Norræn Attac-samtök: AGS frá Íslandi!

Yfirlýsing til 61. fundar Norræna ráðsins, Stokkhólmi 27.-29. okt. 2009.

Norðurlöndin hafa gefið Íslandi lánsloforð undir stjórn AGS. Nú er orðið alveg ljóst að AGS ræður ekki við verkefnið, og aðgerðir sjóðsins gera ekki annað en dýpka kreppuna á Íslandi. Ísland þarfnast tvíhliða lánasamninga, án aðkomu AGS.

Nýfrjálshyggjan hóf sigurgöngu sína fyrir rúmlega þrem áratugum. Hún hefur teygt anga sína um allan heim í krafti hnattvæðingar sinnar og hefur verið alls ráðandi það sem af er þessari
öld.  Alfrjálsir fjármálamarkaðir voru drifkraftur þessarar útþenslu og hagvöxtur hennar byggði á takmarkalausri skuldsetningu einstaklinga og fyrirtækja vegna offramboðs á lánsfé. Kerfi þetta náði endimörkum sínum í hrunadansi banka og fjármálastofnana á árunum 2007 og 2008.

Samfélagið allt var lagt undir í spilavíti fjármálamarkaðanna og hámarksgróði og auðsöfnun hinna fáu var eina markmiðið. Þessu verður að snúa við. Það þarf að gera róttækar, raunverulegar breytingar í átt að öðru kerfi, til hagsbóta fyrir yfirgnæfandi meirihluta mannkyns, þar sem fjármagnið er í þjónustu félagslegs réttlætis, efnahagslegs stöðuleika og sjálfbærrar þróunar um heim allan. Við samþykkjum ekki áframhaldandi forræði nýfrjálshyggjunnar, og við megum ekki samþykkja afturhvarf til óbreytts ástands á komandi árum.

G20 ríkin hunsuðu aðkomu Sameinuðu þjóðanna að lausn kreppunnar en þær boðuðu til ráðstefnu G192 ríkjanna í júní s.l. og gáfu öllum orðið, líka þeim löndum sem líða fyrir afleiðingarnar af kreppunni þó þær hafi ekki verið stórleikendur á fjármálamörkuðunum. G20 ríki vilja nú, sem
fyrr, halda um stjórnartaumana hafa ákveðið að setja AGS á oddinn í endurreisn fjármálakerfi heimsins í sem næst óbreyttri mynd, því öfugt við SÞ þar sem hver þjóð hefur eitt atkvæði ráða ríku löndin þar ríkjum og Bandaríkin ein sér hafa neitunarvald á allar ákvarðanir
hans.

Með hruni fjármálamarkaðanna gekk AGS því í endurnýjaða lífdaga af þeim sem hafa völdin á efnahagssviðinu, þrátt fyrir að þeir hefðu sjálfir lagt drögin að hruninu. Sjóðurinn var rúinn trausti, því allt frá því gjaldmiðlar heimsins voru settir á flot 1973, hafði honum mistekist í öllum yfirlýstum markmiðum sínu: tryggja efnahagslegan stöðugleika og koma í veg fyrir kreppur, stuðla að hagvexti og draga úr fátækt. Hann þrýsti á stjórnir Vesturlanda að hjálpa kreppunni á veg með aðgerðum sem dýpka kreppuna, og auka fátækt. Þegar hann kom til aðstoðar kreppuþjáðum löndum annars staðar þröngvaði hann þeim inn í ramma einkavæðingar og niðurskurðar.

Sú ríkisstjórn sem var við völd á Íslandi þegar kreppan skall á af fullum þunga leitaði ásjár AGS. Sett var upp endurreisnaráætlun fyrir landið undir stjórn AGS, en með kröfum Englands og Hollands um að láta íslenska skattgreiðendur greiða mun meira af skuldum bankanna en kveðið er á um í reglum ESB um tryggingarsjóði. Gamalkunnir fylgifiskar fylgdu aðkomu hans, hávaxtastefna sem gagnast erlendum fjármagnseigendum en drepur niður innlendan atvinnurekstur, niðurskurður í velferðarmálum, gengishrun, uppsagnir opinberra starfsmanna. Allt þetta eykur á kreppuna/samdráttinn, vandamál heimilanna og atvinnuleysið, drepur samfélagið í dróma.

Hugmynd AGS er endurreisn efnahagslífsins drifin áfram með erlendri skuldsetningu og erlendum fjármagni. Þar sem valkosti skortir, valkosti sem raunar eru fyrir hendi og hafa meðal annars verið lagðir fram af kreppunefnd SÞ (Stiglitz-nefndin), eru íslensk stjórnvöld þvinguð til að fylgja stefnu AGS í því augnamiði að endurheimta traust fjármálamarkaða heimsins. Mikill þrýstingur er á stjórnvöld að grípa ekki til neinna þeirra ráðstafana, hvort sem er í skattamálum eða umhverfismálum, sem styggt gætu erlend fjárfesta.

Norðurlöndin hafa samþykkt að leggja Íslendingum lið í endurreisnarstarfinu undir handleiðslu AGS með lánsloforðum. Norska Stórþingið hefur látið í ljós að það sé tilbúið til að veita tvíhliða stuðning, ef íslenska ríkisstjórnin óskar þess af Noregi. Nú er Íslendingum orðið ljóst að Sjóðurinn veldur ekki því verkefni að endurreisa íslenskan efnahag og vaxandi fylgi er við  að segja upp samningnum við hann. Íslendingar vilja finna sína eigin leið til endurreisnar í anda norrænna velferðarríkja - sem raunar er yfirlýst stefnumið ríkisstjórnarinnar. Vinveitt norræn ríki ættu að fylgja því eftir og semja beint við Ísland um lánafyrirgreiðslur í samræmi við þarfir landsmanna en ekki þarfir alþjóðlegra fjármálamarkaða. Til að losna undan þrýstingi og hótunum þeirra þarfnast Íslendingar allra tiltækra bandamanna, vinveittra þjóða, hreyfinga og einstaklinga. Endurreisn undir stjórn AGS er Íslendingum ekki í hag.

AGS frá Íslandi!