Til hinna óbornu. Ræða Einars Más Guðmundsson á Austurvelli 1. maí 2010

Kæru félagar!

...

Í dag hef ég kannað hin sannfróðu svið

og séð hina stóru og fáu.

En hvar eru hinir sem lögðu þeim lið?

Hvar leynast þeir mörgu og smáu?

Hví neitarðu, Saga, að sýna mér allt?

Ég sakna þess barnslega og hlýja,

sem móðurlaust ók upp í síðkvöldið svalt

á silfurreið mánans - til skýja.

Þá sjónir mér lokast að liðinni öld,

ég legg frá mér bókina góðu.

Nú geng með ljós yfir landið í kvöld

og leita að gröfunum hljóðu,

er aðeins í hillingum hjartnanna sjást

og hníga að takmarki einu:

að geyma í mold sinni alla þá ást,

sem aldrei var getið að neinu.

...

Þetta er úr kvæðinu Þegnar þagnarinnar eftir Jóhannes úr Kötlum. Spurt er: Af hverju er fólkið sem skapaði söguna, sem stritaði og byggði upp heiminn, af hverju er þess hvergi getið? Hvar eru sjómennirnir sem sigldu skipunum? Hvar eru verkamennirnir sem skipuðu upp úr þeim? Hver byggði borgirnar? Hver lagði göturnar? Oftast er talað einsog auðmennirnir hafi sjálfir skapað auðinn, verið svona harðduglegir og ósérhlífnir. Nú er ég ekki að segja að þeir séu neinir letingjar, en hvar er almenningur þegar sagan er skrifuð? Stundum skýtur hann upp kollinum nokkrum öldum seinna, í rannsóknum. Þess á milli er hann skríll, þjóð sem ekki er til. Við höfum séð og erum alltaf að sjá hvernig stjórnvöld fyrirlíta almenning. Það er ekki aðeins þegar formaður Samfylkingarinnar tilkynnir okkur að við séum ekki þjóðin. Nei, látum það liggja á milli hluta. Veruleikafirrtir stjórnmálamenn allra tíma minna á drottninguna sem spurði af hverju fólkið fengi sér ekki kökur fyrst það ætti ekki brauð. Hitt er öllu verra hvernig hlífa á auðstéttinni á meðan almenningi blæðir. Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti! Orð Jóns Hreggviðssonar eru einsog snýtt úr nösum dagsins í dag. Já, hvar eru lögin sem við héldum að ættu að spegla réttlætiskennd okkar? Lögin eiga að vernda þegnana en þau eru notuð til að viðhalda óréttlætinu. Þetta óréttlæti hljómar í hvert sinn sem auðmennirnir segja: Það var ekkert ólöglegt og óeðlilegt við það, og birtingarmynd þess mátti sjá í gær í Héraðsdómi.

Þegnar þagnarinnar bíða í röðum, fólk er niðurlægt, skuldugt án atvinnu. Já, hver er sá draugur sem hér ríður húsum? Vofa gengur ljósum logum um samfélagið, vofa sársauka og reiði, vofa vonbrigða, atvinnumissis og fátæktar. Það er nóg að gera hjá Mæðrastyrksnefnd. Og í byrjun október segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn: Hingað og ekki lengra. Þá kann svo að fara að mörg þúsund heimili lenda í stórbrotnum vandræðum.Ef þessu fer fram sem horfir verður hér viðvarandi fátækt. Þá verður engin norræn velferð.Upp á þessa pappíra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru stjórnvöld og seðlabankastjórnin búin að skrifa af sömu lýðræðisást og þegar okkur var tilkynnt að við værum með í inrrásinni í Írak. Nei, það hafa ekki verið miklar framfarir þó fjöldi manns hafi norpað í kuldanum til að koma ykkur að, nýjum stjórnvöldum, og sagði ekki félagi Steingrímur J. að það yrði uppreisn í landinu ef gengið yrði að öllum skilmálunum sem nú er búið að ganga að. Er ástandið þannig að stjórnvöld ættu í raun að standa fyrir utan þinghúsið og mótmæla sjálfum sér inni í því?

Ríkisstjórnin hefur skrifað upp á að hún muni ekki hjálpa Íbúðalánasjóði, ekki framlengja frestun á nauðungarsölum og hún ætlar að láta sem þjóðaratkvæðagreiðslan um ICESAVE hafi bara alls ekki farið fram. Á meðan er auðmönnunum hlíft, þeir fá til sín eigur, fá afskriftir, flakka frá einni kennitölu til annarar, eiga eitt fyrirtæki á hausnum, annað í rekstri og bíða átekta, en eru þó farnir að kaupa jarðir og detta inn um bakdyrnar í risafjárfesingum. Þeir birtast bara einsog fljúgandi furðuhlutir og fulltrúar ríkisstjórnarinnar segja: sama hvaðan gott kemur. Þeir eru að flytja inn aflandseyjagróðann og fjárfesta í gegnum leppa sem leynd hvílir yfir í hinum einkavæddu bönkum. Fjármálaráðherra okkar hefur margoft sagt að einkavæðing bankanna hafi verið stærstu mistök sögunnar en svo eru bankarnir einkavæddir einsog ekkert sé og við fáum ekki einu sinni að vita hverjir eiga þá. En skuldir þjóðarbúsins sitja eftir og þær á borga með hækkun skatta og niðurskurði og í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er jarðvegurinn plægður fyrir sölu auðlindanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að skipuleggja sömu eymdina hér á Íslandi og hann hefur skipulagt alls staðar annars staðar.

Hví neitarðu, Saga, að sýna mér allt?

- Ég sakna þess barnslega og hlýja,

sem móðurlaust ók upp í síðkvöldið svalt

á silfurreið mánans - til skýja.

Einhvers staðar stendur að í myrkri séu allir kettir gráir, en hér eru allar skýrslur svartar og það þó það sé komið sumar og birtan breiði úr sér. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er svört skýrsla ... Skýrsla Seðlabankans um stöðu heimilanna er svört skýrsla ... Og viljayfirlýsing ríkisstjórnarinn og AGS er líka svört... Hún er svartari en svartasta myrkur í dimmustu kolnámu heims ... Hún er ávísun á þá eymd sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur alls staðar leitt yfir þjóðir og sýnir að það er beinlínis rangt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætli að beita einhverjum öðrum aðferðum nú en hingað til, einsog fulltrúar stjórnvalda hafa reynt að halda fram. Á Grikklandi rís almenningur gegn áformum sjóðsins en hér hafa verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur gengið í eina sæng með sjóðnum og eru nánast kaþólskari en páfinn í að fá hingað fjárfesta með aflandseyjagróða og gervifélög í farteskinu. Í Reykjanesbæ þar sem frjálshyggjumennirnir hafa selt allt og ekki er hægt að taka veð í neinu nema höfninni er búið að skapa fordæmi um sölu auðlinda í gegnum skúffufyrirtæki; og allt þetta til að bjarga andliti spilltra stjórnmálamanna sem fært hafa félögum sínum og skyldmennum heila byggð á silfurfati. Þetta minnir á húsnæðisloforð framsóknarmanna, blásin upp með auglýsingum, og stóriðjuáform allt til að bjarga þingsæti eins manns, formanns flokksins, sem líka sá um einkavæðingu bankanna og hagnaðist á því. Svo þykjast framsóknarmenn hafa gert upp sín mál með því að skipta um forystu. Nei, framsóknarmenn hafa ekki gert upp sín mál fyrr en þessi öfl verða kölluð inn á teppi og látin bæta þjóðinni skaðann sem þau hafa valdið henni. Vilji stjórnvöld ekki draga þetta fólk til ábyrgðar þá verður almenningur að gera það sjálfur. Það er krafa okkar að eignarhaldsfélög auðmanna, sem oft telja tugi ef ekki hundruði, verði leyst upp og eitt félag í eigu eins manns borgi skaðann sem annað félag í eigu sama manns hefur valdið.

