Hin forherta heimska

Íbúar jarðar standa frammi fyrir þeirri ógn að loftslag jarðarinnar er að breytast og mun halda áfram að breytast og ef ekki verður gripið hressilega í taumana þá mun það valda meiri hörmungum en við höfum áður séð. Og höfum við þó séð ýmislegt. Fólk mun ekki bara missa vinnuna og kannski húsin sín, eins og við þekkjum úr okkar stundlegu kreppu, það mun missa sjálf heimkynnin. Kannski sökkva þau í sæ, kannski breytast þau í eyðimörk, kannski verða þau vígvöllur.

Hver skyldi staða okkar Íslendinga vera andspænis þessari ógn? Það er sagt að hér sé kreppa, að við þurfum að hugsa um að koma okkur upp úr henni og að þess vegna höfum við ekki efni á að takmarka möguleika okkar á að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Það heitir hjá sumum: „Sjálfsagður réttur okkar til að nýta þær náttúruauðlindir sem við höfum“. Vissulega er satt að hér er einhverskonar kreppa. Og það er líka satt að við þurfum að hugsa um að koma okkur upp úr henni. En af þessu skulum við ekki draga þá ályktun að við höfum ekki efni á að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Af þessu skulum við ekki einu sinni draga þá ályktun að það sé eitthvert val um það, hvort við drögum úr losun eða ekki. Og við skulum ekki kalla það, sem vegur að tilverugrundvelli annarra, sjálfsagðan rétt okkar.

Spurningin er ekki um hvað við höfum efni á að gera. Spurning er um hvað við höfum leyfi til að gera og í hverju við viljum vera þátttakendur. Við skulum muna að Ísland er eitt kolefnisfrekasta hagkerfi heims.

 

Hagkerfið er eins og stór skepna. Það er fóðrað á hráefni og svo lætur það frá sér úrgang rétt eins og kýrin sem er fóðruð á töðu og lætur frá sér kúamykja. Hjól atvinnulífsins eru þá eins og innyfli skepnunnar. En hvernig skyldi þessi íslenska kýr annars vera? Íslenska kýrin mjólkar vel. Við getum verið ánægð með það. En mykjan sem frá henni flæðir er alveg ótrúleg. Við búum reyndar svo vel að mykjunni skolar í burtu að verulegu leyti. En þótt henni skoli burtu, þá hverfur hún ekki heldur dreifist hún um umhverfið og skolar svo, ásamt annarra kúa mykju, upp á strendur annarra landa.

 

Því hefur reyndar verið haldið fram að íslenska mykjan sé skárri en annarra þjóða mykja, vegna þess að fóðrir sem kýrin okkar fær er svo hreint og gott. Aðrir hafa bent á að skítur er skítur úr hverju sem hann er til orðinn. Vísast er hreinleiki töðunnar þeim lítil huggun sem eru í skítnum upp fyrir haus.

Maður á náttúrulega ekki að segja ‘skítur’ þegar maður ávarpar fólk á miðri jólaföstunni. Það er bara svo, að nú er fjöldi fólks staddur í gömlu höfuðborginni okkar, Kaupmannahöfn, að þinga um það hvort jörðinni verði drekkt í skít.

Vandinn sem við, venjulegir íbúar þessarar jarðar, stöndum frammi fyrir er reyndar tvíþættur. Annars vegar sá, að nú vofir yfir að loftslag jarðar taki stórfelldum breytingum. Hins vegar sá, að leiðtogar þeirra þjóða sem mestu hafa valdið í þessum efnum, og mestu geta ráðið um framtíðina, eru upp til hópa svo forhertir í eigin heimsku að fá rök virðast bíta á þá. Af þessum tveimur vandamálum er forherðing heimskunnar kannski hið raunverulega vandamál.

Stundum er sagt: Hugsum á hemsvísu og aðhöfumst heima. Það hljómar reyndar betur á enskunni: Think globally, act locally. Þetta er gott, svo langt sem það nær. En nú held ég að það sé kominn tími til þess að við finnum okkur leiðir til að hugsa á heimsvísu og aðhafast líka á heimsvísu. En hvað getum við gert sem er á heimsvísu? Erum við ekki of lítil, of fátæk og of kreppt eftir hrunið til að hugsa um aðra en okkur sjálf? Nei, fjandinn hafi það. Við megum ekki hugsa svona, því þá verðum við lítil, fátæk og kreppt hvernig sem efnahag þjóðarinnar vindur fram. Það sem við getum gert á heimsvísu er að tala rödd skynseminnar frekar en sérdrægninnar. Við getum lagt okkar lóð á vogarskálar almannaheillar, í stað þess að leggja þau sem stein í götu þeirra sem vilja takast á við vandamál heimsins af siðferðilegri ábyrgð.

Á 20 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sagði lítil stúlka við mig. „Veistu, það eru til barnaréttindi. Til dæmis að börn eiga að fá að vera með mömmu sinni og pabba. Veistu, það eru líka til fullorðinsréttindi. Til dæmis að fá að vera með börnunum sínum.“ Augnabliki síðar hélt hún svo áfram. „Veisu, það eru líka til jarðarréttindi“.

„Eru til jarðarréttindi?“ spurði ég svolítið hissa, og bætti svo við. „Voruð þið að læra það í skólanum?“

Stúlkan leit á mig og sagði. „Nei, við vorum bara að læra um barnaréttindin. Jarðarréttindi eru til dæmis að jörðin á rétt á því að vera ekki skítug.“

„Einmitt,“ sagði ég og hafði engu við þetta að bæta.

Sannleikurinn er barnslega einfaldur og við skulum biðja stjórnvöld okkar litla lands að gerast talsmenn hans. Ekki bara hér heima, heldur hvar sem þau taka til máls. Við skulum líka trúa því að þessi sannleikur nái eyrum annarra. Það dugir nefnilega ekki nein venjuleg heimska til að brynja sig gegn honum, heldur þarf hún að vera alveg sérstaklega forhert. Og þótt forherðing heimskunnar sé óþæglilega áberandi á flórhellunum í Kaupmannahöfn þessa dagana, þá skulum við vona að sannleikurinn nái að endingu eyrum nógu margra til að eitthvað gerist í alvöru.  

Við skulum vona að sannleikurinn nái að vinna á forherðingunni eins og dropinn sem holar steininn – áður en skíturinn fyllir vitin.

Ólafur Páll Jónsson er stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands