Gegn TISA og TTIP: Aðgerðadagur um alla Evrópu!

Stop TTIP CETA TISAStop TTIP CETA TISA

Í dag mun almenningur um alla Evrópu koma saman og mótmæla á margvíslegan hátt tveimur milliríkjasamningum sem nú eru í undirbúningi. Annarsvegar er um að ræða svokallaðan TISA samning, (Trade in Services Agreement), sem kveður á um "frjáls" þjónustuviðskipti, og hins vegar fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership). Báðir samningarnir kveða á um svokölluð "frjáls" viðskipti og látið er sem þeir verði til mikilla hagsbóta fyrir íbúa þeirra landa sem samþykkja þá. Hið rétta er að þeir þjóna einvörðungu hagsmunum stórfyrirtækja, skerða réttindi launafólks og framselja vald til alþjóðlegra auðhringja um leið og þeir grafa undan lýðræðislegum möguleikum fólks til þess að hafa áhrif á eigin samfélög.

Mikil leynd hefur hvílt yfir samningaviðræðunum og komið hefur verið í veg fyrir að almenningur geti fylgst með gerð þeirra og innihaldi; samkvæmt TISA samningnum á efni hans að vera leynilegt í fimm ár eftir undirritun. Með því er komið í veg fyrir að almenningur geti veitt lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum aðhald og geti á upplýstan hátt fylgst með framgangi fyrirtækja. Öllum hlýtur að vera ljóst að slík leynd gengur þvert á allar hugmyndir um lýðræði.

Efni TISA samningsins hefur verið birt af Wikileaks og í kjölfarið fjallaði vefritið Kjarninn um samninginn. Fram hefur komið að samningurinn veitir fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum heimildir til að sinna þjónustu sem er í eðli sínu almannaþjónustu; með því að færa hana í hendur einkafyrirtækja lýtur hún lögmálum markaðarins, en ekki lýðræðislegum völdum almennings, eins og eðlilegt er.

Þá felur TISA-samkomulagið í sér að stjórnvöld geta ekki tekið aftur yfir opinbera þjónustu ef einkavæðing hennar mistekst. Reglum um vinnuöryggi og heilsu verkamanna eru settar þröngar skorður, sem og reglum um réttindi farandverkamanna. Einnig er í samningunum grafið undan möguleikum þjóðríkja til að setja reglur um umverfisvernd og neytendavernd, eða hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og menntun, sem og opinberu eftirliti með orkuframleiðslu og mengun.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 krafðist almenningur um heim allan raunverulegs lýðræðis og þess að hagsmunir fólks yrðu fremri hagsmunum fyrirtækja. Áherslur TISA og TTIP, og leyndin sem hvílir yfir samingaviðræðum ganga í berhögg við þessar kröfur.

Attac á Íslandi lýsir yfir fullum stuðningi við hinar alþjóðlegu aðgerðir gegn TISA og TTIP og krefst þess að Ísland dragi sig útúr TISA viðræðunum.

Stjórn Attac á Íslandi.