Yfirlýsing Alþjóðaþings félagslegra fjöldahreyfinga, 12. Febrúar, 2011.

WSF Dakar logo.png

Við erum saman komin á World Social Forum í Dakar 2011 sem Alþjóðaþing félagslegra fjöldahreyfinga í þeim tilgangi að viðurkenna grundvallar framlag íbúa og þjóða Afríku til uppgangs og þróunar siðmenningarinnar. Allt mannkyn háir nú stórkostlega baráttu gegn drottnunartilburðum auðmagnsins sem felur sig bakvið óljós og innihaldslaus loforð um efnahagslegar framfarir og pólitískan stöðugleika. Algjört sjálfstæði og frelsi undan nýlendukúgun til handa undirokuðum almenningi er mikilvægasta áskorunin sem fjöldahreyfingar veraldarinnar standa frammi fyrir.

Við áréttum og staðfestum stuðning okkar og virka samstöðu með almenningi í Túnis, Egyptalandi og annars staðar í Arabaheiminum, sem hefur risið upp til þess að krefjast raunverulegs lýðræðis og uppbyggingar á valdi fólksins. Barátta þeirra lýsir leiðina til annarar veraldar, frjálsrar undan kúgun, arðráni og misnotkun.

Við staðfestum eindreginn stuðning okkar við baráttu íbúa Fílabeinsstrandarinnar, þjóða Afríku og allrar alþýðu veraldarinnar fyrir staðbundnu og virku lýðræði. Við verjum sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða.

Vettvangur World Social Forum er sá staður þar sem Alþjóðaþing félagslegra fjöldahreyfinga sameinast í fjölbreytileika sínum, í því skyni að sameina markmið og baráttuna gegn auðmagninu, feðraveldinu, gegn kynþáttafordómum og allri annarri mismunun.

Porto Alegro 2001Porto Alegro 2001Við fögnum 10 ára afmæli Social Forum, sem var fyrst haldið í Porto Alegre árið 2001. Í því starfi sem unnið hefur verið síðan hafa skapast ríkar hefðir samvinnu, og hefur það leitt af sér nokkrar framfarir, sérstaklega í Rómönsku-Ameríku, þar sem við höfum náð að grípa inn í og hafa áhrif á bandalög nýfrjálshyggjuaflanna, og skapa valkosti réttlátra framfara sem raunverulega heiðra náttúruna.

Á þessum tíu árum höfum við einnig orðið vitni að því að alvarleg kerfiskreppa hefur skollið á. Hún hefur birst í krísum vegna matvælaskorts, umhverfisvá, og efnahags-og fjármagnskreppum, og hefur leitt til aukinna búferlaflutninga og þvingaðra fólksflutninga, arðráns, skuldsetningar og félagslegs ójafnaðar.

Við fordæmum hegðun helstu leikenda kerfisins (banka, fjölþjóðlegra fyrirtækja, fjölmiðla, alþjóðlegra stofnanna og annara) sem hafa með eilífri áherslu sinni á og ásókn í hámörkun skammtímahagnaðar, haldið áfram hernaðar- og íhlutunarstefnu sinni, hersetu, svokölluðum þróunarverkefnum, uppbyggingu nýrra herstöðva, botnlausu ráni á náttúruauðlindum, arðráni heillra þjóða, og hugmyndafræðilegri kúgun. Við fordæmum einnig tilraunir þeirra til að nýta og eigna sér fjöldahreyfingar okkar í gegnum fjármögnun á félagslegum geirum sem geta þjónað tilgangi þeirra, og við höfnum aðferðum þeirra við að aðstoða, sem framkalla ósjálfstæði og gera okkur háð fjármögnun þeirra.

