Byltingin í janúar: Staða hennar í straumi tímans.

Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingurÁrni Daníel Júlíusson sagnfræðingurÁ 20 ára afmæli byltinganna miklu í Austur-Evrópu upplifði Evrópa (vestan Sovétríkjanna gömlu) sína fyrstu stjórnarbyltingu síðan þá. Hún varð á Íslandi. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því kapítalisminn vann einn sinn stærsta sigur með falli Múrsins. Nú stendur hann frammi fyrir gríðarlegum vanda, fjármálakreppu, sem leiddi meðal annars til janúarbyltingarinnar á Íslandi, byltingar sem var allt annars eðlis en byltingarnar fyrir 20 árum.

Ísland upplifði í janúar að mannfjöldi fór út á göturnar og velti stjórnvöldum úr sessi með mótmælum. Þetta var því sannkölluð stjórnarbylting. Aðdragandinn var allnokkur. Í byrjun október hrundi íslenska efnahagskerfið. Það var að mörgu leyti hin raunverulega bylting eða efnahagsbylting. Eftir stóðu rústirnar af hugmyndakerfi sem tekið hafði 20-30 ár að byggja upp. Jafnvel má rekja ýmsa meginþætti nýfrjálshyggjunnar enn lengra aftur, til miðrar 20. aldar. Sérstaklega á það við um frumþætti í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sem tengdist svo náið hersetu Bandaríkjamanna hér á landi.

Eftir að efnahagskerfið hrundi hófust sjálfsprottin mótmæli almennings. Allan október og nóvember efldist hin sjálfsprottna hreyfing, og hvers konar andóf tók á sig ótal myndir. Hér og þar mynduðust andófshópar. Borgarafundir urðu fljótlega öflugur vettvangur skoðanaskipta. Hópar sem áður höfðu staðið að einhvers konar andófi gegn nýfrjálshyggjunni, t.d. umhverfisverndarfólk, anarkistar og kommúnistar, fengu mikið hlutverk. Bandalag allra þessara hópa stóð að Þjóðfundi á Arnarhóli 1. desember. Sá fundur markaði lok fyrsta stigs andófsins. Fólk tók sér hvíld í desember, en minni hópar héldu uppi öflugu andófi allan mánuðinn.

Með kryddsíldarmótmælunum 31. desember fór mótmælaaldan af stað á ný. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking höfðu vonast til að slíkt myndi ekki gerast, að mótmælin hefðu koðnað niður. Þvert á móti urðu fundirnir á Austurvelli í janúar sífellt öflugri. Ríkisstjórnin var rúin trausti. Menn vonuðust til að stjórnin myndi falla og boðað yrði til kosninga, að mótmælin myndu knúa slíkt fram. Margir töldu hins vegar að það gæti ekki gerst í nútímasamfélagi, lögregla og stjórnvöld stæðu það sterkt að þau ættu alls kostar við mótmælendur.

Það breyttist hins vegar þann 20. og 21. janúar. Stjórnvöld stóðu ekki eins sterkt og flestir héldu, það kom í ljós þessa daga í trommumótmælunum á Austurvelli og fyrir framan Þjóðleikhúsið. Þótt mótmælin væru ekki mjög fjölmenn bætti ákafinn og lengd mótmælafundanna það upp. Þann 20. janúar stóð mótmælafundur í 14 tíma. Enn lengur daginn eftir og lauk með óeirðum og táragassprengingum. Mótmælaöldunni skolaði inn á fund hjá Samfylkingunni og hún samþykkti að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.

Janúarbyltingin - og hvað svo?

