Vetraruppreisnin 2008-2009 og samhengi hennar

Ég mun annars vegar fjalla um stærra samhengi Búsáhaldabyltingarinnar, hvaða byltingar við erum kannski vönust að hugsa um þegar það orð er nefnt, eins og frönsku byltinguna 1789 og þá rússnesku 1917, og hins vegar örlítið smærra samhengi, stöðu Búsáhaldabyltingarinnar í þeirri uppreisn gegn nýfrjálshyggju og kapítalisma almennt sem nú er í gangi, og hófst ef til vill í Venesúela árið 1989.

Franska byltingin er oft tekin sem dæmi um svokallaða borgaralega byltingu. Það táknar að frelsi einstaklingsins og jafnrétti allra gagnvart lögum er sett á forgangslista. Tjáningarfrelsi, trúfrelsi og ekki síst atvinnufrelsi – frelsi til að stofna fyrirtæki og stunda ýmsa starfsemi – var ofarlega á baugi. Borgaralegar byltingar af þessu tagi höfðu orðið áður, t.d. í Hollandi 1568-1648 og í Englandi 1640-1660. Sú enska var mikilvæg fyrirmynd hinnar frönsku, og jafnframt var mikill þrýstingur á franska ríkisvaldið vegna þess hve England var orðið öflugt stórveldi, út af því að þar fékk kapítalisminn að leika lausum hala.

Um 1800 varð sem sagt borgaraleg bylting í Frakklandi. Hún breiddist út um alla Evrópu, og styrktist í sessi við byltingar sem urðu um 1830. Það er hægt að tala um byltingu sem atburð, og einnig sem ferli, og ef franska byltingin sem atburður sem hófst 1789 og lauk með valdatöku Napóleons nokkrum árum síðar, þá stóð það ferli sem fór af stað við þá byltingu miklu lengur, að minnsta kosti alveg til 1870 og er ef til vill enn í gangi.

Þá á ég við að smám saman styrktust borgaraleg réttindi í sessi þrátt fyrir ákafar og einbeittar tilraunir afturhaldsins til að hindra það.

Mikilvæg skil urðu um 1848-1849 í borgaralegu byltingunni. Þá varð uppreisn um alla Evrópu, einnig hér á landi, uppreisn sem víðast hvar var bæld niður og beið ósigur. Við könnumst við þá tilfinningu. Í Danaveldi háði danska konungsvaldið ekki einungis viðureign við íslensku sjálfstæðishreyfinguna, heldur líka þriggja ára stríð við frelsishreyfingu Þjóðverja í Slésvík Holstein, sem vildu fá að sameinast Þýskalandi. Danir sigruðu, en töpuðu svo Slésvík Holstein árið 1864 í hendur Prússa og Bismarcks.

Eftir byltingarnar 1849 þorðu borgarastéttir Evrópu og annarra landa ekki að leggja út í frekari pólitískar tilraunir af þessu tagi, vegna þess hve almenningur var orðinn pólitískt virkur. Eftir 1849 snérist borgarastéttin gegn byltingum, fyrst gegn Parísarkommúnunni 1871, en síðan gegn byltingum bænda og verkafólks víða um heim. Frægasta dæmið er rússneska byltingin, sem gerð var í nafni sósíalisma, og öll stórveldi heims snérust gegn og lögðu rússnesku yfirstéttinni lið í að kveða niður. Það tókst ekki.

Frá 1917 var því til í heiminum land sem taldi sig vera sósíalískt ríki, Sovétríkin, sem náðu yfir mikið til sama svæði og gamla rússneska keisaraveldið hafði náð, nema Finnland, Eystrasaltsríkin og Pólland voru ekki með. Í þessu ríki var einkaeign bönnuð og stéttir ekki til, skv. stjórnarskrá. Borgaralega byltingin hafði nefnilega skilið eftir lagakrók, sem leiddi til þess að ný yfirstétt náði völdum í raun í stað aðalsins, borgarastéttin. Þessi lagakrókur var lagaákvæðið sem tryggði friðhelgi einkaeignarréttarins. Hann var sem sagt afnuminn í Sovétríkjunum. Alveg til 1923 var ekki ljóst hvort Þýskaland og önnur ríki myndu fylgja með, verða sósíalísk byltingarríki líka, en svo fór ekki. Lenín og félagar bjuggust alveg eins við því um 1918 að byltingin myndi mistakast, byltingarstjórnin í Rússlandi falla, ef Þýskaland, Frakkland og önnur ríki kæmu ekki með, en svo fór ekki. Byltignaröflin héldu völdum.

Þannig fór hins vegar ekki á Spáni 1936-1939. Þar var reynd andkapítalísk eða anarkísk þjóðfélagsbylting, sem náði völdum í stórum hluta landsins, en varð að lúta í lægra haldi fyrir kommúnistum undir stjórn Stalíns og svo her fasista 1939.