Eyðileggjandi afl kapítalismans hefur áhrif á lífið allt, hjá öllum þjóðum veraldar. En þrátt fyrir það sjáum við nýjar hreyfingar verða til á hverjum degi, sem berjast við að snúa við eyðileggingarstarfi nýlendustefnunnar og vinna að virðingu og vellíðan fyrir alla. Við lýsum því yfir að við, almenningur, munum ekki lengur bera kostnaðinn af kreppum kapítalistanna og að innan þjóðfélagskerfis kapítalismans verður ekki komist hjá kreppu. Þetta staðfestir aðeins þörfina fyrir það að við, sem þátttakendur í félagslegum hreyfingum, mótum sameiginlega stefnu til að fylgja í baráttu okkar gegn kapítalismanum.

Við berjumst gegn fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum vegna þess að þau styðja auðvaldskerfið, einkavæða tilveruna alla, opinbera þjónustu og almannagæði eins og vatn, loft, land, fræ og auðlindir í jörðu. Með samningum sínum við einkafyrirtæki og málaliða hvetja fjölþjóðleg stórfyrirtæki til stríðs og átaka; rányrkja þeirra stofnar mannlegu lífi og náttúru í hættu, lönd okkar eru tekin eignarnámi og með því að þróa erfðabreytt fræ og matvöru er réttur fólks til að rækta sinn eigin mat afnuminn og líffræðilegur fjölbreytileiki eyðilagður.

Við krefjumst þess að allur almenningur hafi full yfirráð og stjórn yfir því hvernig fólk hagar lífi sínu. Við krefjumst þess að stefna verði mörkuð og framkvæmd sem ver staðbundna framleiðslu, sýnir landbúnaðarsamfélögum virðingu og verndar forna lífshætti og gildi. Við fordæmum fríverslunarsamninga nýfrjálshyggjunnar og krefjumst fulls ferðafrelsis alls mannkyns.

Við látum ekki af þeirri kröfu okkar að ríkisskuldir landa á suðurhveli jarðar verði felldar niður án skilyrða. Við afneitum því einnig að á norðurhvelinu séu opinberar skuldir og skuldir einkageirans notaðar til þess að innleiða ósanngjarna stefnu sem miðar að niðurrifi velferðarkerfisins.

Þegar G8 og G20 ríkin halda fundi sína, komum þá saman um alla veröldina til að tilkynna þeim: Nei! Við erum ekki varningur! Við látum ekki versla með okkur!

Við berjumst fyrir réttlátum aðgerðum til varnar loftslagsbreytingunum og fæðuöryggi. Hnattrænar loftslagsbreytingar eru afleiðingar hins kapítalíska kerfis framleiðslu, dreifingar og neyslu. Fjölþjóðleg stórfyrirtæki, alþjóðlegar fjármálastofnanir og stjórnvöld í þjónustu þeirra vilja ekki draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfnum svokölluðum grænum kapítalisma og frábiðjum okkur falskar lausnir á loftslagsbreytingunum á borð við lífrænt eldsneyti, erfðabreyttar lífverur og verslun með koltvísýringskvóta, eins og REDD (United Nations Collaborative Programme on Reducing Emissions from Deforestation and Forest Degradation in Developing Countries), sem tæla fátækar þjóðir með fölskum loforðum um framþróun á meðan skógar og landsvæði sem þessar þjóðir hafa í árþúsund ræktað eru einka- og markaðsvædd.

Við verjum fæðuöryggi, og samkomulag það sem náðist á Þingi alþýðunnar gegn loftslagsbreytingunum (Peoples' Summit against Climate Change), sem haldið var í Cochambamba, þar sem raunverulegir valkostir til þess að takast á við loftslagsbreytingarnar voru mótaðir í samvinnu við félagslegar fjöldahreyfingar og samtök hvaðanæva að úr heiminum.

Sameinumst öll, sérstaklega þau okkar á meginlandi Afríku, á meðan COP 17 stendur yfir í Durban í Suður-Afríku, og þegar Rio +20 fundurinn verður haldinn árið 2012, til þess að árétta að bæði alþýðan og náttúran hafa réttindi, og til að koma í veg fyrir að ólögmætum Cancun samningnum verði framfylgt.