Já, skýrslurnar eru svartar, en vitið þið það að það er verið að afvegaleiða okkur? Hvaðan koma allir þessir siðfræðingar sem segja okkur að rýna í eigin barm? Þetta er allt okkur að kenna. Meira að segja stjórnmálamennirnir hafa í hótunum þegar við gagnrýnum skuldastöðuna sem þeir hafa komið okkur í og segja: Þið getið sjálfum ykkur um kennt. Þið kusuð okkur. Í rannsóknarskýrslunni er hvergi fjallað um stéttabaráttuna, sem þessi dagur er kenndur við, en það er heil ritgerð um hjarðhegðun einsog hrun hins kapítaliska hagkerfis sé einhver dýrafræði. Heldur þetta fólk að þjóðfélagsbaráttan sé innri íhugun í jógastellingu; teboð þar sem við grátum saman og ræðum siðfræði? Þetta þýðir ekki að þessi sjónamið séu alröng ... þvert á móti ... en hlutverk þeirra er að slæva vitund okkar um þjóðfélagsbaráttu. Það er verið að koma því inn hjá okkur að við berum öll ábyrgð á kapítalismanum og eigum að axla byrgðarnar. Hrun hans er jú okkur að kenna. Vilhjálmur Egilsson sem alltaf kemur fram og segir að ekkert megi gera fyrir almenning, atvinnuvegirnir þoli það ekki, og kvótinn verði allur að vera hjá sömu útgerðarmönnunum, hann er stjórnarformaður í stærsta lífeyrisjóði verkalýðsfélaganna og stjórn þess sjóðs hefur spilað fjárhættuspil með eigur sjóðsfélagannna og þá kemur Vilhjálmur fram og segir: Þetta var hjarðhegðun. Í hvaða hjörð var hann? Nei, við skulum ekki láta þessa orðaleppa stjórnkerfisins afvegaleiða okkur. Siðfræðingarnir eru ekki að rækja sitt hlutverk þegar þeir ætla að leita að orsökum hrunsins í viðhorfum okkar til Egils Skallagrímssonar. Þetta endar líklega með því að íslenskukennarar sem kennt hafa Egilssögu verða dregnir til ábyrgðar og er það í fullu samræmi við það aðeins hafa níu stjórnleysingjar verið kærðir en styrkjadrottningar þingsins hafa gert allt til að tefja frumvörp um frystingu á eigum auðmanna, enda var auðmönnunum gefinn hálfur Laugavergurinn af þessu sama styrkjaliði sem nú neitar að segja af sér. Einn af borgarfulltrúunum sem reyndi að koma í veg fyrir þessa gjörninga var beðinn um að mæta með læknisvottorð í vinnuna. Við ætlum ekki að velta því fyrir okkur hvort þetta fólk ætlar eða vill segja af sér: Við ætlum að setja það af.Við þurfum ekki kosningar. Við þurfum ekki nýja ríkisstjórn. Við þurfum nýtt þjóðfélag. Við ætlum ekki að bretta upp ermarnar með Steingrími og moka flórinn fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við ætlum ekki að taka mark á lánshæfismati Moody´s og við ætlum að gera allt öfugt við það sem Vilhjálmur Egilsson segir. Verkamenn! Þið eigið ekki að láta þennan mann og hans líka ráðskast með lífeyri ykkar. Þessi lífeyrissjóður verkamanna var beinlínis afhentur útrásarvíkingunum í gegnum Glitni, 4300 milljónir. Ekki láta þessa menn segja ykkur að þeir hafi bara verið að gera einsog allir hinir, þetta hafi verið hjarðhegðun. Nei, við ætlumst til þess að stjórnvöld sæki peningana, ekki í gegnum sérstakan saksóknara, heldur með pólitískri ákvörðun í anda þeirrar jafnaðarstefnu sem þau voru kosin til að framfylgja. Við ætlum ekki að bíða eftir að sérstakur saksóknari finni lítilfjörleg skattalagabrot og eilífar kærur gangi á milli dómsstiga. Jú jú við viljum að rannsóknin hafi sinn gang og við erum þolinmóð, en efnahagshrunið er ekki sakamál. Það er spurning um þjóðfélagasskipan. Við höfum boðið sátt en það eru engar sáttarhendur á lofti. Við viljum að eignarhaldsfélög auðkýfinganna verði leyst upp og þjóðnýtt. Við erum ekki að bíða eftir að þeir komi og fjárfesti. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar sýnir, sem við vissum fyrir, að þjóðfélaginu var rænt innan frá. Það er hlutverk stjórnvalda að sækja ránsfenginn.

