Frjáls verslun og TISA-samningurinn

Ísland er þátttakandi í viðræðum um nýjan fríverslunarsamning sem heitir TISA-Trade In Services Agreement. Flestir fríverslunarsamningar snúast um miklu meira en að lækka tolla á landamærum. Þeir snúast mest um að skapa fjólþjóðlegum stórfyrirtækjum yfirþjóðlega stöðu gagnvart ríki og sveitafélögum. Með einkareknum dómstólum sem þjóðríkin samþykkja með undirskrift sinni að hlýta hafa fyrirtækin getað þvingað hið opinbera til að breyta lögum eða eyða lögum sem voru áður samþykkt. Þar með hefur lýðræðislegur réttur almennings verið tekin úr höndum hans og færður inn á borð forstjóranna.

Dæmin eru mörg og eru nokkur í þessum fyrirlestri sem ég hélt fyrir Attac á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á einkavæðingu af öllu tagi. Mörg sveitafélög í heiminum eru núna að afeinkavæða almannaþjónustu vegna hörmulegrar frammistöðu einkaaðila. Með TISA samningnum á að banna afeinkavæðingu jafnvel þó að meirihluti fólks í sveitafélagi vilji það. Almenningur á bara að sætta sig við misheppnaða einkavæðingu. Sérkennilegt að setja slíkar reglur í fríverslunarsamning.

Ástæðan fyrir því að fólk veit litið um samningana eða vinnu við þá er að þeir eru samdir í leynd. Almenningur fær ekki að fylgjast með en aðilar frá öðrum hagsmunaaðilum fá það.

Með fríverslunarsamningum hafa stórfyrirtækin getað breytt reglum og lögum um umhverfisvernd, heilsu og heilbrigðismál eða öllu öðru sem getur verið íþyngjandi fyrir þau og minnkað gróða þeirra.

Mikil andstaða er í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir fríverslunarsamningum. Bandaríkjamenn eru sérstaklega andsnúnir því þeir hafa haft slæma reynslu af NAFTA fríverslunarsamningnum s.l. 20 ár.

Til að almenningur geti myndað sér skoðun á væntanlegum TISA samningi verður að aflétta allri leynd af samningavinnunni. Að ætla að birta almenningi samninginn eftir að hann hefur verið samþykktur er í raun háðung og lítilsvirðing við lýðræðið. Þess vegna verðum við að mótmæla þessu framferði framkvæmdavaldsins og krefjast þess að almenningur eigi síðasta orðið í þessu máli.