Við tók minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem svo fékk þingmeirihluta í kosningunum í lok apríl. Inn á þing fóru 7-8 þingmenn sem beinlínis höfðu stutt búsáhaldamótmælin. Fjórir þingmenn Borgarahreyfingarinnar og þrír til fjórir þingmenn VG höfðu að einhverju leyti grundvöll sinn utan við orðræðu nýfrjálshyggjunnar. Allir hinir þingmennirnir voru hins vegar í meginatriðum samþykkir nýfrjálshyggjunni, það kom á daginn í sumar. Það gildir að sjálfsögðu um alla þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en einnig alla þingmenn Samfylkingarinnar og flesta þingmenn VG. Alvarlegust eru svik forystumanns VG, Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur algerlega svikið andstöðuna við nýfrjálshyggjuna sem hann talaði svo mikið og lengi gegn, alveg fram í febrúar 2009. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG stendur á hugmyndagrunni sem í einu og öllu er framhald þeirrar stefnu sem ríkjandi hefur verið sl. 30 ár. Eini munurinn er sá að flokkarnir stefna að Evrópuaðild, en nýfrjálshyggja Sjálfstæðisflokksins byggði á bandalaginu við Bandaríkin. Þannig hefur ríkisstjórnin sem valin var á grunni búsáhaldamótmælanna svikið þá hreyfingu fullkomlega.

Þetta er, eftir á að hyggja, ekki skrýtið. Samfylkingin er, þegar allt kemur til alls, nýfrjálshyggjuflokkur. Hún studdi útrásina og tók upp alla þá hugmyndafræði um alþjóðavæðingu og nútímavæðingu sem henni fylgdi. Nær ekkert er eftir af vinstri hugmyndafræði í þessum flokki. Samfylkingin er jafnvel að mörgu leyti betur til þess fallin að reka áframhaldandi nýfrjálshyggjuhugmyndafræði en Sjálfstæðisflokkurinn. Sá flokkur er að sjálfsögðu illa staddur. Hann ber höfuðábyrgð á hruninu, útrásinni og einkavæðingarferlinu sem var aðdragandi þess. Samfylkingin hefur ekkert af hefðbundnum grunni Sjálfstæðisflokksins í útgerðarauðvaldinu, sem hindrað hefur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hún er því mun betur fallin til að leiða Ísland inn í Evrópusambandið, og gefa íslenskri nýfrjálshyggju og alþjóðlegri fjármálastarfsemi með því framhaldslíf. Vandinn er sá að fáir Íslendingar vilja nú inn í það samband, eftir Icesave. Eins er lítill vilji til að gera Ísland að Dubai norðursins.

Fulltrúar janúarbyltingarinnar eru enn inni á þingi, en áhrif þeirra minnka ört. Hin mótsagnarkennda staða Borgarahreyfingarinnar sem byltingarflokks, hvers stuðningsmenn studdu flestir Evrópuaðild Íslands, gerði stöðu hennar þegar í upphafi mjög veika. Þetta kom hins vegar ekki í ljós að fullu fyrr en um mitt sumar. Ögmundur Jónasson, öflugasti fulltrúi þessara afla í ríkisstjórn, og raunar nær hinn eini, var gert að segja af sér í haust og þar með veiktist staða þeirra mjög. Um skeið leit út fyrir að AGS yrði vísað úr landi og Joseph Siglitz fenginn sem aðalráðgjafi ríkisstjórnarinnar í staðinn, en svo fór ekki. Staðan er nú þannig að AGS er fast í sessi undir verndarvæng Jóhönnu og Steingríms eða öfugt, að Jóhanna og Steingrímur eru föst í sessi undir verndarvæng AGS.

Byltingar og byltingar

Íslenska janúarbyltingin er af allt öðru tagi en flestar þær byltingar sem orðið hafa í Evrópu og nágrenni sl. 20-30 ár. Fall járntjaldsins og hrun "sósíalismans" í Austur-Evrópu mynduðu bakgrunn fyrir þær nær allar. Því fylgdi áköf afneitun eldri byltingarhefðar, þeirrar sem kennd er við októberbyltinguna í Rússlandi 1917. Flestar byltingar sem urðu í þeim anda urðu í þriðja heiminum, ekki í Evrópu. Kína 1949, Kúba 1959, Víetnam 1975. Og fjölmargar aðrar, þar sem munurinn á frelsisbaráttu nýlenduþjóða og þjóðfélagsbyltingu í anda októberbyltingarinnar var ekki alltaf ljós.