Við styðjum sjálfbæran landbúnað bænda; það er hin sanna lausn á matar og loftlagsvandanum og tryggir öllum þeim sem starfa við landbúnað aðgang að landi. Því köllum við eftir fjöldasamstöðu til þess að stöðva landupptöku og til þess að styðja við staðbundna baráttu bænda. Við berjumst gegn ofbeldi gegn konum, sem oft á sér stað á herteknum svæðum, en jafnframt ofbeldi gegn konum sem er refsað fyrir að taka þátt í félagslegri og pólitískri baráttu. Við berjumst gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi sem framið er gagnvart konum vegna þess að þær eru hlutgerðar, vegna þess að algjör yfirráð þeirra yfir eigin líkama og hugsun eru ekki viðurkennd. Við berjumst gegn verslun með konur, stúlkur og drengi. Við skorum á alla að koma saman, allstaðar í veröldinni, og mótmæla kynbundnu ofbeldi. Við verjum kynferðislegann fjölbreytileika, réttinn til að taka sjálfstæða ákvörðun um kynhlutverk, og við erum andsnúin allri hómófóbíu og kynbundnu ofbeldi.

Við berjumst fyrir friði og gegn stríði, nýlendustefnu, hernámi og hernaðarvæðingu jarða okkar.

Heimsvaldasinnar nota herstöðvar til að kveikja átök, til að stjórna og ræna náttúruauðlindum, og til að styðja við andlýðræðislega tilburði eins og gert var með valdaráninu í Hondúras og hersetunni á Haiti. Þau ýta undir og stuðla að stríði í Afganistan, Írak, Lýðveldinu Kongó og víða annars staðar.

Kaupum ekki vörur frá ÍsraelKaupum ekki vörur frá ÍsraelVið verðum að efla baráttuna geng kúgun og gegn glæpavæðingu baráttu almennings fyrir réttlæti, og styrkja samstöðu og frumkvæði á milli þjóða, eins og t.d. Baráttuna fyrir að kaupa ekki ísraelskar vörur og stoppa fjárfestingum þar (Global Boycott Disinvestment og Sanctions Movement against Israel). Barátta okkar beinist einnig gegn NATO og miðar að því að banna öll kjarnorkuvopn.

Í öllum þessum átökum felst orrusta hugmynda, þar sem við getum ekki náð árangri án þess að lýðræðisvæða samskiptin. Við áréttum að hægt er að skapa annars konar hnattvæðingu, gerða af og fyrir almenning, og með nauðsynlegri þátttöku hinna ungu, kvenna, bænda og frumbyggja.

Alþjóðaþing félagslegra hreyfinga kallar á hreyfingar og einstaklinga frá öllum löndum til að skipuleggja tvær meiriháttar herferðir, samræmdar á alþjóðavettvangi, til þess að vinna að frelsun og sjálfsákvörðunarrétti almennings, og til að efla baráttuna gegn kapítalismanum.

Innblásin og hvött til dáða af baráttu almennings í Túnis og Egyptalandi, köllum við eftir því að 20. mars verði dagur alþjóðlegrar samstöðu með uppreisninni í Arabaheiminum og Afríku, þar sem hver sókn og sigur styður við baráttu alls almennings: andspyrnunnar í Palestínu og Sahara; baráttunnar í Evrópu, Asíu og Afríku gegn drápsklyfjum skulda og markaðsvæðingu alls samfélagsins, og öllu breytingarferlinu sem nú á sér stað í Rómönsku-Ameríku.

Við köllum líka eftir því að 12. október verði Alþjóðlegur baráttudagur gegn kapítalisma, þar sem við munum á margvíslegan hátt tjá andúð og andstöðu okkar við það kerfi sem eyðileggur nú allt sem á vegi þess verður.

Félagslegar fjöldahreyfingar veraldarinnar, sækjum fram í átt að alþjóðlegri einingu til að rústa hinu kapítalíska kerfi!

Við munum sigra!

 

Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir