Alþjóðlega samfélagsþingið (World Social Forum) í tíunda sinn

Mánudaginn 25. janúar var Alþjóðlega samfélagsþingið (World Social Forum - WSF) sett í bænum Porto Alegre í Brasilíu og var því fagnað að þetta er tíunda þingið. Hið fyrsta var einnig í Porto Alegre í janúar árið 2001.

Þá var mikill uppgangur í andófshreyfingunni gegn hnattvæðingu og nýfrjálshyggju eða Alþjóðlegu réttlætishreyfingunni (Global Justice Movement), eins og farið var að kalla hana.

Í nóvember 1999 voru mótmælin miklu í Seattle vegna þriðja ráðherrafundar Heimsviðskiptastofnunarinnar og undanfarin tvö til þrjú ár höfðu verið æ fjölmennari og víðtækari mótmælaaðgerðir í Evrópu í tilefni af leiðtogafundum Evrópusambandsins, meðal annars undir kjörorðinu „Stefnum að öðruvísi Evrópu“ (Towards A Different Europe!), og einnig stóð Jubileum 2000-hreyfingin fyrir geysifjölmennum mótmæalaðgerðum vegna G8-fundanna og ýmsar fleiri fjölmennar og fjörugar aðgerðir höfðu verið af margvíslegu tilefni. Í Asíu og Rómönsku Ameríku höfðu mótmælahreyfingar einnig verið vaxandi og uppreisn Zapatistanna í Chiapas-héraðinu í Mexíkó naut mikils stuðnings, en hún hófst á nýarsdag 1994, daginn sem norðurameríski fríverslunarsamningurinn, NAFTA, fríverslunarbandalag Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó, tók gildi. Og í júní 1998 voru Attac-samtökin stofnuð í Frakklandi.

Um nokkurra ára skeið höfðu verið mótmælaaðgerðir í bænum Davos í Sviss þegar World Economic Forum hélt þar árlega fundi sína í janúarmánuði, en þar koma saman helstu fulltrúar heimskapítalismans til að ráða ráðum sínum. Og upp kom sú hugmynd að halda alþýðuþing til mótvægis þessu kapítalistaþingi á sama tíma. Meðal þeirra sem áttu frumkvæði að þessu var Bernard Cassen ritstjóri Le Monde Diplomatique og einn af stofnendum Attac. Bærinn Porto Alegre í Brasilíu varð fyrir valinu sem fundarstaður, en þar var þá, og er enn, öflug vinstri borgarstjórn sem var skipuleggjendum þingsins hliðholl. Og aðsóknin fór fram úr björtustu vonum, tugir þúsunda mættu víðs vegar að úr heiminum í þeirri vissu að hægt sé að skapa öðruvísi veröld, eða eins og kjörorð samfélagsþinganna hljómar á ensku: Another World is Possible. Þetta eru raunar ekki beinlínis þing, heldur frekar vettvangur, eins og orðið forum þýðir eiginlega, þar sem haldnar eru ráðstefnur, fundir, fyrirlestrar og allskyns uppákomur.

Strax var ákveðið að þessar samkomur yrðu haldnar utan hinna þróuðu auðvaldsríkja. Næstu tvö þingin voru einnig haldin í Porto Alegre og fór þátttakendum fjölgandi. Fjórða þingið var í Mumbai á Indlandi, það sóttu um 75 þúsund manns. Fimmta þingið var aftur í Porto Alegre og þá voru 155 þúsund skráðir þátttakendur. Sjötta þinginu var skipt milli þriggja staða, Caracas í Venesúela, Bamako í Malí og Karachi í Pakistan. Árið 2008 var þingið ekki á neinum einum ákveðnum stað heldur var hvatt til staðbundina þinga um allan heim kringum 26. janúar. Og í fyrra var þingið svo enn haldið í Brasilíu, í bænum Belém nálægt ósum Amazon.

Auk Alþjóðlega samfélagsþingsins hafa verið haldin víða um heim ótal staðbundin samfélagsþing sem ná til heimshluta, einstakra landa, héraða eða bæja.

Alþjóðlega samfélagsþingið 2010

Að þessu sinni felst Alþjóðlega samfélagsþingið ekki í stórri samkomu á einum stað. Þó hefur það eiginlega miðju sína í Porto Alegre. Þar hófst ráðstefna 25. janúar í tilefni þess að þetta er tíunda samfélagsþingið. Þetta er fimm daga ráðstefna undir fyrirsögninni „10 árum seinna: hvað þarf til að skapa öðruvísi veröld?“ Jafnframt eru um 500 viðburðir, fundir, ráðstefnur og fleira í Porto Alegre og víðar í Brasilíu og einnig eru ýmsir viðburðir víða um heim, flestir nú í síðustu viku janúar, en einnig allmargir þegar líða tekur á árið.

Nú þegar er hafinn undirbúningur að ellefta Alþjóðlega samfélagsþinginu og verður það í Dakar í Senegal í janúar 2011.

Nánari upplýsingar:

Vefur WSF (á ýmsum tungumálum) http://www.forumsocialmundial.org Upplýsingavefur (wiki): http://www.wsflibrary.org Dagskrá ráðstefnunnar í Porto Alegre http://fsm10.org (aðeins á portúgölsku) http://seminario10anosdepois.wordpress.com (aðeins á portúgölsku) http://www.hic-net.org/news.php?pid=3351 (á ensku) Listi yfir ráðstefnur og fundi Alþjóðlega samfélagsþingsins 2010 http://www.forumsocialmundial.org.br/dinamic.php?pagina=eventos%202010%20EN Terra viva (fréttabréf WSF 2010) http://www.ips.org/TV/wsf2010/ Susan George: Ten years later: challenges and proposals for another possible world http://www.tni.org/article/ten-years-later-challenges-and-proposals-anot... Einar Ólafsson: Karnival mótmælanna. Andófsaðgerðir gegn hnattvæðingunni eða nýkapítalismanum http://notendur.centrum.is/~einarol/karnival.html Halla Gunnarsdóttir: Við eigum val um öðruvísi veröld http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1060859 Teivo Teivanene: The World Social Forum and global democratisation: learning from Porto Alegre http://www.chs.ubc.ca/participatory/docs/Teivainen%28A%29.pdf Interview with Oded Grajew, initiator and Secretariat Member of the World Social Forum http://www.inmotionmagazine.com/global/ogwsf_int.html