Afneitun gömlu byltingarhefðarinnar eftir 1989 var jafnframt yfirlýsing um aðdáun á nýfrjálshyggjunni í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, sem hófst með Reagan og Thatcher. Löndin í Austur-Evrópu gengust fagnandi inn á markaðshygguna eftir fall múrsins. Arfleifð ríkisforsjár, með sterku velferðarkerfi, var forsmáð og lítilsvirt. Eitthvað svipað gerðist hér að landi að einhverju leyti. Mýtan um haftatímann þjónaði ef til vill svipuðu hlutverki og mýtan um kúgun sósíalismans austantjalds. Atvinnulífið íslenska átti fram að 1980-1990 að hafa verið í fjötrum ríkisforsjár, ríkisbanka og flokksræðis. Það gleymdist að þegar um 1930 var landið komið í hóp þeirra Evrópulanda sem mestar höfðu þjóðartekjur og best heilbrigði og menntun.

Um skeið virtist svo sem allt þetta væri fullkomlega réttlætt, satt og rétt, einkavæðing og útrás færði ógrynni fjár inn í landið.

Það var eins og bylting hefði verið gerð hérna líka um 1990. SÍS hrundi, valdagrundvöllur sjálfstæðrar tilvistar Framsóknarflokksins þar með. Þjóðviljanum var lokað 1992. Um skeið lifði þjóðin í taumlausum draumi, þar sem ráðandi öfl fjármagnseigenda fengu nær allt sitt í gegn. Viðskiptaráð gaf tóninn. Útópía nýfrjálshyggjunnar var að verða til á Íslandi, háskólar voru opnaðir helgaðir þessari hugmyndafræði, bankarnir voru einkavæddir, einkaþotur urðu dagleg sjón á Reykjavíkurflugvelli. Ríkisforsjáin hvarf svo algerlega að ekkert eftirlit var haft með mesta fjármálasvínaríi síðari tíma í V.-Evrópu. Slíkt var innihald frjálshyggjubyltingarinnar á Íslandi. Ekkert var fjær janúarbyltingunni en að styðja slíkt.

Önnur byltingarhefð gæti verið skyldari janúarbyltingunni íslensku en austur-evrópska frjálshyggjubyltingarhefðin. Það er hefðin frá '68, sérstaklega byltingartilraunin í Frakklandi í maí 1968. Stúdentahreyfingarnar í Vestur-Þýskalandi og Bandaríkjunum voru einnig öflugir þættir þeirrar hreyfingar. Hún tengdist hefð október-byltingarinnar náið vegna stuðningsins við frelsishreyfingar gegn heimsvaldastefnu. Það er mikill skyldleiki milli þeirra afla sem ollu kreppu og hruni kapítalismans 2007-2008, þeirra heimsvaldaafla sem voru að verki í Víetnam (og eru að verki í Afghanistan), og þess kapítalisma sem hratt af stað fyrri heimsstyrjöldinni. Októberbyltingin 1917 beindist gegn gjaldþrota heimsveldi Rússakeisara og ógnaræði fyrri heimsstyrjaldarinnar, sextíu og átta byltingin gegn grimmdarlegri og ofbeldisfullri heimsvaldastefnu forystuveldis kapítalismans, Bandaríkjanna, í Víetnam og janúarbyltingin á Íslandi 2009 gegn ægilegum afleiðingum fjármálakreppu kapítalismans. Þetta er gjörólíkt byltingunum 1989-1991, sem allar beindust í orði kveðnu gegn sósíalismanum.

Nánar um byltingar

Þau sem muna sextíu og átta hljóta öll að geta samþykkt að eitt er pólitísk bylting, annað er menningarbylting og þjóðfélagsbreytingar sem virðast eins og óhjákvæmilegar. Um og upp úr 1965 fór hárið að síkka, samfélagið opnaðist upp á gátt og fjölmargar hreyfingar mynduðust, frelsishreyfing í kynlífi, kvenréttindahreyfing, frelsishreyfing homma og lesbía, nekt varð sýnileg í samfélaginu á þann hátt sem alls ekki hefði verið möguleg áður, og öll umræða og umgengni varð miklu frjálslegri en áður. Fatastíll gjörbreyttist og varð mun afslappaðri. Þeir sem þetta upplifðu litu svo á að hér væri um að ræða framfarir, gamla, stífa samfélagið hefði orðið að víkja fyrir nýju, framfarasinnuðu, opnu og afslöppuðu samfélagi.

