Skýrsla stjórnar Attac

RTEmagicC_Kanzleramt_01.jpg.jpg

Skýrsla stjórnar Attac, flutt á aðalfundi Íslandsdeildar samtakanna, þann 26. nóvember, 2011.

Kæru fundargestir, velkomin.

Síðasti aðalfundur Attac var haldinn 14. nóvember, fyrir rúmu ári, í Reykjavíkurakademíunni.

Þá var fyrsta stjórn samtakanna endurkjörin, í henni sátu: Gunnar Skúli Ármannsson, Árni Daníel Júlíusson, Bjarni Guðbjörnsson, Einar Már Guðmundsson, Salvör Gissurardóttir, Sigurlaug Ragnarsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir.

Við höfum því starfað saman síðan samtökin voru formlega stofnuð hér á Íslandi árið 2009. Það er því sannarlega kominn tími á endurnýjun. Og ég vona að hér í dag sé mætt fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í starfinu.

Í nóvember 2010 fór ég til Osló í boði norsku Attac samtakanna, og flutti erindi á Globaliseringskonferansen, Hnattvæðingarráðstefnunni. Einar Már var þar einnig sem gestur og flutti erindi. Þetta var stór ráðstefna, sótt af yfir 1500 manneskjum, aktivistum og almenningi, hvaðanæfa að úr veröldinni. Ég tók þar þátt í pallborðsumræðu með áhugaverðu fólki, ma. Patrick Bond,  og Erik Reinert

Það var merkilegt að sjá með eigin augum hversu fjölmörg og fjölbreytt við erum sem viljum segja upp nýfrjálshyggjunni og skapa nýja og réttláta veröld.

Í desember áttu samtökin jólafrí, en í janúar 2011 héldu áfram bíósýningar í samstarfi Hreyfinguna og Gagnauga. Að þessu sinni sýndum við myndina Zeitgeist: Moving forward í Bíó Paradís.

Í febrúar sýndum við myndina South of the Borders eftir Oliver Stone.Myndin fjallar um pólitískar og efnahagslegar umbreytingar í Suður-Ameríku.

Stjórn samtakanna ályktaði um auðlindir landsins, þar sem við kröfðumst þess að ríkisstjórnin stæði við gefin loforð um að undið yrði ofan af einkavæðingu orkuauðlinda landsins.

Við ályktuðum líka í febrúar vegna Icesave, í þeirri ályktun segir ma.:

"Attac á Íslandi hafnar öllum samningum og krefst þess að Icesave verði rannsakað sem sakamál.

Einnig krefjumst við þess að öll gögn málsins verði gerð opinber og að þáttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði rannsakaður sérstaklega. Við fordæmum ólýðræðislega og ógagnsæja meðferð íslenskra valdhafa á málinu. Framferði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar gengur þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarflokkanna um heiðarleika og lýðræðislega stjórnarhætti.

Krafan um ríkisábyrg á Icesave er íþyngjandi afturvirk lagasetning á íslenskan almenning. Sömu aðilar og krefjast þess nú að skuldafjötrar séu lagðir á alþýðu landsins telja ekki koma til greina að afturvirk lög verði sett á fjársafnseigendur.

Baráttan gegn Icesave samningnum er hluti af alþjóðlegri baráttu almennings gegn því að kostnaðinum af kerfiskreppum fjármagnsins sé ævinlega velt yfir á þá sem enga ábyrgð bera.

Íslandsdeild Attacsamtakanna fylkir liði með alþýðu heimsins, sem nú rís upp í hverju landi á fætur öðru til að bylta af sér oki misskiptingar hins kapítalíska kerfis og krefst frelsis, efnhagslegra og félagslegra mannréttinda og síðast en ekki síst lýðræðis.

Félagar, sækjum fram sameinuð og kveikjum elda byltingar!"

Í mars héldu samtökin opinn félagsfund í Reykjavíkurakademíunni. Gestur fundarins var Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og þingkona, sem fjallaði um skuldsetningu ríkissjóðs.

Í mars ályktuðum við vegna loftárásanna á Líbíu. Við fordæmdum fjölmiðla, alþjóðastofnanir, ríkisstjórnina og svo mætti lengi telja. Meðal annars sögðum við þetta:

"Norræna velferðarstjórnin sem svo var kölluð hefur fallið á hverju prófinu á fætur öðru og nú þegar sögulegir atburðir eiga sér stað í fjarlægum heimshlutum, sýnir hún vítavert gáleysi og tekur þátt í leik þeirra yfirvalda sem með hegðun sinni síðastliðinn áratug hafa farið fram af fullkomnu miskunarleysi gegn almenningi í Írak, Afganistan, Haíti, Pakistan, og Rómönsku Ameríka, þar sem tilraunum alþýðunnar og bólivarískra stjórnvalda hefur verið mætt með ósjálfráðum viðbrögðum afturhaldsafla heimsvaldastefnunnar, og síðast en ekki síst gegn eigin borgurum.

