"Verulega nytsamleg þekking": Marxismi, fjöldahreyfingar og samskipti aðgerðasinna og fræðimanna.

Sociology - Laurence Cox 200x112.jpg

Íslandsdeild Attac, Reykjavíkurakademían og Róttæki sumarháskólinn halda opinn fund með félagsfræðingnum Dr. Laurence Cox laugardaginn 21. mars kl 14 í fundarsal Reykjavíkurakademíunnar, Þórunnartúni 2, 4. hæð. Umræðuefnið verður Marxismi, fjöldahreyfingar og samskipti aðgerðasinna og fræðimanna.

Frá því um aldamót, og sérstaklega síðan fjármálakreppan hófst, hefur fjöldabarátta náð sér verulega á strik um allt norðurhvel jarðar, og á sama tíma hafa miklar hræringar á sviði stjórnmála endurnýjað valdakerfi Suður Ameríku. Einnig hafa orðið uppreisnir í Miðausturlöndum og annars staðar. Um leið hafa fræðilegar rannsóknir á fjölda- eða félagshreyfingum farið vaxandi, en alltof oft er verið að tala um hreyfingar frekar en við þær. Því gleymist of auðveldlega hversu fræðin hafa þegið mikla þekkingu frá reynslu fjöldahreyfinga á jafn ólíkum sviðum og marxisma, femínisma, vistfræði, gagnrýnum fræðum á sviði kynþátta og þjóðflokka, félagssögu og munnlegri sögu, sögu homma og lesbía, hinseginfræðum o.s.frv.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um samræðu milli virkra þáttakenda í fjöldahreyfingum og fræðimanna sem stunda rannsóknir á starfi slíkra hreyfinga, MA og PhD nám sem byggist á þáttöku í starfi hinna ýmsu félagshreyfinga og tímarit sem fjallar um reynsluna af slíku námi og starfi. Aðferðafræðin sem liggur til grundvallar við þetta fræðastarf byggir á marxisma og starfi hinnar alþjóðlegu réttlætishreyfingar, "hreyfingu hreyfinganna" (Global Justice Movement-Movement of movements). Markmiðið er að búa til þekkingarsvigrúm eða þekkingarrými sem geti nýst félagshreyfingum bæði við stefnumótun og kenningasmíði, til að bæta persónulega aðstöðu aðgerðasinna til starfa á þessum sviðum, og svigrúm sem er líka fræðilega skapandi, þannig að "rými vonar" myndist bæði á stjórnmála- og fræðasviði. Fyrirlestrinum lýkur með því að rætt verður dæmi um hvernig þáttökurannsóknir hafa orðið til að efla félagslegar hreyfingar um ákveðin málefni á Írlandi.

Dr. Laurence Cox stýrir MA-námi á sviði félagsfræði, jafnréttisfræði og aðgerðafræði við Þjóðarháskóla Írlands í Maynooth og er stofnandi og ritstjóri opins tímarits á sviði aðgerðafræða, Interface. Hann er meðhöfundur bókarinnar We Make Our Own History: Marxism and Social Movements in the Twilight of Neoliberalism og meðritstjóri bókanna Understanding European Movements: New Social Movements, Global Justice Struggles, Anti-austerity Protest; Marxism and Social Movements; og Silence Would be Treason: Last Writings of Ken Saro-Wiwa meðal annarra. Hann hefur tekið þátt í ýmsum félags- og fjöldahreyfingum á Írlandi og víðar síðan á 9. áratug 20. aldar.