Tengsl þessarar byltingar, sem fólst svo mjög í form- og innihaldsbreytingu menningar, og eldri og yngri byltinga og samfélagshreyfinga eru flókin. Margt bendir til þess að áhrif sextíu og átta byltingarinnar hafi ráðið úrslitum um að múrinn féll árið 1989. Róttækni sextíu og átta byltingarinnar leitaði að sumu leyti farvegs í nýfrjálshyggjunni. Kannski ætti frekar að segja að í þeirri hreyfingu hafi afturhaldsöfl orðið ofan á þegar upp úr 1980. Þau notuðu sér svip framfara og nýsköpunar sem sóttur var úr sextíu og átta hreyfingunni til að hylja afturhaldssinnað innihald nýfrjálshyggjunnar, sókn gegn verkalýðsstétt, almenningi og löndum þriðja heimsins, eflingu auðvalds, auðhringa og fjármálaveldis og sókn gegn hugmyndinni um sósíalisma.

Niðurstaða nýfrjálshyggjunnar var sú að sósíalismi var lýstur úreltur. Orðræðan snérist upp í að svokölluð nútímavæðing væri óhjákvæmileg, einkavæðing, markaðshyggja, alþjóðavæðing og opnun væri algjörlega óhjákvæmileg, eins og fall sósíalismans sýndi best. "Gamaldags ríkissósíalismi" varð að miklu skammaryrði. Þar var á einu bretti gert upp við hugmyndina um ríkið og hugmyndina um sósíalismann. Sú hugmynd nýfrjálshyggjunnar að markaðurinn gæti komið í stað ríkisvaldsins leiddi til þess að mjög ört gekk á það svigrúm sem lýðræðið hafði til ráðstöfunar. Lýðræðið er nefnilega mjög háð ríkisvaldinu og tækjum þess til að virka. Það er dæmigert að fyrsta tilraun nýfrjálshyggjunnar í efnahagsstjórn var gerð undir stjórn viðbjóðslegrar afturhaldsstjórnar Pinochet í Chile, sem var blóðug upp að öxlum í blóði lýðræðislega kjörinnar stjórnar.

Hugmyndin um sósíalismann skyldi einnig tekin út af borðinu, sú hugmynd að unnt væri að skipuleggja samfélag manna með skynsamlegum hætti með þarfir allra þegnanna í huga. Samfélag jafnréttis og bræðralags var slegið út af borðinu. Frelsið var eitt eftir, frelsi markaðsins, og í ljós kom að slíkt frelsi var innihaldslaust og skaðlegt væri jafnréttið og bræðralagið ekki með í för. Stjórnleysi kapítalismans skyldi ríkja, hið algera og einráða frelsi.

Janúarbyltingin og Seattle-hreyfingin

Árið 1999 hófst ný alda mótmæla gegn yfirgangi kapítalisma og nýfrjálshyggju í kjarnalöndum auðvaldins. Í lok nóvember það ár urðu miklar óeirðir og átök lögreglu og mótmælenda þegar WTO hélt fund sinn í Seattle. Átök milli mótmælenda og talsmanna "frjálsrar" verslunar héldu áfram næstu árin, í Genúa, Gautaborg og Rostock. Gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn reis hátt og varð mjög áhrifamikil, hafði jafnvel á störf sjóðsins sjálfs.

Skyldleikinn milli þessara mótmæla og janúarbyltingarinnar á Íslandi er augljós. Munurinn er sá að mótmælin í Seattle voru gerð af hreyfingu sem var mjög meðvituð um eðli nýfrjálshyggjunnar og þeirrar samfélagslegu eyðileggingar sem hún stóð að. Á Íslandi lenti kreppa nýfrjálshyggjunnar af fullum þunga á samfélagi þar sem hin sama nýfrjálshyggja hafði staðið fyrir því að lama samfélagslega, lýðræðislega umræðu í nafni framfara á vegum markaðshyggju. Mótmælahreyfingin frá Seattle hafði haft mjög lítil áhrif hér á landi. Helstu andófsöfl Íslendinga voru að verki á sviði umhverfismála, við að mótmæla framkvæmdum við Kárahnjúka. En eftir að hagkerfið hrundi myndaðist eins konar Seattle-hreyfing hér með gríðarlegum hraða, og náði jafnvel að velta ríkisstjórninni. Raunveruleiki hrunsins skapaði hér á landi ástand þar sem andóf gegn markaðshyggjunni varð til af sjálfu sér, sjálfsprottið og gríðarlega öflugt um skamma hríð.

