AGS harðlega gagnrýnt fyrir kreppudýpkandi aðgerðir

AGSAGSNý skýrsla segir að ráðstafanir AGS hafi falið í sér aðgerðir sem gætu gert kreppuna verri í 31 af 41 landi sem kannað var.

Skjal frá Center for Economic and Policy Research (Miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum) í Washington leiðir í ljós að 31 af 41 landi sem AGS hefur haft afskipti af hefur verið þvingað til að beita kreppudýpkandi („pro-cyclical“) hagstjórnaraðgerðum. Slíkar aðgerðir hafa þau áhrif í núverandi kreppu að auka á dýpt kreppunnar og gera hana verri. Þær aðgerðir sem fjallað er um í skjalinu og teljast kreppudýpkandi eru annað hvort kreppudýpkandi fjármála- eða gjaldeyrisaðgerðir (aðallega vaxtaákvarðanir og ákvarðanir um gengi gjaldmiðla).

„Meir en áratug eftir að efnahagskreppan í Asíu beindi athyglinni að meiriháttar mistökum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er AGS enn að gera svipuð mistök í mörgum löndum, sagði forstjóri CEPR og aðalhöfundur skýrslunnar, hagfræðingurinn Mark Weisbrot. AGS styður fjárhagslegar örvunaraðgerðir og þensluvaldandi aðgerðir í ríku löndunum, en hefur allt aðra afstöðu til landa þar sem íbúar hafa lágar tekjur eða meðaltekjur.

Skjalið nefnist "IMF-Supported Macroeconomic Policies and the World Recession: A Look at Forty-One Borrowing Countries," Það sýnir að í mörgum tilfellum hefur AGS treyst á allt of bjartsýnar efnahagsspár og vanmetið áhrif kreppunnar á löndin sem fengið hafa lán hjá sjóðnum. Í skjalinu er bent á að AGS hafi dregið úr kröfum sínum eftir að í ljós kom að hagvöxtur var mun lægri en gert hafði verið ráð fyrir í spám.

„Það er kominn tími til að AGS endurskoði forsendur, grundvöll og efnahagsgreiningu sem sjóðurinn notar til að gefa út efnahagslyfseðla fyrir illa stödd lönd í þriðja heiminum,“ segir í skýrslunni.

Skjalið er orðið til eftir samræður CEPR við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þeirrar ráðgjafar sem sjóðurinn hefur haft um hönd í núverandi heimskreppu. Í pallborðsumræðu þann 19. júní 2009 var óeining milli AGS og CEPR um hvort og þá í hvaða mæli AGS hafi stuðlað að kreppudýpkandi stefnumörkun í löndum sem fengið hafa lán hjá AGS í núverandi heimskreppu. CEPR samþykkti að kanna ýtarlega núverandi stefnu AGS á þessu sviði, til að undirbúa mætti frekari viðræður við AGS um málið.

Á einu sviði hefur AGS staðið sig vel, en það er 283 milljarða dollara sérstök dráttarréttindi (SDR) sem meðlimaríkjum hafa verið boðin án skilyrða. Skilyrðislaus lán AGS og peningasprauta í hinn alþjóðlega efnahag er nýtt og jákvætt skref af hálfu sjóðsins. „Næsta skref ætti að vera að afnema skaðleg skilyrði sem tengd eru öðrum lánum AGS,“ segir í skjalinu.

Breska blaðið Guardian fjallar um skýrsluna í grein þ. 6. október. Guardian fjallar einnig um kreppudýpkandi aðgerðirnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekkert lært af fortíðinni. Í Lettlandi hafi stjórnvöldum t.d. verið ráðlagt að halda föstu gengi. Þetta sé svipað þeirri stefnu sem AGS stóð fyrir í Argentínu í hinni djúpu kreppu þar 1998-2002, en þar var föstu, of háu gengi gjaldmiðils haldið uppi með tugum milljarða dollara lána þar til gengið hrundi óhjákvæmilega.

Í tilfellum eins og Argentínu og Lettlandi táknar fastgengi að aðlögun að kreppunni verður í gegnum samdrátt í efnahag og lækkandi laun. T.d. er búist við að þjóðarframleiðsla Lettlands dragist saman um 18% á þessu ári, segir í skjalinu.

CEPR gagnrýnir einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir að hafa ekki séð fyrir orsakir kreppunnar í Bandaríkjuum, sem hófst opinberlega í desember 2007.

Sumir hagfræðingar hafi byrjað að gagnrýna húsnæðisblöðruna árið 2002, og þótt enginn hafi getað sagt fyrir um hvenær nákvæmlega hún myndi bresta, þá fylgdist CEPR nákvæmlega með því hvernig hún blés út. Öllum var ljóst löngu áður en hún náði hámarki árið 2006 að hún myndi hafa gríðarleg áhrif á efnahag Bandaríkjanna og heimsins.

CEPR sagði að allar þessar tölur og greiningar hefðu verið AGS tiltækar. AGS hefur eina stærstu greiningardeild í heimi til ráðstöfunar. AGS gefur út skýrslur efnahagshorfur í heiminum á hálfs árs fresti, og er tilgangur þeirra að segja fyrir um efnahagshorfur. Skýrslurnar gerðu ekki ráð fyrir húsnæðisblöðrunni né afleiðingum þeirra.

Tími sé kominn til að AGS endurskoði vinnubrögð sín frá grunni.