Fjárfestingasjóður í anda nýfrjálshyggju

Á stjórnarfundi Attac á Íslandi sem haldinn var 8. desember var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Attac á Íslandi lýsir furðu sinni á því hvernig Landssamtök lífeyrissjóða standa nú að stofnun fjárfestingarsjóðs og hyggjast ráðskast með 30 milljarða af sparifé landsmanna í áhættufjárfestingar í anda nýfrjálshyggju án þess að gegnsæi og upplýst samfélagsumræða sé um hvernig standa eigi að þeim fjárfestingum. Þá vekur furðu að í stjórn hins nýja fjárfestingarsjóðs lífeyrissjóðanna er valið fólk sem tengist hinum föllnu útrásarfyrirtækjum s.s. Guðfinna S. Bjarnadóttir sem bæði sat í stjórn Baugs og FL group.

Attac telur brýnt að endurreisa þau samfélög sem rústað hefur verið fyrir tilstilli óheftrar markaðshyggju. Til þess verður að setja bönd á fjármálastarfsemi, skattleggja hana í þágu félagslegs jafnréttis og setja verður samfélögum ný markmið í anda lýðræðis- og velferðarsamfélaga, þar sem manngildi og gegnsæi verði í hávegum höfð.