Við þurfum að færa auðinn í okkar hendur!

Solla 29 maí Andres Zoran Ivanovic cut.jpg

Kæru félagar, ég ætla bara að tala örstutt:

Í frábærri ræðu sem Michael Moore flutti 5. mars í Wisconsin, þegar verkalýðsátökin þar voru í hámarki og tugir þúsunda umkringdu og gerðu innrás í þinghús ríkisins, sagði hann: Ameríka er ekki gjaldþrota. Ameríka er á kafi í auði -awash in wealth- . Hann er bara í höndunum á örfáum mönnum. Ekki í ykkar höndum!

Punkturinn var: Það þarf ekki niðurskurð, eða uppsagnir, það þarf ekki að gera tilveru almennings óbærilega, þannig að óvissa og kvíði séu stöðugt með okkur í hversdagsleikanum. Það þarf ekki að reka elliheimili að fyrirmynd þriðja ríkisins, eins og doktor Mengele sé æðsti yfirmaður málaflokksins, það þarf ekki að gera atlögu að öllu starfi með börnum, ekki gera lækna og hjúkrunarfólk út á vertíðir til annarra landa svo að þau geti borgað af lánunum sínum. Við þurfum ekki, hvort sem við erum Kanar eða Íslendingar eða Spánverjar að búa í samfélagi þar sem fólk er svo hræðilega fátækt að það á ekki fyrir mat. Þvi að það er til fullt af peningum: þeir eru bara allir í höndunum á arðræningjum sem ekki aðeins stela frá okkur heldur stjórna í raun samfélögum okkar. Við þurfum að færa auðinn í okkar hendur!

Á Spáni eins og annars staðar var tvennt í boði þegar kasínókapítalisminn hrundi: að losa samfélagið undan ægivaldi fjármagnskapítalismans eða fara það sem nú má kalla hina hefðbundnu leið: Dömpa vandræðunum á breiðu bökin; okkur sem seljum aðgang að vinnuafli okkar, sjúklinga, gamalmenni, barnafjölskyldur, öryrkja, atvinnulausa.

Og auðvitað var hefðbundna leiðin farin, því við lifum á tímum markaðslýðræðisins. Við lifum við algjört einræði kapítalismans. Allar ákvarðanir um líf okkar og framtíð eru teknar af fólki sem hefur ekki fengið neitt umboð frá kjósendum. Enda er svo komið að almenningur, hvort sem við erum hér á Íslandi eða á Spáni berum ekkert traust til kjörinna fulltrúa.

89 prósent Spánverja telja að hefðbundnir stjórnmálaflokkar hugsi aðeins um eigin hag. Á Íslandi er traust kjósenda á stofnuninni Alþingi að mig minnir á milli 9- 13 prósent. Ástæðan er augljós: Sennilega hafa tengslin á milli svokallaðra lýðræðislegra stjórnvalda og raunverulegra valdhafa, þeirra sem eiga kapítalið, aldrei verið eins brjálæðislega sýnileg og í viðbrögðunum við fjármálakrísunni 2008. Risavöxnum upphæðum var stolið frá skattgreiðendum til að halda gjaldþrota kerfi lifandi. Og áfram er stolið, og áfram er farið með líf fólks eins og einskisnýtt drasl. Íbúar á þessu einstaka kraftaverki sem jörðin er búa við raunveruleika sem er viðurstyggð: Líf og örlög milljarða eru í klónum á skrímsli sem heitir markaðurinn: markaðurinn ræður því hvort þú hefur vinnu, hvort þú átt fyrir mat, hvort þú getur haldið heimili. Hann leikur sér með verð á nauðsynjavöru, því sem fátækustu systkin okkar lifa á og er í níhílískri græðgi kominn langt með að drepa móður okkar allra.

Í manifestói 15. maí hreyfingarinnar segir eitthvað á þessa leið:

Við erum hversdagslegt fólk. Við erum eins og þið: fólk, sem fer á fætur á hverjum degi til að læra, vinna eða leita að vinnu. Fólk sem á fjölskyldur og vini. Fólk sem leggur mikið á sig á hverjum einasta degi til gera framtíðina betri fyrir fólkið í kringum okkur.

Það er hægt að segja það sama um okkur sem erum hér saman komin: við erum ósköp venjulegur almenningur. Og við eigum fleira sameiginlegt en hversdagsleikann. Við erum öll andkapítalistar. Við erum búin að sjá í gegnum lygarnar, við látum ekki blekkjast lengur. Við tökum undir kröfuna: Raunverulegt lýðræði núna! Ekki markaðslýðræði þar sem fólk getur keypt sér þingsæti fyrir mútufé, ekki svikalýðræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópska Seðlabankans, SPFjármögnunar og Landsbankans. Ekki baktjaldamakk og grimmd elítunnar gagnvart hinum vinnandi stéttum. Raunverulegt lýðræði, pólitískt, efnahagslegt og félagslegt, núna!

Að lokum ætla að ég að lesa uppúr ályktun Attac á Íslandi til stuðnings hreyfingarinnar á Spáni:

Eins og á Spáni hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og hinir kapítalísku fjölmiðlar hundsað raunverulegan vilja almennings. Við viljum ekki niðurskurð eða ríkisaðstoð við gjaldþrota banka, ekki endurreisn gjaldþrota kerfis. Við krefjumst breytinga nú þegar! Attac á Íslandi er stolt af því að Spánverjar horfa til baráttu Íslendinga veturinn 2008-2009 og einnig uppreisnarinnar gegn þrálátri kröfu stjórnvalda um að skuldir einkaaðila skuli ríkissvæddar. Þrátt fyrir að hér væri háð yfirgengilegt áróðursstríð íslenskrar elítu gegn hagsmunum skattgreiðenda og allri alþýðu fólks létu kjósendur ekki blekkjast. Og barátta okkar vakti von í hjörtum annara, enda alþjóðleg líkt og öll barátta almennings við arðránsöflin á tímum hnattvæðingar og nýfrjálshyggju.

Félagar, látum því kröfuna enduróma um alla heimsbyggðina, frá Spáni til Íslands, Bandaríkjanna til Egyptalands: Democracia Real YA! Raunverulegt lýðræði strax!

Takk fyrir.

Ræða flutt á Austurvelli í tilefni samevrópskra mótmæla 29. maí 2011

Ljósmynd: Andres Zoran Ivanovic