Spurningin er: Hvað er það sem skilað hefur þjóðfélagi okkar árangri? Það er barátta alþýðunnar.sem á síðustu öld skilaði okkur öflugu velferðarkerfi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, símalínum, sundlaugum, lífeyrissjóðum og þannig mætti lengi telja. Góðærið fólst í því að afrakstur stéttabaráttunnar, sameign fólksins var einkavædd og gerð að söluvöru. Það sem áður var sameign fólksins, fiskurinn, síminn og bankarnir, svo dæmi séu tekin, var færð til einkaaðila á silfurfati og henni sólundað. Góðærið fólst í því að svokallað „dautt fjármagn“, það er að segja sameign fólksins, var sett af stað. Umferð þessa fjármagns skapaði veltu í samfélaginu, góðæri, en nú er þeirri umferð lokið. Það varð umferðarslys, - og hinir slösuðu eiga að bera af því kostnaðinn. Fjármagni fólksins hefur verið eytt i einskisnýtt drasl, glerhallir og partí og fátt er eftir til að selja. Þótt stór hluti góðærisins væri hagbóla, byggð á draumórum, þá má ekki gleyma því að undirstaða þess voru raunverulegar eignir fólksins: Fiskurinn, lífeyrissjóðirnir og ríkisfyrirtækin. Sameign fólksins var sóað. Það er okkar hlutverk að endurheimta hana. Við þurfum að byggja upp nýtt hagkerfi þar sem þjóðin áauðlindirnar og það sem henni ber samkvæmt stjórnarskrá: nýtingarrétt á náttúruauðlindum og aflaheimildum í sjó. Við þurfum að brjótast gegn bölvun spillingar og því enda ég þetta á broti úr kvæði Bertholds Brechts Til hinna óbornu, af því að við erum ekki bara að berjast fyrir okkur, heldur framtíðina, börn okkar og barnabörn.

Hvílíkir eru þessir tímar, þegar

gengur næst glæpi að tala um tré.

Því það boðar þögn um svo margar ódáðir.

Sá sem gengur þarna rólegur yfir götuna

er víst ekki lengur tiltækur vinum sínum

sem í nauðum eru staddir.

Það er satt: ég vinn ennþá fyrir brauði mínu.

En trúið mér: Það er aðeins tilviljun. Ekkert

það sem ég geri veitir mér rétt til að eta mig mettan.

Af tilviljun er mér hlíft. (Þegar heppni mín dvínar

er ég glataður.)

Og síðar í ljóðinu segir:

Einnig hatrið á svívirðunni

afskræmir andlitið.

Einnig heiftin vegna óréttlætisins

gerir röddina hásaÓ, við,

sem vildum búa jarðveginn undir vináttu,

gátum sjálf ekki verið vingjarnleg.

En þegar svo langt verður komið

að maður réttir manni hjálparhönd,

minnist okkar þá

með umburðarlyndi.