Stjórn Attac á Íslandi stendur með alþýðu allrar veraldarinnar í baráttunni fyrir réttlátum heimi. Við stöndum með aröbum í baráttunni gegn einræðisherrum, strengjabrúðum vestrænna hagsmuna, og fyrir lýðræði. Þó að ekki sé hægt að fullyrða um hver þróunin verður eru arabar einfærir um að leiða baráttuna til lykta með stuðningi okkar, ekki inngripum. Loftárásir stórvelda grafa undan allri slíkri baráttu og kynda undir ófriðarbáli á þeim landsvæðum sem fyrir þeim verða.

Stjórn Attac á Íslandi krefst þess að íslensk stjórnvöld láti umsvifalaust af stuðningi við loftárásirnar og beiti sér þess í stað fyrir lýðræðislegri og friðsamlegri lausn á átökunum."

Í apríl sýndum við í samstarfi við Hreyfinguna og Gagnauga heimildarmyndina Flow, for the love of water í Bíó Paradís. Eins og áður var aðgangur ókeypis, og mæting góð.

Í apríl sendum við frá okkur ályktun eða öllu heldur yfirlýsingu, þar sem við óskuðum þjóðinni til hamingju með Icesave atkævæðagreiðsluna:

"Stjórn Attac á Íslandi hvetur íslenska kjósendur til að hafna Icesave samningnum og senda með því afdráttarlaus skilaboð um að almenningur; launþegar, námsfólk, eftirlaunafólk, atvinnulausir, kærir sig ekki um að borga stöðugt reikninginn fyrir kreppur fjármálakapítalismans. Stjórn Attac hvetur íslenska kjósendur til að sýna almenningi í veröldinni allri að hægt er að neita að borga skuldir þær sem auðstéttirnar stofna til."

Einnig:

"Fjármálakerfi heimsins byggist á því að einkabankar fái að leika lausum hala á kostnað almennings og að tapið sé ævinlega þjóðnýtt. Til þess að borga þessa reikninga er svo miskunnarlaust skorið niður í almannaþjónustu. Þessu eigum við að hafna. Við segjum nei! Nei við því að hagnaður sé einkavæddur og tap þjóðnýtt. Nei við heimsauðvaldinu. Nei við Icesave."

Í apríl tókum við einnig þátt í tveimur mótmælaaðgerðum vegna loftárása Nató á Líbíu. Sú fyrri var mótmælastaða þann 12. apríl, fyrir utan stjórnarráðið, og svo var haldinn útifundur 14. apríl, á Lækjartorgi. Þar töluðu Lárus Páll Birgisson, Sólveig Anna, Jónsdóttir Kristín Ómarsdóttir og María S. Gunnarsdóttir.

Í maí sendi stjórnin frá sér stuðningyfirlýsingu vegna mótmælanna á Spáni. Þar segir ma.:

"Enn á ný sannast að tryggð hefðbundinna stjórnmálaafla er ekki við alla alþýðu fólks heldur við hina raunverulegu valdastétt; þá sem eiga fjármagnið. Almenningur borgar því kreppu hinna ríku með hærri sköttum, stórskemmdu velferðarkerfi og tilveru sem einkennist af kvíða yfir ótryggri framtíð.

Eins og á Spáni hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og hinir kapítalísku fjölmiðlar hundsað raunverulegan vilja almennings. Við viljum ekki niðurskurð eða ríkisaðstoð við gjaldþrota banka, ekki endurreisn gjaldþrota kerfis. Við krefjumst breytinga nú þegar! Attac á Íslandi er stolt af því að Spánverjar horfa til baráttu Íslendinga veturinn 2008-2009 og einnig uppreisnarinnar gegn þrálátri kröfu stjórnvalda um að skuldir einkaaðila skuli ríkissvæddar. Þrátt fyrir að hér væri háð yfirgengilegt áróðursstríð íslenskrar elítu gegn hagsmunum skattgreiðenda og allri alþýðu fólks létu kjósendur ekki blekkjast. Og barátta okkar vakti von í hjörtum annara, enda alþjóðleg líkt og öll barátta almennings við arðránsöflin á tímum hnattvæðingar og nýfrjálshyggju.

Félagar, látum því kröfuna enduróma um alla heimsbyggðina, frá Spáni til Íslands, Bandaríkjanna til Egyptalands: Democracia Real YA! Raunverulegt lýðræði strax!"

Í júní sýndum við ásamt Hreyfingunni og Gagnauga heimildarmyndina Inside Job í Bíó Paradís.

Í júlí var hér á landi hópur fólks úr hreyfingu Spánverja, Indignados, í heimsókn til að vinna að heimildarmynd. Við hittum og spjölluðum við þau og reyndum að vera þeim innan handar.

Í ágúst ályktaði stjórnin um starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sl. 3 ár:

"Starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi hefur fyrst og fremst falist í að endurreisa fjármálakerfið á forsendum nýfrjálshyggjunnar, í þeim anda sem leiddi til hrunsins. Á meðan reikningurinn fyrir syndir auðstéttanna er sendur alþýðunni tíðkast enn á ný ofurlaun innan bankakerfisins á Íslandi, og bankarnir markaðssetja nú sem áður draumsýn um glæsta tilveru, byggða á skuldsetningu. Öllum má vera ljóst að leikurinn er hafinn á ný, þrátt fyrir að hér sé gríðarlegt atvinnuleysi og mikill landflótti, þrátt fyrir að launþegar hafi tekið á sig miklar byrgðar, þrátt fyrir að enn sé boðaður niðurskurður í samfélagsþjónustu. Þetta er algerlega óásættanlegt út frá réttlætissjónarmiðum, og gengur þvert á öll loforð stjórnarflokkanna tveggja í aðdraganda alþingiskosninganna 2009.

Krafa Attac á Íslandi er þessi: Að kostnaðinum við arðránsævintýri fjármagnsaflanna verði að fullu og öllu létt af almenningi, skuldirnar sem urðu til í hruninu eru honum óviðkomandi. Að niðurskurðarstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar verði snúið til baka, að launþegar jafnt og ellilífeyrisþegar, atvinnulausir og námsmenn verði varðir fyrir ágangi banka og fjármálastofnana. Að mótuð verði stefna í ríkisfjármálum sem tekur mið af því að enn einu sinni hefur kapítalisminn orsakað kreppu, sem takast þarf á við um ókomna tíð og að fáránlegt er að láta sem ekkert annað standi til boða en niðurskurðarhnífur helstu hönnuða kerfisins."

Í ágúst voru samtökin aftur með á Menningarnótt, eins og á síðasta ári. Dagskráin bar yfirskriftina Önnur veröld er möguleg - Enginn er ólöglegur.  Í þetta sinn vorum við í samstarfi við No Borders Reykjavík. Við vorum aftur fyrir framan Hegningarhúsið og buðum uppá ýmiskonar menningarlega skemmtun; tónlist, ljóðalestur, gjörninga og Food Not Bombs bauð uppá mat. Atburðurinn var frábærlega vel heppnaður og skemmtilegur, og vonandi er nú komin á hefð fyrir Attac á Menningarnótt.

Miguel Marques heimsótti okkur í ágúst. Hann er frá Portúgal og var hér að vinna að heimildarmynd.

Í ágúst flutti ég fyrirlestur í Róttæka sumarháskólanum, sem fjallaði að mestu um Attacsamtökin, og AGS, hér á landi og víðar.

September var rólegur. Árni Daníel og Einar Már hittu sendiherra Venesúela, Jose Sojo, og áttu við hann óformlegt spjall.

Október var viðburðarríkur.

Gunnar Skúli til Spánar og tók þar þátt í ráðstefnu sem bar yfirskriftina Living in debtocracy: Debt in the North: Learning from the South. Þema ráðstefnunnar var að lýsa og greina skuldir Evrópuþjóða og leita lausna. Þið getið lesið ýtarlega lýsingu Gunnars Skúla á ráðstefnunni í greinin hans FRÁSÖGN FRÁ FERÐ TIL MADRIDAR 7-9 OKT 2011

Svo rann upp 15.október, alþjóðlegur baráttudagur fyrir raunverulegu lýðræði, en ekki því fjármálaræði sem öll veröldin býr nú við. Við í Attac, ásamt fjölmörgum öðrum, skipulögðum torgtöku, tókum Lækjartorg. Þar vorum við ma. með gjallarhorn og gestum gafst kostur á að koma hugmyndum sínum um lausnir eða kvörtunum vegna ástandsin á framfæri við þá sem vildu hlusta. Við buðum líka uppá súpu, og þegar mest var voru um 400 manns á Lækjartorgi. Sem er ansi fín mæting, jafn margir söfnuðust td. saman í Osló.

Einnig tók Einar Már þátt í Attac ráðstefnu í Berlín, þann 15. október. Hún bar yfirskriftina Krisenanhörung in Berlin: Für ein solidarisches Europa. Aðrir þátttakendur voru ma. Katarina Kitidi, höfundur heimildarmyndarinnar Debtocracy og utanríkisráðherra Ekvador, Ricardo Patiño. 

Við höfum haldið úti vefsíðu, og hefur sú vinna að mestu verið unnin af Bjarna Guðbjörnssyni, sem á miklar þakkir skildar fyrir það.

Þar höfum birt okkar eigið efni, greinar sem við höfum þýtt, ályktanir frá öðrum Attac deildum ásamt ýmsu öðru.

Við þýddum td. nýlega sameiginlega unnin bækling frá Evrópuneti Attac "Hvernig er hægt að breyta ríkjandi þjóðskipulagi kapítalismans?" ,þar sem settar eru fram lausnir og hugmyndir.

Að lokum:

Stjórn samtakanna hefur hist reglulega, en við höfum því miður ekki haldið nógu marga opna félagsfundi og það þykir mér leitt. Það skýrist kannski að mestu afþví að allt okkar starf er unnið í sjálfboðavinnu, og öll þurfum við líka að sinna skydum okkar við raunhagkerfið, og auðvitað fjölskyldur okkar osfrv. Því ekki vantaði fundaefnin.

Ég er samt mjög ánægð með starf okkar, og stolt af því að á Íslandi starfi samtökin og séu komin til að vera.

Fyrir hönd stjórnar Attac á Íslandi,

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður.