Nýlendan Ísland?

Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingurÁrni Daníel Júlíusson sagnfræðingurÍ byrjun árs árið 2009, rétt eftir að mótmæli almennings höfðu fellt stjórn Geirs Haarde úr sessi, voru fimm greinar ritaðar um Ísland sem nýlendu í sögulegu samhengi. Þær voru ætlaðar til birtingar í Dagblaðinu Nei. en ekki varð af því að þær birtust þar af einhverjum orsökum, sem ég man ekki nú.

Greinarnar voru hugsaðar sem innlegg í umræðuna um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna út frá sjónarhóli sagnfræðinnar. Staða Íslands í samfélagi þjóðanna var þá ofarlega á baugi vegna hrunsins og þáttar alþjóðavæðingarinnar í henni. Var Ísland á leið í einhvers konar nýlendustöðu vegna hrunsins? Yrði Ísland skuldanýlenda alþjóðlega fjármálakerfisins? Íslenskur almenningur, ýmsir stjórnmálamenn - sérstaklega Ögmundur Jónasson, fylgismenn hans og fleiri - höfnuðu því á árunum 2009-2011 að svo yrði, með baráttunni gegn stefnu ríkisstjórnar Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu. Greinarnar voru skrifaðar áður en þetta kom á daginn, en þau viðhorf sem þar koma fram eru fullgild eftir sem áður.

Það meginviðhorf sem birtist í greinunum er að Ísland hafi ekki verið nýlenda einhvers nýlenduveldis, t.d. á 19. öld og framan af 20. öld, sem var megintímabil hefðbundinnar kapítalískrar nýlendustefnu. Oft hefur verið talað um að Ísland sé einhvers konar póst-kólóníal samfélag, líkt og Afríkuríki. Í því samhengi er bent á að fyrr á öldum hafi aldrei þróast neins konar borgaralegt samfélag eða kaupmannastétt. Rétt er að lénsk kaupmannastétt varð aldrei til hér, eins og efldist í Lübeck og Hamborg á 14. og 15. öld og í Kaupmannahöfn á 16. og 17. öld. Þegar um 1800 voru þó orðin til drög að kaupmannastétt hér á landi í Reykjavík, Hafnarfirði og annars staðar, en það er raunar ekki mergurinn málsins að mínu áliti.

Á 17. og 18. öld varð hér mikil endurnýjun varðandi starf ríkisvaldsins í samfélaginu í tengslum við þróun ríkisvalds í dansk-norska ríkinu. Á því tímabili varð til á Íslandi, eins og annars staðar, öflug stétt embættismanna, það sem nefna mætti embættisborgarastétt. Hollenski fræðimaðurinn Norbert Elias telur að sú menntaða stétt lögfræðinga og guðfræðinga sem réði ríkjum í norðurhluta Evrópu á þessum tíma hafi jafnvel skipt meira máli hvað varðar þróun kapítalisma en kaupmannastéttin sjálf. Íslenska embættismannastéttin varð til upp úr landeigendastéttinni íslensku, rétt eins og hliðstæð stétt í Danmörku, Þýskalandi og víðar.

Þessi stétt átti lykilþátt í þeim miklu breytingum sem urðu í þessum löndum um 1800, þegar nýjungar í samfélagsmálum og tækni sem uppruna áttu í Hollandi og Bretlandi voru teknar upp í stórum hlutum Evrópu, Norðurlöndunum, Þýskalandi, Frakklandi, Norður-Ítalíu og víðar. Alls staðar hófst hagvöxtur og mönnum varð starsýnt á miklar tækninýjungar eins og gufuvélar og járnbrautir. Meginþáttur breytinganna var þó umskipti í því hvaða stétt var handhafi ríkisvaldsins. Áður hafði það verið aðalsstéttin með landeignum sínum og yfirráðum yfir leiguliðastéttinni, en nú var henni smám saman steypt af stóli í sveitunum og þær innlimaðar í kapítalíska hagvaxtarþróun. Bændur eignuðust jarðir sínar og fóru að framleiða til sölu á kapítalískum markaði. Ríkisvaldið var nú í höndum borgarastéttarinnar, sem skipulagði samfélagið með því út frá eigin þörfum.

Þessi þróun var algerlega hliðstæð hér á landi og í nágrannalöndunum. Að minnsta kosti er ljóst að hagvöxtur hófst hér upp úr 1800 og staða sveitanna gagnvart markaðnum gjörbreyttist. Skilningur á þessu er ekki síður mikilvægur nú en 2009, þegar greinarnar voru skrifaðar, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu um þjóðfélagsbyltingu hér á landi og annars staðar sem hefur orðið eftir Búsáhaldabyltinguna. Hvað er bylting? Hvernig verður hún og hvenær? Hvernig tengist það málefnum sem nú eru ofarlega á baugi eins og umsókn um aðild að Evrópusambandinu? Í eftirfarandi greinum eru lagðar fram nokkrar hugmyndir sem vonandi geta nýst í þeirri umræðu.

Nýlendan Ísland 1 - til 1914

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Nýlendan Ísland 5: Um 1990