Grikkir allra landa sameinist! - Mótmæli til stuðnings Grikkjum verða þann 5. maí kl. 16:00 á Arnarhóli

Svokölluð aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins við Grikkland er stórkostleg aðför að réttindum verkafólks. Stórfelldar launalækkarnir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda, niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrgðar á hina lægst launuðu er meðal þess sem fyrirhugað er. Afleiðingin er ógnvænleg lífskjaraskerðing almennings. Á meðan grískir auðmenn koma eigum sínum í skjól, situr almenningur í súpunni. Engar tillögur hafa verið settar fram af AGS eða ESB um hvernig hægt er að draga úr alvarlegri misskiptingu tekna og auðs. Engar tillögur hafa verið settar fram um að þeir sem ábyrgðina beri axli hana. Engar tillögur hafa verið settar fram um hvernig koma skal í veg fyrir að nýjar fjármálakreppur dynji á. Þann 5. maí hefst allsherjarverkfall í Grikklandi. Á næstu dögum verða samstöðumótmæli um alla Evrópu. Krafan er: Segja verður skilið við pilsfaldakapítalisma og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Stöðva verður þjóðnýtingu tapsins og einkavæðingu gróðans. Standa verður vörð um hagsmuni almennings en ekki fjárglæframanna. Attac á Íslandi mun standa fyrir mótmælum til stuðnings Grikkjum þann 5. maí kl 16:00 á Arnarhóli. Ræðumenn verða: Sólveig Jónsdóttir formaður Attac og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingkona VG. Frekari upplýsingar verður að finna á Attac.is og á síðu Attac á Facebook.