Sósíalisminn í Sovétríkjunum varð því óvænt sósíalismi í einu ríki, alveg til 1945, þegar nasistar biðu algeran ósigur í tilraun sinni til að þurrka út þetta ríki alþýðunnar. Alveg frá 1929 var hins vegar orðið ljóst að alþýðuvöld voru nafnið eitt í Sovétríkjunum, kommúnistaflokkurinn réði öllu og stóð m.a. fyrir svokallaðri samyrkjuvæðingu, sem var lítið annað en ofbeldisárás eða stríð gegn bændastétt landsins í nafni framfara. Þar sem bændastéttin var um 80% íbúanna gerði þetta að verkum að stjórn kommúnista missti trúverðugleika meðal bænda. Á sama tíma hófst mikil iðnaðaruppbygging, sem hafði hins vegar öflugan stuðning meðal almennings. Öll sú uppbygging varð þó á forsendum sem voru eiginlega ríkiskapítalískar, því öllu var stýrt að ofan og með aðferðum sem komið höfðu fram í Bandaríkjunum í upphafi 20. aldar, oft kenndar við Henry Ford og kallaðar fordismi. Verkamenn stóðu við færibönd og unnu einhæf störf í þaulskipulögðum vinnuferlum.

Þannig voru Sovétríkin eiginlega spegilmynd kapítalismans, sérstaklega þegar komið var fram á 5. og 6. áratuginn. Fordískir vinnuferlar, neysluhyggja og velferðarkerfi var markmið bæði austan tjalds og vestan. Gegn þessu gerðu stúdentar og verkafólk uppreisn árið 1968, og svo vildi til að um leið hófst uppdráttarsýki í kapítalismanum, sú uppdráttarsýki sem nú virðist orðin lítt viðráðanleg, og orðin að varanlegri kreppu.

Það verður að undirstrika að barátta alþýðuhreyfinga frá 1870 og fyrr hafði og hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagsþróunina. Kröfur bænda, verkamanna, kvenna, samkynhneigðra, blökkumanna og annarra hópa sem skipulagt hafa sig og krafist réttinda eins og þeirra að fá atkvæðisrétt, rétt til þáttöku á vinnumarkaði, rétt til ókeypis menntunar og ókeypis heilbrigðisþjónustu, húsnæðis á viðráðanlegu verði, allt hefur þetta haft gríðarleg áhrif. Sósíalisminn hrundi árið 1989-1991 í Austur-Evrópu og svo Sovétríkjunum og þá misstu alþýðuhreyfingar þriðja heimsins og verkalýðs- og bændahreyfingin á Vesturlöndum öflugan bandamann, því þrátt fyrir allt voru heimsvaldaríkin á Vesturlöndum mjög hrædd við sósíalismann og biðu einmitt einn sinn stærsta ósigur fyrir sósíalísku hreyfingunni í Víetnamstríðinu 1975.

Og nú er komið nýtt tímabil byltinga. Eins og áður sagði hófst það í Venesúela árið 1989, eða við getum látið það hafa byrjað þar, einmitt árið sem sósíalisminn í Austur-Evrópu hrundi. Þróunin í Venesúela undir stjórn Hugo Chavez, Argentínu, Ekvador, Bólivíu, Nicaragua og fleiri löndum Suður-Ameríku var þannig á tímabilinu 1989-2003 að fram kom hver stjórnin á fætur annarri sem hafnaði nýfrjálshyggju og forræði Bandaríkjanna í efnahagsmálum, og allar þessar stjórnir voru studdar af öflugum fjöldahreyfingum fátæklinga, bænda og verkamanna, sem kölluðust Via Campesino, Zapatistar og fleira. Einnig efldist baráttan gegn nýfrjálshyggju og hnattvæðingu í miðsvæðum kapítalismans, Evrópu og Norður-Ameríku, með sannkölluðum orustum milli andstæðinga hnattvæðingar og lögreglunnar eða ríkisvaldins t.d. í Seattle 1999, Genúa í júní 2001 og Gautaborg í júlí 2001.

Og svo kom 11. september 2001.

Á meðan ófriðarskýið grúði yfir Írak 2003-2007 hrönnuðust upp óveðursskýin yfir efnahag Vesturlanda. Árið 2007 hófst ný heimskreppa, og árið eftir hrundi fjármálakerfi heimsins nær alveg, eða alveg, það fer eftir skilgreiningum, nánar tiltekið í september 2008. Á Íslandi hrundu allir bankarnir og landið varð gjaldþrota, en annars staðar var bönkum haldið á lífi með gríðarlegri skattlagningu á almenning.

Á Íslandi kom til uppreisnar, sem fór af stað þegar um miðjan október 2008, og í janúar hafði hún fellt ríkisstjórnina sem var við völd þegar hrunið varð úr sessi og komið nýrri stjórn vinstri flokkanna til valda. Sá galli var á gjöf Njarðar að nýja ríkisstjórnin hélt áfram því samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem sú fyrri hafði byrjað á, en það var í algerri andstöðu við vilja þeirra sem gerðu uppreisnina. Raunar var mikil andstaða innan vinstri stjórnarinnar við samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og upp úr sauð þegar semja skyldi um skuldir sem Landsbankinn hafði stofnað til í Bretlandi og Hollandi og gengu undir nafninu Icesave. Tvisvar sinnum voru samningar um það mál felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem líta verður á sem framhald Búsáhaldabyltingarinnar.

Eftir janúarbyltinguna eða Búsáhaldabyltinguna var sett á stofn rannsóknarnefnd sem rannsaka skyldi orsakir hrunsins. Einnig var komið á fót embætti sérstaks saksóknara í málum sem tengdust hruninu. Þetta var gert undir leiðsögn norsk-frönsku baráttukonunnar Evu Joly, sem hafði unnið mikla sigra gegn spillingu í Frakklandi.

Hin svokallaða vinstri stjórn hófst jafnframt handa við að endurreisa bankakerfið, og var það gert með þeim hætti að vakti gríðarlega óánægju. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagðist gegn öllu sem heitið gat almennar aðgerðir í skuldaleiðréttingu, og vinstri stjórnin hlýddi, en verðtryggingin og gengislán höfðu valdið miklum búsifjum í fjárreiðum mjög margra. Fólki sveið að heyra árlegar tölur um gríðarlegan hagnað bankanna, á meðan fólk mátti greiða svimandi háar upphæðir af lánum sem margfaldast höfðu vegna áhrifa hrunsins í október 2008. Þetta leiddi síðan til risaósigurs vinstri stjórnarinnar í kosningum árið 2013.

Þannig hafði Búsáhaldabyltingin í meginatriðum tvenns konar áhrif: Hún leiddi til ítarlegrar rannsóknar á forsendum hrunsins og til stofnsetningar embættis sérstaks saksóknara, og hún afhjúpaði síðan mikla veikleika í því lýðræðiskerfi sem þróast hafði og réði ekki við alþjóðakapítalismann, sem gekk hér um ljósum logum og rændi af fólki gríðarlegum fjármunum. Sú vörn sem vinstri flokkar og fjöldahreyfingar – eða bara ríkisvaldið almennt – höfðu verið almenningi, t.d. á árunum 1930-1980 með ýmiskonar aðgerðum stjórnvalda til að vernda almenning fyrir áhrifum kapítalismans, hún var horfin. Lýðræðið réði ekki lengur neinu sem máli skipti, því fjármagnið hafði nú alræði í samfélaginu. Það hafði m.a. verið samþykkt með inngöngu í EES 1992, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Eina vörnin sem dugði var og er áframhaldandi fjöldabarátta almennings.

Það var tekið eftir þessu erlendis. Æ fleiri fyrirspurnir bárust, sérstaklega frá Frakklandi, Spáni og Portúgal, um hina hljóðlátu byltingu á Íslandi, til samtaka hér á landi sem höfðu tengsl við andspyrnuöfl erlendis, þegar líða tók á árið 2010. Þetta fólk sem spurðist fyrir leit yfirleitt svo á sem alþjóðafjölmiðlar hefðu reynt að þegja andspyrnu almennings á Íslandi í hel, til að það spyrðist ekki út hvaða árangur hefði náðst hér.

Í Suður-Evrópu tók kreppan kverkataki um samfélögin á vegum hinnar svokölluðu Troiku, Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska Seðlabankans, og almenningur varð æ örvæntingarfyllri.

Í desember 2010 hófst síðan ný uppreisnarbylgja. Íslenska uppreisnin stóð ekki lengur ein, heldur kviknaði bál í Túnis, sem olli sprenginu í Arabaheiminum. Það var kallað Arabíska vorið, leiddi til byltinga í Túnis, Egyptalandi og Yemen, borgarastyrjalda í Líbíu og Sýrlandi og uppreisna í Bahrain og víðar. Jafnframt urðu til öflugar hreyfingar gegn kreppuráðstöfunum stjórnvalda í suðurhluta Evrópu, í Grikklandi, þar sem gríðarlegar breytingar urðu á hinu pólitíska landslagi með eflingu róttæks vinstriflokks, Syriza, og hruni gamla sósíalistaflokksins, á Spáni með 15. maí hreyfingunni, þar sem torg voru skírð upp á nýtt eftir Tahrir-torgi, Palestínu og Íslandi, og baráttuhreyfingar gegn alþjóðaauðvaldinu og heimsvaldastefnu þannig tengdar táknrænt saman. Í október 2011 gerðist síðan það sem enginn hafði átt von á: Uppreisn hófst í Bandaríkjunum með hreyfingunni sem kallaðist Occupy Wall Street. Hún magnaðist á einni viku svo að segja úr engu í hreyfingu sem náði um öll Bandaríkin og síðan um allan heim, á alþjóðlegum aðgerðadegi þann 15. október, sem einnig var aðgerðadagur hér á landi.

Síðan hefur varla liðið sú vika að ekki fréttist af nýjum mótmælum almennings einhvers staðar í heiminum; í Brasilíu, Búlgaríu, Tyrklandi, Thailandi, Úkraínu, jafnvel Ísrael. Stjórnvöld standa víða höllum fæti og á hverjum degi má búast við nýrri uppreisn, nánast hvar sem er. CIA hefur nóg að gera. Afhjúpanir Snowdens og Wikileaks hafa ekki gert heimsauðvaldinu lífið léttara að undanförnu.

Viðbrögðin erlendis við Búsáhaldabyltingunni hafa ekki verið bundin við að hún hafi sums staðar blásið fólki í brjóst von um að hægt væri að berjast gegn óréttlætinu. Annars konar viðbrögð hafa einnig heyrst: Að Búsáhaldabyltingin sýni að unnt sé að gera friðsamlega byltingu almennings gegn óréttlátu skipulagi. Þetta hefur t.d. haft áhrif í umræðum innan Enhedslisten í Danmörku um byltingu eða þingræðisleið, umræður innan eins stærsta vinstriflokks í norðurhluta Evrópu. Þá er ég ekki að tala um vinstri flokka í gæsalöppum, eins og sósíaldemókratar og vinstri sósíalistar eru nær alls staðar orðnir og kom síðast í ljós, einmitt í Danmörku, þar sem orkufyrirtæki í eigu almennings var selt Goldman Sachs bankanum, eða hluti af því, gegn vilja mikils meirihluta almennings og á vegum stjórnar sem sósíaldemókratar veita forstöðu.

Það er einmitt norðurhluti Evrópu, Skandinavía, Þýskaland, Frakkland, sem er svo undarlega hljóðlátur í þessari bylgju uppreisna sem skekur heiminn. En þar kraumar undir, eins og dæmið frá Danmörku sýnir.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur og aðra hversu mótmælin hér voru friðsamleg, en jafnframt áhrifarík, séð með augum þeirra sem standa í baráttunni erlendis. Bylting þarf nefnilega ekki að vera blóðug, mótmæli geta haft mikil áhrif til breytinga án þess að kosta mannslíf. Í því felst mikilvægi og árangur Búsáhaldabyltingarinnar meðal annars.

Hvernig getum við tengt lærdóma af þessum uppreisnum við það sem á undan er gengið? Við getum að minnsta kosti sagt að það verði að gera endurbætur á lýðræðiskerfinu sem við búum við. Kerfi þar sem flokkar, hverju nafni sem þeir nefnast, eru kjörnir til valda til að verja kjör almennings og gera það svo alls ekki, þvert á móti, er orðið úrelt. Kerfi þar sem ríkisvaldið snýst gegn almenningi í samvinnu við alþjóðaauðvaldið í hverju málinu á fætur öðru er orðið úr sér gengið, hvort sem er hér á landi, í Danmörku, Grikklandi eða annars staðar. Þetta finnst mér vera alveg augljóst.

Það sem gerðist á tímabilinu 1970-2007 eða svo var að Fordismanum og þeim sósíalisma sem fyrir hendi var var hafnað, það var ekki bara nýfrjálshyggjan sem vann sigra. Gamla kerfið hafði galla sem sextíu og átta kynslóðin gagnrýndi, það er hægt að kalla sextíu og átta mótmælin uppreisnina gegn aganum, vinnunni, föðurveldinu og neyslusamfélaginu, þar sem fólki er nánast skipað að kaupa alls konar dót, og allt með afborgunum, sem svo eru verðtryggðar, og þessi uppreisn hafði og hefur mikinn hljómgrunn.

En nú er svo komið að fólk grátbiður um að fá að halda í leifarnar af gamla kerfinu sem var byggt upp fyrir 1980; valkosturinn er fátækt, vonleysi, atvinnuleysi, örbirgð, hluta- og tímabundin störf sem engin réttindi fylgja, þorp sem breyst hafa í draugaþorp vegna kvótans, örvænting vegna þess ofbeldis gagnvart fólki sem ónýt húsnæðisstefna er, og mætti lengi telja. Baráttan er erfið í þessari stöðu, en örvæntingin knýr hana áfram. Hver sigur sem vinnst er dýrmætur, og við skulum ekki telja kjarkinn hvert úr öðru, heldur reyna að læra af bæði sigrum og ósigrum.