Nú er hins vegar að koma í ljós að innviðir nýfrjálshyggjunnar hér á landi eru miklu traustari en menn hugðu. Nær gervallt pólitíska kerfið er undirlagt þeim. Nýja "vinstri" stjórnin er gjörsamlega í vasanum á þessum hugsunarhætti. Þetta er arfleifð uppgjörsins við ríkisforsjána, við sósíalismann, sem náði svo miklum árangri að flokkar þeir sem eiga rætur í sósíalismanum eru algerlega búnir að yfirgefa þær rætur. Samfylkingin og Vinstri grænir þjóna nú um stundir sem talsmenn þess kapítalisma sem er ákveðinn í að koma sér fyrir hvarvetna í heiminum á ný til nýrra árása á hina samfélagslegu auðlegð. Það á að skera niður og ráðast á velferðarkerfið í skjóli kreppunnar þannig að markaðsöflin fái enn betri færi á að arðræna fólk að henni lokinni. Nýjar fasteignabólur og aðrar bólur eru í undirbúningi, sem svo munu skella af fullum þunga á samfélaginu þegar þær springa. Svo ekki sé talað um umhverfiseyðilegginguna sem hvarvetna fer fram skipulagslaust og forsjárlaust án þess að nokkuð sé gert til að hindra hana.

Samfylkingin og Vinstri grænir sækja vald sitt til fjármagnseigenda og í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Þessir flokkar eru nú ekkert annað en framkvæmdastjórar í endurreisn markaðshagkerfis sem hefur gjörsamlega brugðist. Og mun bregðast aftur, aftur og aftur. Jóhanna og Steingrímur eru á algerlega rangri braut.

Lýðræðisleg ríkisforsjá

Við þurfum núna á að halda lýðræðislegri ríkisforsjá til að hindra eyðileggingu af þessu tagi. Við viljum ekki að frjálshyggjukrakkar með skuldabréfavafninga upp á vasann fái að ráðskast með samfélagið og stefna því fram af hengifluginu. Við þurfum fyrst og fremst á því að halda að gera upp við hina mjög svo vafasömu hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Það er mikil vinna, og hana er ekki verið að vinna á vegum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Við þurfum tæki til þess að vinna þessa vinnu, almannasamtök, fjölmiðla sem tala máli þeirra, rannsóknarstofnanir sem stunda rannsóknir á samfélagsmálum á forsendum lýðræðis og almannaheilla. Við þurfum nýja hagfræði, nýjan vettvang, nýja umræðuhefð. Við getum sótt margt í fortíðina, í baráttuhefð undanfarinna 100 ára. Að öðru leyti stöndum við frammi fyrir nokkuð sérkennilegu vandamáli: Ísland er fyrsta landið í hinum ríka heimshluta sem gengur svo langt að reyna byltingu til að takast á við hina samfélagslega eyðileggjandi nýfrjálshyggju. Við erum örsmátt samfélag og búum ekki yfir miklum kröftum til að takast á við þetta, sérstaklega ekki þar sem hvergi annars staðar er neitt líkt þessu í gangi í bili.

