Nú er lag: kveðjum hagkerfi spilavítisins!

Sameiginleg yfirlýsing Evrópudeilda Attac um fjármálakreppuna og lýðræðislega valkosti.

„Afvopnum markaðina!“

Við stofnun Attac 1998 reis þessi krafa með fjármálahrunið í Asíu að bakgrunni. Síðan þá höfum við upplifað fleiri kreppur af völdum fjármálamarkaðanna: í Rússlandi, Brasilíu, Tyrklandi, Argentínu, „nýja-hagkerfis“bólan sem sprakk 2001.

Í dag eru auðugu löndin stödd í miðju kreppu sem er sú alvarlegasta síðan Kreppan mikla 1929. Hrunið á Wall Street í september 2008 markar endalok tímaskeiðs: kerfi fjármagnskapítalismans, sem knúið var áfram af sókninni í hámarksgróða, hrundi. Það eyddi sjálfu sér með eigin mótsetningum. Og nú ná eftirköstin til raunhagkerfisins. Samdráttur er hafinn í Bandaríkjunum og Evrópusambandið fylgir fast á eftir. Að lokum mun heimshagkerfið allt líða fyrir afleiðingarnar.

Samdrátturinn í efnahagslífinu mun leiða til enn meira atvinnuleysis og ójafnræðis. Aukinn þrýstingur verður settur á launafólk um að það samþykki meiri „sveigjanleika á vinnumarkaði“, lækkuð laun og skerta almannaþjónustu. Minnkandi eftirspurn (eftir vörum og þjónustu) frá ríku löndunum hefur síðan áhrif á viðkvæm hagkerfi þróunarlandanna og eykur á fátæktina. Aldamótamarkmiðin, t.d. markmiðin um sjálfbæra hnattræna þróun sem virðir félagsleg skilyrði og verndun umhverfisins, lenda utan seilingar.

Fjármálakreppa og samdráttur fer saman við miklar sviptingar í olíu- og matvælaverði, sem hefur valdið alvarlegum samfélagskreppum og hunguruppreisnum í suðlægum löndum. Margar ástæður eru fyrir breytingunum á hráefna- og matvælaverði. En, enn og aftur, er ástæðu óstöðuleikans í verðlagsmálum, sem og? ástæðunnar fyrir hinum mörgu fjármálakreppnum, að leita í spákaupmennsku fjárfestingasjóða og annarra stofnanafjárfesta.

Kveikjan að kreppunni var óhófleg veiting veðlána til heimila sem bjuggu við kröpp kjör í Bandaríkjunum. Þessum lánum var síðan fléttað inn í skuldabréfavafninga sem gerði mögulegt að selja þessar vafasömu skuldir til fjármálastofnana og heimila, jafnt í Bandaríkjunum sem annars staðar í heiminum. Þegar greiðslubrestur varð hafði það alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálastofnanirnar (viðskipta- og fjárfestingabanka, vogunarsjóði, og núna fyrir stóru hefðbundnu bankana). Og í dag blæðir öðrum greinum líka. Horfurnar í efnahags-, félags- og umhverfismálum fyrir árið 2009 eru dökkar fyrir mestan hluta heimsins.

Við hefðum átt að reikna með þessu. Hrunið staðfestir því miður spár margra hagfræðinga sem ekki fylgja rétttrúnaðinum (hétérodoxes) svo sem Nóbelsverðlaunahafans Joseph Stiglitz, Attac, félagshreyfinga og annarra gagnrýninna radda. Meira að segja eftirlitsaðilarnir (superviseurs) vissu að kerfið var komið á ystu nöf, en það var ekki vilji til að bregðast við vegna ríkjandi tröllatrúar á getu markaðarins til að hafa eftirlit með sjálfum sér, stýra sjálfum sér og leiðrétta sig.

