridar án þess að ræða aðeins um gestgjafa mína. Spánverjarnir í grasrótinni eru greinilega mjög hugsandi og mjög virkir. Andinn í hópnum er mjög góður og það var greinilegt þegar við hittum aðra hópa að samkenndin er mikil. Kjarninn leggur mikla vinnu á sig en alltaf er til staðar þessi mikla lífsgleði og þörfin fyrir að umgangast fólk. Að fara út með þeim á kvöldin til að snæða er alveg sér upplifun sem ég hefði ekki viljað missa af. Þvílík gleði og umræða í hópnum. Að sjálfsögðu svolítill bjór og tabas með. Gestrisnin og umhyggjan fyrir Íslendingnum var mjög mikil og var vel hugsað um mig. Eftir stendur mikið þakklæti og ótrúleg innspýtinga af hugmyndum og krafti.

Alvaran er sú að fjármálavaldið sem ég vil kalla bankana til einföldunar hefur farið ránshendi um víða veröld og núna er röðin komin að Evrópu. Þjóðríkin eru sett í skuldaklemmu og síðan er hægt að setja þeim afarkosti. Réttindi almennings eru fjarlægð eða skorin niður að kröfu bankanna á þeirri forsendu að almenningur verði að bjarga bönkunum. Það ætti að vera öllum ljóst að bankarnir eru einkastofnanir sem haga sér án tillit tils þarfa þess umhverfis sem þeir lifa í. Markmið þeirra er að hagnast sem mest og góða kreppu má aldrei láta ónotaða til að ná auknum áhrifum og meiri auð frá almenningi til bankakerfisins.

Hvað sem öllu líður þá er augljóst að við ofurefli er að etja. Valdhafarnir beita fyrir sig lögreglu til að lágmarka öll mótmæli. Stóru fjölmiðlarnir brengla raunveruleikann og halda almenningi í villu. Verkalýðshreyfingin er máttlaus vegna mikilla tengsla við fjármálaöflin. Valdhafarnir snúa sér alltaf að bönkunum og spyrja þá ráða. Bankarnir-fjármálavaldið á alltaf síðasta orðið. Hagsmunir þess ganga alltaf fyrir hagsmunum almennings. Þess vegna hrópar spurningin á mann, hvað er það sem veldur því að valdhafarnir hlýða frekar bönkunum en æpandi bandóðum almenningi? Hvers vegna eru valdhafanri hræddari við bankana en okkur.

Reyndar dró ég ályktun mína saman á síðasta pallborðinu á þennann hátt; "við vitum að valdhafarnir eru hræddir við bankana, okkar verkefni er því að gera valdhafana hræddari við okkur en bankana". Undirtektir voru góðar og Eric Toussaint (CADTM) sem sat við hliðina á mér hvíslaði að mér, "já einmitt, góð samantekt á ástandinu".

Vald bankanna er að þeir búa til peningana okkar og hafa einkaleyfi á því eins og rakti í aukaræðu minni á ráðstefnunni í Madrid. Meðan við sættum okkur við slíkt ástand munum við eingöngu vinna varnarsigra. Ef okkur tekst að skilja eðli peninga, hvað þeir eru, hver býr þá til og hver stjórnar magni þeirra erum við strax nærri fullnaðarsigri. Þegar við fjarlægjum valdið frá bönkunum til að búa til peningana okkar og afhendum það almenningi, þar sem það á heima, er valdið okkar og sigurinn að auki.