Ræða Sólveigar Jónsdóttur formanns Attac á Íslandi á samstöðufundi með Grikklandi á Arnarhóli 5. maí 2010l

Sólveig flytur ræðu sína á Grikklands-fundinumSólveig flytur ræðu sína á Grikklands-fundinumKæru félagar.

Síðustu helgi sá ég á Al Jazera sjónvarpsstöðinni viðtalsbrot við gríska kennslukonu. Hún sagði : Við eigum ekkert val. Við verðum að fara út á göturnar og mótmæla, til þess að reyna að vernda öll okkar réttindi, og störf.

Þetta var lagleg kona, svarthærð, hefðbundin í útliti, á milli þrítugs og fertugs.

Kannski er hún ein af þessum brjáluðu grísku atvinnumótmælendum sem Egill Helgason segir að elski bara að slást við lögguna, kannski er hún hræðilegur grískur kommúnisti, ein af þeim sem Egill Helgason segir að kyndi undir ófriðarbáli, veifandi rauðum fána með hamri og sigð.

Kannski er hún í alvöru bara ósköp venjuleg kennslukona, ein af ótalmörgum sem óttast kæfandi aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, manneskja sem óttast um afkomu sína og framtíð.

Manneskja sem er hluti af alþjóðasamfélagi almennings, okkar, fólksins, sem vinnur þegar vinnu er að hafa, og þarf alltaf að standa í skilum um hver mánaðarmót, sama hvort markaðurinn hefur dottið í það eða er ennþá sæmilega edrú.

Hún er í það minnsta ekki ein af hinum auðugu, sem eru nú í óðaönn að koma öllu sínu undan, á meðan kennslukonurnar og ellilífeyrisþegarnir og kommúnistarnir og anarkistarnir sitja eftir í súpunni.

Kæru félagar, við heyrum sagt að ástæðuna fyrir vandræðum Grikkja sé að finna í þjóðarkarakternum. Grikkir eru víst sjúklega neikvæðir skattsvikarar, sem nenna ekki að vinna og vilja fá allt fyrir ekkert. Alveg eins og á Íslandi er að finna óvenjumikið af siðblindingjum, og fólki sem hefur pervertískan áhuga á nýjum sjónvörpum. Semsagt, við erum bara svo léleg, annars flokks Evrópubúar, ekki eins og dyggðum prýddir Þjóðverjar eða glæstir Englendingar, sem finna nú upp þriðju leiðina í annað sinn.

En hvaða lestir hrjá Letta og Úkraínubúa? Og hvað með Portúgal, Spán og Írland? Hvaða syndir hefur leiðindapakkið þar drýgt?

Kæru félagar.

Getur ekki verið að alþjóðasamfélagið hafi ákveðið að gera alþjóða-almenning að blóraböggli fyrir glæpsamlegar syndir þeirra sem iðka það sem við öll vitum að ekki má: að éta frá öðrum og geyma sitt!

Jafnvel þó að aðkoma Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins geti tímabundið haldið grísku krísunni í skefjum, þá munu fjármálamarkaðarnir halda áfram að þrýsta á Evrópulöndin í þeirri von að græða á óförunum.

Og þá hljótum við að sjá að vandamálið er ekki bundið við mistök einnar þjóðar, heldur er vandamálið kerfið sjálft.

Með alþjóðavæðingu Nýfrjálshyggjunnar er stöðugt verið að rífa niður: Áunnin réttindi verkafólks hverfa, lýðræðið er haft að spotti, kjörnir fulltrúar segjast valdalausir, það sé ekkert annað í boði en að hlýða.

Nýfrjálshyggjan og hömlulaus vöxtur fjármagnsmarkaðanna, óbeislaðra og blóðþyrstra, glefsandi í hælana á okkur, og öll óteljandi skattaskjólin, gera það að verkum að stöðugt er sameiginlegum auði okkar komið undan, fógetinn í Nottingham er allstaðar.

Jafnvel svokölluð fyrsta hreina vinstri stjórn Íslands er tilbúin að afsala sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar í hendurnar á stofnun sem allir vita að hefur alltaf hagsmuni auðvaldsins framar hagsmunum fólksins.

Hvað getum við gert? Við sem virðumst smá og valdalaus í samanburði við ógnvænlegan yfirgang hinna ríku og voldugu?

Við þurfum að koma saman og móta samtök sem geta barist gegn ægivaldi ólýðræðislegra stofnanna, við þurfum að standa saman og vernda staðbundinn sjálfsákvörðunarrétt. Við þurfum að standa saman og vernda menningarlega, vistfræðilega og pólitíska fjölbreytni! Við þurfum að standa saman og krefjast þess að niðurskurður í skólum, leikskólum, á spítölum, elliheimilum, osfrv. osfrv. sé ekki í boði.

Það eru mannréttindi okkar, sem borgum fyrir og notum samfélagslega þjónustu að ákvarðanir um hvernig henni sé háttað séu ekki teknar bakvið lugtar dyr einhversstaðar langt í burtu, heldur af okkur, lýðræðislega, samkvæmt því sem við viljum og þurfum!

Við þurfum að koma saman og mynda hreyfingu sem krefst þess að tekið verði á hinu raunverulega vandamáli:

Sem er að síðustu áratugi hefur fjárplógsauðvaldið ekki bara fengið að leika lausum hala, heldur hefur samfélagið verið sniðið að þörfum þess: Fjármagnsflutninga á milli landa má ekki hefta, það má ekki íþyngja flóknum fjármálagjörningum með eftirliti, og skattar á fjármagnsviðskipti eiga að vera sem allra lægstir. Okkur er sagt að halda niðrí okkur andanum svo að spilaborgirnar og loftkastalarnir sem fjármálasnillingarnir byggja hrynji ekki, heldur geti náð til himna. Og þegar svo spilaborgirnar hrynja eru það alltaf við sem borgum.

Svokölluð aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins við Grikkland er stórkostleg aðför að réttindum verkafólks. Stórfelldar launalækkanir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda, niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrgðar á hina lægst launuðu er meðal þess sem fyrirhugað er. Afleiðingin er ógnvænleg lífskjaraskerðing almennings.

Kæru félagar!

Hvers má einstaklingur sín á móti fjölþjóðlegum risafyrirtækjum, alþjóðlegum stofnunum sem hafa leikreglur lýðræðisins að engu, og sínum eigin stjórnmálaöflum, sem halda að með því að smala saman köttunum sé hægt að sefa hákarlana?

Hann má sín einskis.

Og þess vegna erum við hér, saman, vegna þess að við vitum að sameinuð stöndum við, margskonar, fjölbreytt, frá öllum heimsálfum, við sem seljum aðgang að vinnuafli okkar, við sem þurfum að standa undir mánaðarlegu útgjöldunum, við sem vitum að réttlætið er ekki eitt hér og annað á Haitií, eða í Grikklandi eða Úkraínu.

Því segji ég: Rekum Frankensteinskrímslið af höndum okkar! Kveðum niður afturgöngu Friedmans! Höggvum ósýnilegu höndina af!

Sagan dæmir. Sagan mun dæma nýfrjálshyggjuna og þá sem breyta eftir hennar mannfjandsamlegu gildum. Og sagan mun líka dæma okkur: Fylgjum því í fótspor allra þeirra mannvina sem á undan hafa farið, þeirra sem séð hafa að samhyggð er góð! Samhjálp er góð! Og að réttlætið er á endanum eini sannleikurinn!

Kæru félagar!

Við stöndum með þeim sem nú fara út á götur í Grikklandi!

Við ásetjum okkur að vinna að sigri grísks almennings gegn kapítalískum árásum!

Og að lokum segjum við eins og bræðurnir Ljónshjarta: Við berjumst fyrir því að réttlætið sigri, því annars erum við ekki manneskjur heldur bara lítil skítseyði!

Takk fyrir.