Í dag, vegna þrýstings frá kreppunni, krefst meira að segja fjármálaheimurinn umbóta. En umbæturnar sem lagðar eru til ganga ekki nægilega langt því þær taka ekki á þeim kerfislægu vandamálum sem orsaka kreppuna. Þær einblína á fjármálageirann og stefna á stöðugleika. En það er ekki nóg. Fjármagnskapítalisminn hefur einnig skelfilegar afleiðingar fyrir deilingu gæðanna og lýðræðið. Ef bankamaðurinn biður um inngrip ríkisins þá er hann að biðja um að tapið verði þjóðnýtt en arðurinn verði áfram í vösum einkaaðila. 700 milljarða dollara björgunaraðgerð ríkisstjórnar Bandaríkjanna (sú mesta í sögunni), inngrip í Bretlandi, Þýskalandi og í öðrum löndum Evrópu eru þessu marki brenndar. Þegar fjármálaheimurinn talar um umbætur, meinar hann í besta falli að reglur verði (aftur) settar um afmörkuð svið og um kreppustjórnun til skamms tíma til að bjarga nýfrjálshyggjunni og síðan verði hinir gömlu góðu siðir endurheimtir þegar hættan er yfirstaðin.

Það sem við þurfum nú, til hagsbóta fyrir yfirgnæfandi meirihluta mannkyns, eru raunverulegar breytingar í átt að öðru kerfi (paradigme) þar sem fjármagnið er í þjónustu félagslegs réttlætis, efnahagslegs stöðuleika og sjálfbærrar þróunar. Við megum ekki samþykkja afturhvarf til óbreytts ástands á komandi árum.

Kreppan er ekki afleiðing af óheppilegri samrás atvika og aðstæðna, ekki frekar en að hún skýrist af brestum í eftirlitskerfinu, hjá matsfyrirtækjum eða mistökum einstakra leikenda. Ræturnar liggja í kerfinu sjálfu og því verður að taka á uppbyggingu þess og leikreglum.

Fjármálamarkaðarnir eru miðjan og drifkraftur hnattvæðingar nýfrjálshyggjunnar. Drottnun fjármálageirans yfir raunhagkerfinu hófst með tilkomu fljótandi gengis helstu gjaldmiðla 1973. Samtímis var aflagt allt eftirlit með hreyfingum fjármagnsins, fjármagnsmarkaðir gerðir frjálsir og reglugerðum um þá aflétt. Slakað var á eftirliti með endurskoðunarfyrirtækjum, sem að nafninu til eru sjálfstæð en lentu undir beinum þrýstingi frá fjármálageiranum. Síðan þá hafa fjármálastofnanirnar og kerfið sem þær settu á fót þanist út. Og umfang fjármagnsviðskiptana, skuldasöfnunin og gróðasóknin gengu í sama takt. Mikilvægt er að hafa í huga mikla hröðun í þessari þróun eftir 2001 þegar hagkerfi Bandaríkjanna náði sér á strik eftir kreppu nýju tækninnar. Innlendar skuldir í Bandaríkjunum uxu gríðarlega (einkum skuldsetning heimilanna) og viðskiptahalli Bandaríkjanna við útlönd, sem allur heimurinn fjármagnaði, jókst ofboðslega.

Þessar breytingar saman komnar leiddu til þróunar nýs efnahagsmódels, nýrrar myndar kapítalismans, sem sumir kalla hnattvæðingu, aðrir fjármagnskapítalisma og enn aðrir hluthafakapítalisma. Nafnið skiptir minnstu máli en eitt er á hreinu: fram til þessa voru fjármagnsmarkaðarnir undirgefnir raunhagkerfinu, en nú var þessu sambandi öfugt farið. Þegar forgangurinn var settur á „hagsmuni fjármagnsins“ á kostnað „raun“hagkerfisins þá þjónaði öll virkni í hagkerfinu því að skapa gróða á fjármagnsmörkuðunum. Fjármagnsgerningar voru fundnir upp í þeim eina tilgangi að skapa gróða á fjármagnsmörkuðunum. Ekkert tillit var tekið til þess að viðhalda framleiðslu í iðnaði eða sjálfbærum landbúnaði né heldur „eðlilegum“ sparnaði viðskiptavinanna. Rök og hreyfiafl hámarksgróðans strax, greypti sig í alla afkima efnahagslífsins og samfélagsins. Alger hreyfanleiki fjármagnsins, sem er ávöxtur nýfrjálshyggjunnar, leikur mikilvægt hlutverk í heimshagkerfinu í dag. Hann skapar samkeppni um heim allan, ekki bara milli fjölþjóðlegra fyrirtækja, heldur milli ríkja og félagslegs og efnahagslegs umhverfis innan þeirra, milli launafólks ólíkra heimshluta. Með því að skapa valdaafstæður hliðhollar atvinnurekendum á kostnað launafólks, hefur þetta alræði auðmagnsins leitt til vaxandi ójafnréttis, lækkandi viðmiða (staðla) í félags- og umhverfismálum, versnandi vinnuumhverfis og einkavæðingu frumgæða og opinberrar þjónustu.

Í stuttu máli þá jókst „frelsi“ fjármagnsleikendanna á kostnað yfirgnæfandi meirihluta almennings og hafði í för með sér efnahagsstarfsemi sem var eyðandi fyrir umhverfið. Ósigur þessa kerfis hefur aldrei verið jafn augljós og í dag, eins og matvælakreppan, orkukreppan og loftlagsbreytingarnar bera vitni um. Þetta kerfi (model) sem er stutt af ríkisstjórnum um heim allan er rúið trausti. Af því verðum við að læra svo að þeir sem taka ákvarðanir í stjórn- og efnahagsmálum snúi þessu fjármagnskerfi, sem stuðlar að ójafnrétti og er ósæmræmanlegt sjálfbærri þróun, á haus með því að virkja efnahagslífið í þágu jafnréttis, sjálfbærrar þróunar og þarfa borgaranna (almennings).

Sögulegt tækifæri hefur skapast. Það veltur á þrýstingi frá almenningi að það leiði til nýrrar og gjörbreyttrar stefnu.

Annað fjármagnskerfi er mögulegt: stöðuleiki og samstaða ofar gróða

Fjármagnskerfið í dag er svo flókið að það útilokar töfralausnir á vandamálum þess. Það eru engar töfralausnir til. Við þurfum heila verkfærakistu.Með tilliti til allra þeirra fjölmörgu og margbreytilegu tillagna sem settar verða fram og deilt verður um þá getum við samt skilgreint nokkur frumskilyrði sem tillaga verður að fullnægja til að teljast umbót í frelsisátt (framfaraskref).

A. Kerfisbreytingar en ekki neyðarúrræði

Það er allt heila fjármálakerfið í nýfrjálshyggjumynd sinni sem reyndist efnahagslega óstöðugt, duglítið og hættulegt jafnréttinu, almennri velferð og lýðræðinu. Þess vegna verður að gera kerfisbreytingar. Eitt markmiða okkar er að brjóta undirstöður nýfrjálshyggjunnar, sérstaklega hnattrænan hreyfanleika auðmagnsins. Nokkrar reglugerðarbreytingar til að verja auðlegðina og uppsafnaða fjármagnsgerninga eða fegrunaraðgerðir sem miða að auknu „gegnsæi“ nægja ekki.

B. Nýtt Bretton Wood frekar en sjálfstýrandi markaðsöfl

Kreppan sýnir okkur að markaðir án regluverks frá stjórnmálunum hefur hörmulegar afleiðingar í för með sér. Lýðræðislegt eftirlit er því nauðsynlegt, sem og alþjóðleg samvinna fremur en stórskaðleg samkeppni milli þjóða. Við efnahagslegar ákvarðanatökur verður sjálfbær þróun og mannréttindi allra kynslóða að hafa forgang.

Heppilegast væri að skapa viðeigandi stofnanaumhverfi á vegum Sameinuðu þjóðanna til að setja regluverk um fjármálakerfið og breyta stefnu þess. Slíkt yfirvald verður að vera undir lýðræðislegu eftirliti og taka ákvarðanir sem miða að jafnræði og sjálfbærri þróun. Það verður að hafa vald til að koma í veg fyrir kreppur (en ekki bara bregðast við þeim). Þess vegna eigum við ekki að fela AGS umboð til að hafa eftirlit með sambandi fjármálamarkaða og raunhagkerfisins heldur Sameinuðu þjóðunum. Þær verða einnig að tengja saman fjármálamarkaði, vinna gegn fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun. Slík stofnun Sameinuðu þjóðanna yrði að styðja kraftmikil alþjóðleg inngrip til að koma í veg fyrir að til verði mikil birgðasöfnun eða ofgnótt lausafjár í sumum löndum við hliðina á risavöxnum viðskiptahalla eða lausafjárskorti annars staðar (eins og nú er ástatt milli Kína og Bandaríkjanna). Hún verður einnig að vera umræðuvettvangur fyrir ákvarðanir til að takmarka frjálsa hringrás auðmagnsins og setja frelsi fjármálafyrirtækja skorður, sem og fjármálagerningum. Þetta þýðir að þessar ákvarðanir verða ekki teknar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og Samkomulagsins um verslun með þjónustu (GATS) eins og nú er raunin.

Styrkja verður eftirlit þjóða ? og alþjóðlega samvinnu milli eftirlitsstofnana og þeirra sem setja reglurnar fyrir?..., sérstaklega á vettvangi lýðræðislegrar Evrópu og láta þær (hverjar?) einnig ná til félagslegra þarfa. Það verður að tryggja þátttöku verkalýðsfélaga, neytendasamtaka og annarra hlutaðeigandi aðila við að setja þetta regluverk. Matsfyrirtækin verða að vera opinber, sjálfstæð fyrirtæki sem meta áhrifin á samfélagið (t.d. til að koma í veg fyrir að fjármagnsgerningar eða lán séu skaðleg umhverfinu).

Yfirstandandi kreppa kallar á aukna alþjóðlega samvinnu. Það verður að setja frjálsum viðskiptum og frjálsri hringrás auðmagnsins skorður. Gjörólík og margbrotnari nálgun veður að koma í stað kreddunnar um frjálst flæði auðmagns, vara og þjónustu sem lykilsins að velmeguninni. Nýir alþjóðlegir samningar verða að skilgreina önnur markmið – efnahagslegan stöðugleika, efnahagslegt réttlæti, félagslegan jöfnuð – fremur en frjálst flæði auðmagns, varnings og þjónustu. Slíkir samningar mega ekki stefna í voða félagslegum réttindum og sögulegum ávinningum launafólks, heldur, þvert á móti, verða þeir að hygla alþjóðlegri samstöðu á kostnað samkeppninnar.

C. Brjóta alræði fjármagnsmarkaðanna á bak aftur

Til að hrinda í framkvæmd raunverulegum breytingum verður að byrja á því að rjúfa forræði fjármagnsmarkaðanna yfir raunhagkerfinu. Hér koma nokkrar tillögur sem geta lagt því markmiði lið:

  • Skattleggja verður alla umferð fjármagnsins, einnig viðskipti með gjaldmiðla, til að draga úr spákaupmennskunni, hægja á markaðnum og draga úr þeirri freistingu að hugsa til skamms tíma. Slík skattlagning fjármagns stuðlar um leið að viðskiptum, framleiðslu og neyslu í anda jafnræðis og sjálfbærni. Hún felur í sér fjölþjóðlegan skatt á öll viðskipti með gjaldmiðla og letur þannig spákaupmennsku til skamms tíma. Og einstakar ríkisstjórnir verða að setja einhliða á viðeigandi skatt á viðskipti í kauphöll hverrar þjóðar til að stöðva spákaupmennskuna.
  • Banna verður risavaxin fjármálafyrirtæki sem ekki ráða við að stýra mögulegri áhættu og eru of stór eða víðfeðm til að senda í gjaldþrot.
  • Leggja verður á stighækkandi fjármagnstekjuskatt. Milvægur þáttur í þenslu fjármálamarkaðanna er samþjöppun auðsins. Til að hægja á fjármagnsmörkuðunum og gera þá stöðugri (stabilisera) er heppilegast að endurskoða tekjuskiptinguna og dreifingu auðsins. Draga verður úr hvatanum í sókn eftir óhóflegum gróða og hvatanum til að koma undan fjármagni eins og fjármálageirinn og þeir ríku tíðka.
  • Áður en hugað verður að tilfærslum (endurúthlutun) þarf þjóðhagfræðin að tryggja sanngjarna tekjuskiptingu: sá virðisauki sem gengur til vinnandi fólks (laun, vinnutími, velferðarmál, félagslegar þarfir, o.s.frv.) má aldrei vera minni en framleiðsluaukningin. Auk þess verður að gæta að réttlátri dreifingu vinnunnar.
  • Einkavæðingu félagslega kerfisins og helstu grunnstoðanna, eins og orku og járnbrauta, verður að stöðva og það sem þegar hefur verið einkavætt verður aftur að komast í eigu samfélagsins.

D. Dregið verði úr áhrifum kreppunnar á raunhagkerfið og „láta þá borga sem nutu“

Nú þegar kreppan lendir á samfélaginu og raunhagkerfinu þurfum við að marka okkur stefnu um hverjar séu mikilvægustu aðgerðirnar sem grípa verði til, þannig að unnt sé að minnka áhrif hennar á samfélagið.

Vegna þess hvað kreppan er djúp er líkast til óhjákvæmilegt að veita fjárhagsaðstoð til að koma í veg fyrir að fjármagnskerfið hrynji. En slíkum aðgerðum verða að fylgja mjög ströng skilyrði og öll spilling útilokuð. Ef slík aðstoð á sér stað án þjóðnýtingar, þá verða hluthafarnir að endurgreiða kostnaðinn (höfuðstól og vexti) við þær. Ef það er ekki gerlegt verður ríkið að eignast hlut í fyrirtækinu, eða þjóðnýta það að fullu.

Heildarkostnaðurinn við að tryggja aðgang að lausafé, fjárhagsaðstoð og björgunaraðgerðir verður að lenda á þeim sem bera ábyrgð á kreppunni og auðguðust á henni. Þess vegna verður alþjóðasamfélagið að koma upp sérstökum kreppusjóði. Hann yrði fjármagnaður með sérstökum skatti á allar tekjur af hlutabréfum ofar 50 000 evrum og 1% viðbótarskatti á arð fjármálafyrirtækja. <{p>

Hluta þessa sjóðs verður að nota til aðstoðar fátækum löndum sem líða fyrir afleiðingar kreppunnar og matvælakreppan og kreppan í hráefnaverði bitnar á.

Auk þess verður að samþykkja verulegar opinberar fjárfestingar í undirstöðum samfélagsins, menntun, menningu og umhverfismálum því þessar greinar hafa liðið fyrir langvarandi vanfjárfestingu, þær skapa atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun.

E. Gera verður umbætur á Evrópusambandinu (ESB) og setja evrópska seðlabankann undir eftirlit

Við verðum að hafa sérstakar gætur á ESB. Fjármagnsyfirbragð sáttmálanna, einnig Lissabon-sáttmálans, (TFUE) ákvarðast af kreddum nýfrjálshyggjunnar. Það þarf að breyta 63 grein hans (áður grein 56 í Stjórnarskrártillögunnui (TCE) sem bannar allar takmarkanir á flæði auðmagnsins, ekki aðeins innan ESB heldur einnig til landa utan þess, sem skapar kjöraðstæður fyrir tök fjármagnsins á samfélaginu. Það eru gildar ástæður til að takmarka flæði auðmagnsins: tryggja verður fjárhagslegan stöðuleika; draga verður úr samkeppni og fjármagnsflótta; útbreiða peningastefnu hliðholla atvinnumálum án þess að eiga á hættu fjármagnsflótta. Einnig krefjumst við takmarkana á frelsi til að stofna fyrirtæki (grein 49) sem veitir auðmagninu algert frelsi til að fara og koma sér fyrir þar sem skilyrðin eru hagstæðust og leyfir fjármagnsstofnunum að leita sér skjóls í City eða hvar annars staðar sem þeim dettur í hug

Það verður að endurskoða frá grunni aðferðirnar við ákvarðanir um eftirlit og reglugerðir með fjármálamarkaðinum í Evrópu og hjá einstökum aðildarríkjum ESB. Koma verður á fót sameiginlegu eftirlits- og reglugerðakerfi sem lýtur óaðfinnanlegum siðareglum í stað þess að leita hins lægsta mögulega samnefnara. Þeir sem taka ákvarðanir mega ekki lengur láta hagvöxt og samkeppni blinda sér sýn.

Þjóðþingin verða með reglulegu millibili að ganga úr skugga um að reglugerðarumhverfi fjármálamarkaðanna og -fyrirtækjanna í heild nái settum markmiðum. Evrópuþingið verður að hafa heimild til að setja nýjar reglugerðir. Reglugerðir ESB verða að skilgreina öll viðmið fjármálastarfseminnar (lán, áhættustýringu, fjárfestingar, verðbréfaútgáfu o.s.frv.) með það að markmiði að veitt fjármálaþjónusta og gerningar stuðli að sjálfbærri starfsemi og vinni gegn fátækt.

Auk þess verður að breyta peningastefnu evrópska Seðlabankans (BCE). Bankinn er hjarta nýfrjálshyggjunnar í Evrópu. Hann hefur hugmyndafræði peningahagfræðinnar (monetarism) að leiðarljósi og setur sér verðbólgumarkmið á kostnað atvinnumála, félagslegs réttlætis og efnahagslegs stöðuleika. Hann er sjálfstæður og á engan hátt settur undir lýðræðislegt eftirlit. Við krefjumst lýðræðislegs eftirlits með þessari stofnun en stefna hans hefur bein áhrif á líf borgaranna. Við höfnum þráhyggju hans við að halda neysluvísitölunni undir 2%, sem er dæmigerð nýfrjálshyggjustefna. Við viljum þvert á móti að hann setju vinnumál og réttláta tekjuskiptingu á oddinn. Meira að segja Alþjóðagreiðslubankinn (BIS, júní 2008) er í ársskýrslu sinni á því að seðlabankarnir eigi ekki einungis að einblína á verðbólguna, heldur eigi þeir einnig að hafa áhyggjur af áhrifum vaxtastigsins jafnt á vinnumál, sem á „óhóflega og glæfralega skuldasöfnun“, og á sköpun spákaupbóla og á taumlausa framleiðnihyggju.

Vaxtahækkun BCE vegna skyndilegrar verðhækkunar olíu er algerlega í anda nýfrjálshyggjukreddanna. Þó svo að tiltöluleg verðhækkun einstakra vara, eins og í tilfelli olíunnar, megi ekki rugla saman við verðbólgu (þar sem almenn verðhækkun á sér stað), þá veifaði BCE verðbólgudraugnum. En í efnahagsástandi dagsins í dag er verðbólga ekki höfuðvandinn, heldur samdrátturinn og atvinnuleysið. Stefna BCE hraðar og dýpkar kreppuna sem ESB stendur frammi fyrir.

Eftirlit með aðgerðum þrýstihópa innan fjármálageirans og stórfyrirtækjanna og gegnsæi þeirra mun bæta ákvarðanatökuna í efnahags- fjármála- og peningamálum. og beina sjónunum meira að samfélaginu.

F. Umbætur á helstu þáttum kerfisins

Lykinlatriði fjármálakerfisins krefjast sérstakrar skoðunar í ljósi yfirstandandi kreppu.

a. Kröfur um eiginfjárstöðu og varfærna starfshætti í bankageiranum

Það verður að gera auknar kröfur til eiginfjár bankanna. Hvað þetta varðar er Bâle II samkomulagið (2005) á rangri braut. Því verður að gera Bâle III sem dregur lærdómana af kreppunni. Starfsemi utan efnahagsreiknings sem er ein helsta orsök yfirstandandi kreppu verður að banna með öllu.

Verðbréfastarfsemi verður að takmarka við stofnanir undir ströngu eftirliti ríkisstjórna eins og því var áður háttað í Bandaríkjunum. Og lánavafninga (veðbréf með veðlán að bakhjarli) verður að banna en markmið þeirra er að endurselja áhættusöm lán.

Fjármálaafurðir spákaupmanna verður að banna, sérstaklega í matvælageiranum og þar sem þau skapa óstöðuleika. Lágmarkskrafa: því mikilvægara sem fjármálafyrirtæki er, því minna má það sýsla með spákaupsafurðir (afurðir spákaupmennskunnar).

Meta verður áhrif nýrra fjármálaafurða á samfélagið og efnahagslegan stöðugleika áður en þær eru leyfðar.

Fjárfestingarbanka verður að minnka (smækka) þannig að stærð þeirra ógni ekki lengur kerfinu öllu. Það sem eftir stendur af þessum geira verður að vera undir ströngu eftirliti og skilið frá annarri fjármálastarfsemi. Allur fjárfestingabankageirinn verður að lúta reglum sem stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins, til dæmis með því að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða vistvænar afurðir.

Öll eignahaldsfélög bankanna, sem taka til fjárfestinga- og viðskiptabanka, trygginga- og veðbréfaviðskipta, verður að endurskipuleggja eða skipta upp, og eftirlitið verður að sníða nákvæmlega að því sem eftir stendur.