Janúarbyltingin er athyglisverð vegna þess að hún er eins og ósjálfráð viðbrögð samfélags við gríðarlegu áreiti af hálfu afla sem fram að því höfðu verið fullkomlega samþykkt og talin aðdáunarverð. Skyndilega kom í ljós að þessi öfl voru í grundvallaratriðum búin að ljúga til um forsendur tilvistar sinnar. Einkavæddir bankar nýfrjálshyggjunnar voru úlfar í sauðargæru. Það sem átti að færa auð og velmegun reyndist einungis færa almenningi eymd og kúgun. Þetta er saga kapítalismans í hnotskurn. Viðbrögðin voru miklu sterkari en nokkurn gat grunað. Fólkið gerði byltingu sem fullkomlega and-kapítalísk, en aðeins andartaki áður hafði kapítalísk hugmyndafræði verið fullkomlega ásættanleg fyrir meirihlutann. Margt bendir þó til að kraftur byltingarinnar hafi meðal annars falist í óánægju sem smám saman hafði byggst upp við 20 ára sigurgöngu frjálshyggjunnar. Á þessari arfleifð, sem skapaðist í október 2008-janúar 2009 ætti að byggja.

Hvernig á að taka á málinu?

Það er eðlilegt að vonleysi grípi um sig eftir fagnaðarástand janúarmánaðar. Það sem tók við var svo ákaflega líkt því sem áður ríkti. Við slíkar aðstæður þarf að hafa eitt og annað í huga.

Í fyrsta lagi hafa núverandi stjórnvöld ekki næga viðspyrnu í neinni hugmyndafræði eða almannasamtökum sem gæti vísað út fyrir hugmyndafræði kapítalismans, varla einu sinni hugmyndafræði sem vísar út fyrir ramma nýfrjálshyggjunnar. Það er vart við því að búast að stjórnvöld sjái sjálf um slíkt, þau verða að fá aðhald. En raunar væri gott að sjá einhverjar vísbendingar um að þessi svokallaða vinstri stjórn hefði annað í huga en einbeittann vilja til að endurreisa helvítiskasínóið sem kom okkur á svo kaldan klaka. Stjórn af slíku tagi á engan tilverurétt. Við viljum sjá stjórnvöld sem hafa áhuga á því að leita nýrra lausna, tala við erlenda sérfræðinga og samtök innanlands sem eru að spá í slíkt. Það hefur frá upphafi nær algerlega skort þann áhuga.

Í öðru lagi þarf að móta nýja hugmyndafræði andspyrnuafla. Hana verður að byggja á því sem vel hefur verið gert annars staðar á undanförnum áratugum. Sósíalísku hefðina verður að skoða upp á nýtt hvað sem hver segir, því aðeins þar er að finna það sem til þarf. Það er uppgjör við kapítalismann, sem stefnir fram af hengifluginu með æ meiri hraða. Það sem gerðist hér á landi er aðeins viðvörun, forboði um það sem í vændum er. Frekari lausnir á vegum nýfrjálshyggjunnar leiða aðeins til meiri vandræða, og að lokum til fasisma og afturhalds. Því verður að byggja upp valkosti við þá hugmyndafræði af öllum kröftum. Leiðin fram á við liggur ekki í gegn um markaðinn. Sú leið er lokuð eða ætti að vera lokuð.

Í þriðja lagi verður að gera upp við þá hugmynd að einhver lausn sé að ganga í Evrópusambandið. Aðeins með því móti að Evrópusambandið geri sjálft upp við nýfrjálshyggjuna er það möguleiki. Því er hins vegar ekki að heilsa eins og er. Þjóðir eru neyddar í hverja þjóðaratkvæðagreiðsluna á fætur annarri til að samþykkja stjórnarskrár og breytingar sem stöðugt ganga meir í átt til nýfrjálshyggju. Íslendingar eiga ekkert erindi í Evrópusamband af því tagi.

Það sem er, er framhald þess sem var. Við sem vorum ósammála ríkjandi frjálshyggjuhugmyndafræði getum sjálfum okkur um kennt að vissu leyti að hafa ekki verið virkari í að andæfa og byggja upp valkost. Að öðru leyti var staðan þröng: Hugmyndafræðileg yfirráð kapítalismans eru sterk og voru vaxandi. Nú gefst færi á að andæfa þeim. Janúarbyltingin opnaði rými fyrir róttæka orðræðu sem enn hefur ekki lokast algerlega fyrir. Hins vegar má segja að janúarbyltingin hafi komið álíka flatt upp á fólk og októberbyltingin á sínum tíma, eða fall múrsins 1989. Það átti enginn von á þessu. Mannkynssagan kemur sífellt á óvart.