AGS: Risinn upp frá dauðum

Kreppan hefur leikið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Fyrir réttu ári síðan var hann stofnun í gjörgæslu. Fæst þróunarlöndin virtu hann viðlits. Skopast var að getuleysi hans við að sjá fyrir kreppurnar í nýmarkaðslöndunum og svörum hans við þessum kreppum sem oftast juku á vandann. Hann var jafnvel kallaður inn á teppið af eftirlitsaðilum vegna lélegrar stýringar á sínum eigin sjóðum!

Stefna hans og fyrirmæli var álitin ósveigjanleg og hugmyndasnauð, sömu nálguninni var beitt á gjörólík hagkerfi og aðstæður. Auk þess var nálgun hans úrelt, jafnvel fræðilega séð, byggði á efnahagslíkönum og grundvallarreglum sem hefur verið hafnað með margbrotnari greiningum framsækinna hagfræðinga jafnt sem með framþróun í nýklassískum kenningum.

Tíundi áratugurinn og fyrstu ár þessarar aldar voru sjóðnum sérstaklega erfið: hagfræðingar hans og pólitískir ráðgjafar skildu næsta lítið í kreppunum sem þeim var falið að fást við í nýmarkaðslöndunum, frá Tælandi til Suður-Koreu, frá Tyrklandi til Argentínu. Þar sem kreppan stafaði af takmarkalausri sóun einkaaðila kröfðust þeir aukins afgangs á fjárlögum. Þar sem kreppan stafaði af eignarýrnun lögðu þeir áherslu á háa vexti og aðhaldssama peningastefnu. Til að mæta efnahagslegum samdrætti ráðlögðu þeir aðhaldssöm fjárlög með niðurskurði í opinberum útgjöldum.

Löndin sem náðu sér á strik gerðu það klárlega þrátt fyrir ráðgjöf AGS eða, í nokkrum tilfellum, vegna þess að þau fylgdu gjörólíkri stefnu. Lán AGS voru talin „of dýr“ vegna afleitra pólitískra skilyrða sem fylgdu þeim. Það varð því lenska að endurgreiða AGS-lánin fyrir tímann, en nokkur lönd Suður-Ameríku höfðu forustu um það.

Á síðustu árum hefur hlutskipti AGS enn versnað: hann skiptir minna og minna máli. Frá 2002 hefur AGS ásamt Heimsbankanum orðið þiggjandi fjármagns frá þróunarlöndunum, því endurgreiðslur lána eru miklum mun hærri en ný lán til þeirra. Þróunarlöndin beindu athygli sinni að lána- og skuldabréfamarkaði einkaaðila þar sem fjörið var. Minna þróuð lönd leituðu annað eftir aðstoð, fjármögnun og einkafjárfestinga, þar sem Kína, Suð-austur-Asía og jafnvel Indland að takmörkuðu leyti hófu að fjárfesta í þróunarlöndunum.

Við þessar dapurlegu aðstæður kom fjármála- og efnahagskreppan sem skekur heiminn nú sem himnasending fyrir AGS. Skyndilega hafði hraklegur árangur þeirra við að sjá fyrir kreppur, meta þær og grípa inn í, fallið í gleymskunnar dá í hinni almennu fjármálalegu upplausn sem fylgdi í kjölfar hruns Lehman Brothers í September 2008.

Í framhaldinu ákvað G-20 (sem gerði sig að varðhundi efnahagslífs heimsins og sniðgekk þannig mögulega lýðræðislegri samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar) að veita AGS sérstaka upplyftingu með loforði um aukið fjármagn til að veita til aðstoðar þróunar- og nýmarkaðslöndum sem urðu fyrir barðinu á hinni alþjóðlegu kreppu án þess að bera ábyrgð á henni. Þessi aukning á sjóðum hans og valdi gerði ekki einu sinni kröfu um að stjórnun sjóðsins yrði lýðræðislegri, hann er enn undir forræði Bandaríkjanna (og, í minna mæli, Evrópu) án þess að það eigi sér stoð í núverandi samsetningu heimsviðskiptanna og án þess að skilyrðum hans sé breytt.

AGS er því aftur mættur til leiks með fullt af því sem sagðar eru vera nýjar áætlanir til að glíma við efnahagsvanda kreppuþjáðra landa. Það vekur undrun að AGS sé þannig umbunað fyrir margþætt feilspor sín. Þetta er, þrátt fyrir allt, stofnunin sem lánaðist ekki að sjá fyrir hrunið á bandaríska undirmálslánamarkaðnum, sem lýsti því yfir að langtímahorfur í efnahagsmálum Íslands væru einstaklega góðar, aðeins örfáum mánuðum áður en landið var lýst gjaldþrota í raun, og tókst að gera hlutina miklu erfiðari fyrir þau lönd sem þau neyddu sparnaðarkröfum sínum upp á í staðinn fyrir lítilfjörleg lán.

Og það sem skelfilegra er, er að AGS hefur aðeins að litlu leyti lært af yfirstandandi kreppu – og það sem hann hefur lært beitir hann af blygðunarlausri tvöfeldni. Ein regla er höfð fyrir iðnríkin í kreppu án tillits til hve óábyrg þau voru í aðdraganda kreppunnar. Önnur regla er höfð fyrir þróunarlöndin, jafnvel þau þeirra sem höfðu farið varlega og sýnt„aga“ í fjármálum.

Í flaggskipi útgáfuefnis AGS, World Economic Outlook (Horfur í efnahagsmálum heimsins) talar hann fyrir þjóðhagsstefnu til að vinna gegn samdrættinum í Bandaríkjunum og Vestur Evrópu. Þróunarlöndin og Austantjaldslöndin (umbreytingarhagkerfin) sem eru í ógöngum geta samt, augljóslega, ekki veitt sér slíkan munað. Þau verða að fylgja viðtekinni forskrift að aðhaldssamri peningastefnu og samdrætti í fjárlögum til að takast á við kreppuna sem stafar af hruni í útflutningi og fjármagnsflótta vegna kreppunnar í Bandaríkjunum. Því eru þau lönd sem voru svo ólánsöm að þurfa stuðning frá AGS í yfirstandandi kreppu knúin til að skera niður útgjöld hins opinbera sem valda neikvæðum margfeldisáhrifum í hagkerfum þar sem framleiðslan og fyrirtækin hafa þegar orðið fyrir miklum skakkaföllum. Úkraníu, Pakistan og Lettlandi hefur til dæmis verið sagt að skera niður útgjöld ríkisins og hækka vextina og notendagjöld í opinberri þjónustu í miðri niðursveiflunni til þess að fá lán frá AGS.

Vandamálið er að þessi röksemdarfærsla var röng og er það enn. Skilyrði AGS valda ekki bara almenningi sársauka í þeim löndum sem þeim er beitt í, þau stuðla ekki einu sinni að efnahagslegri endurreisn. Best færi á því ef hægt væri að beita einhverjum endurreisnarráðum AGS á stofnunina sjálfa.

________________________________________

Jayati Ghosh er hagfræðiprófessor við the Centre for Economic Studies and Planning, School of Social Sciences, við Jawaharlal Nehru University, New Delhi. Grein þessi, IMF: back from the dead, birtist upphaflega á livemint.com 23. nóvember 2009.