Banna verður árangurstengd ofurlaun því þau hvetja til áhættusækni upp allan yfirmannastigann án raunverulegrar refsingar, ef fyrirtækið - sem þýðir þegar upp er staðið - viðskiptavinirnir, tapar miklu.

b. Efla opinbert samvinnubankakerfi

Eftir seinni heimsstyrjöldina skiluðu opinberir bankar, sem höfðu staðbundnar rætur og stefndu ekki að því að safna gróða, góðum árangri. Aftur á móti hafa bankar síðustu tvo áratugina sameinast í risavaxnar fjármálaeiningar og breytt sér í verslunarbanka í leit að hámarksgróða, eins og tíðkaðist í engil-saxnesku fjármálakerfi. Þessari stefnu verður að snúa við; það verður að styrkja opinbera banka sem ekki hafa gróðann að markmiði og losa þá undan skyldum samkeppninnar. Mikilvægir bankar verða að vera opinberir til að tryggja stöðuga fjármögnun sem gerir sjálfbæra þróun í anda jafnréttis mögulega.

Endurþjóðnýttir bankar eða þeir sem ríkið hefur tekið yfir að hluta verður að endurskipuleggja til þjónustu við þarfir samfélagsins., þar með talið viðráðanleg lán til fyrirtækjanna og sjálfbærra verkefna, alhliða fjármálaþjónustu o.s.frv.

c. Opinbert eftirlit með matsfyrirtækjunum

Matsfyrirtækin – en vanhæfni þeirra er æpandi í yfirstandandi kreppu, sem og í flestum kreppum undanfarna áratugi – verða að vera undir opinberu eftirliti. Þannig fá þau að minnsta kosti ekki greiðslur frá fyrirtækjunum sem þau eiga að leggja mat á heldur úr sameiginlegum sjóði sem verður fjármagnaður af þeim sem nota þjónustu þeirra og þeim sem gefa út fjármálaafurðir. Þau eiga ekki bara að skoða efnahagshliðina (fjármála-), heldur einnig áhættuna fyrir samfélagið og umhverfið.

Endurskoðunarfyrirtækjunum lánaðist ekki að varpa ljósi á veikleika áhættustýringarinnar í fjármálageiranum. Þau leyfðu viðskipti utan efnahagsreikningsins á áhættusömum veðlánamarkaði, með afleiður sem annars konar veðbréf. Það verður því aftur að heyra undir opinbera aðila að setja reglur um bókhald, helst með samræmdum hætti.

d. Setja reglur um fjárfestingarsjóði, sérstaklega vogunarsjóði og eignahaldsfélög einstaklinga

Hver hefur þörf fyrir þessa lævísu fjárfestingarsjóði? Hvernig auðga þeir efnahagslífið? Þegar Þjóðverjar kröfðust aukins gegnsæis í stjórnun vogunarsjóðanna á fundi G8 ríkjanna 2007 var þeim svarað að þessir sjóðir lékju mjög mikilvægt hlutverk þar sem þeir tækju áhættu sem aðrir vildu ekki taka. Í raun er það áhætta spákaupmennsku sem leitar hámarksgróða. Slík starfsemi færir efnahagslífinu ekkert, þvert á móti veldur hún óstöðugleika. Skuldsettar yfirtökur færa áhættuna yfir á bankann. Slíkar aðgerðir eiga því alls ekki að vera til. Að halda því fram að vogunarsjóðir séu tæki til að forðast áhættu jafngildir því að biðja brennuvarginn um að koma í veg fyrir brunann. Eftirlitsstofnun verður að koma í veg fyrir það að bankarnir eigi viðskipti við vogunarsjóðina. Enginn hefur hag af þeim utan nokkurra auðmanna og stofnanafjárfesta sem leita hámarksgróða með því að taka mikla áhættu.

Með nokkrum undantekningum hafa eignahaldsfélög í einkaeign einnig reynst áhætta fyrir stöðugleikann og þjónað sem tengingin á milli hluthafakapítalisma og raunhagkerfisins. Þetta ósjálfbæra kerfi verður að leggja af. Slíka starfshætti, og sérstaklega skuldsettar yfirtökur, verður að takmarka þannig að þeir verði sjálfbærir.

ESB verður að gefa út reglugerð um regluverk allra fjárfestingarsjóðanna: fjárfestingarstefna þeirra og laun stjórnendanna verða að vera opinber. Sumar fjárfestingarstefnur verður að banna, þá iðju að fá skuldir að láni (skuldsettar yfirtökur) verður að takmarka. Ágóðan sem þessir sjóðir safna verður að skattleggja til jafns við launatekjur. Banna verður á evrópskum mörkuðum sjóði sem ekki hafa höfuðstöðvarnar innan ESB (heldur til dæmis aflands) eða sjóði sem fullnægja ekki skilyrðum ESB.

e. Afleiðum verði settar þröngar skorður

Ekki má eiga viðskipti með fjármálaafleiður nema í Kauphöllinni undir eftirliti ábyrgra aðila, rétt eins og viðskipti með lyf. Öll viðskipti utan markaða (over the counter) verður að banna.

f. Aflönd

Hver hefur hag af aflöndum og skattaparadísum? Einungis þeir ríku og stofnanafjárfestarnir sem vilja fela tekjur sínar fyrir skattinum, einnig mafían, hryðjuverkasamtök, vopnasalar og aðrir glæpahópar sem vilja þvo peningana sína. Engin efnahagsleg rök fyrir því að viðhalda stöðu þessarra svæða halda vatni.

Að því marki sem ekki er alveg hægt að þurrka þessi svæði út, þar sem sum auðug lönd ætla sér að halda áfram að vera aflönd og verja hin, þá verður að minnsta kosti að grípa til einhliða ráðstafana, allt frá því að afnema bankaleyndina til hárra skatta á viðskipti við aflöndin og skylda bankana til að loka útibúum sínum þar.

Tilskipunin um skattlagningu tekna af sparnaði verður að ná til allra fjármagnstekna (í dag nær hún aðeins til innheimtra vaxta), til lögpersóna (í dag nær hún bara til einstaklinga) og þess verður að krefjast að þau þrjú aðildarlönd ESB sem ekki veita sjálfkrafa upplýsingar um tekjur erlendra ríkisborgara (Austurríki, Belgía og Lúxemborg) geri það sem allra fyrst. Þessar aðgerðir eru skilyrði fyrir beitingu raunhæfs þrýstings á hinar skattaparadísirnar, eins og Sviss og Liktenstein, svo þau gefist upp á bankaleyndinni og þau taki þátt í gagnkvæmri upplýsingagjöf.

g. Ráðstafanir gegn skammtímastefnu fjárfesta

John Maynard Keynes lagði til að „gifta fjárfestana og auðmagn þeirra (actifs)“ til að hvetja langtímafjárfestingar og hindra spákaupmennsku til skamms tíma. Það er hægt að takmarka vald þeirra hluthafa sem hugsa í skammtíma með því að ákveða að atkvæðaréttur sé bundinn því að eiga hlutinn í ákveðinn lágmarkstíma (5ár, 10 ár?) og með því að banna kaupréttarsamninga (stock-options) (sem hvetja stjórnendurna til að einblína á gengi hlutabréfanna). Það verður að vera þak á umbun til stjórnendanna og tengja þau almennri velmegunarvísitölu. Einnig verða verkalýðsfélög, neytendasamtök og aðrir hópar sem málið varðar að hafa rétt til eftirlits með ákvörðunum fyrirtækjanna.

h. Eftirlit með skuldsetningu heimilanna

Til að byrja með verður að setja skuldsetningu heimilanna ákveðnar skorður með því að lögbinda, í hverju landi, hámarkshlutfall afborgana ásamt vöxtum af launum. Gistiheimili fyrir þá sem höllustum fæti standa verður að vera hluti félagsmálastefnu stjórnvalda í stað þess að vera beita fyrir fjármálahákarla. Við styðjum heilshugar tillögurnar sem miða að því að koma á gjaldþrotakerfi sem gerir ofurskuldsettum íbúðaeigendum mögulegt að verða leigjendur. Samt sem áður á einkaeign íbúðahúsnæðis ekki að vera höfuðmarkmið í félagsmálastefnunni. Við krefjumst raunverulegrar áætlunar um félagslegt húsnæði sem stuðlar að félagslegum margbreytileika og hefur umhverfissjónarmið í heiðri.

Attac Allemagne, Attac Autriche, Attac Belgique, Attac Denmark, Attac Espagne, Attac Finland, Attac France, Attac Grèce, Attac Hongrie, Attac Italie, Attac Maroc, Attac Norvège, Attac Pays-Bas, Attac Pologne, Attac Suede, Attac Suisse, Attac Togo