Lettland í kreppu eftir að nýfrjálshyggjukerfi Thatchers hrynur

Heimskreppan í fjármálum og efnahagsmálum hefur lent harðar á litla Eystrasaltsríkinu Lettlandi en nokkru öðru landi nema ef til vill Íslandi. Landið gerði tilraun til að ganga inn í Myntbandalag Evrópu, og hluti af þeirri tilraun var að binda gengi gjaldmiðils landsins, Lats, við Evruna. Afleiðingarnar urðu þær að slæm staða varð mun verri en hefði annars verið. Þróun mála í Lettlandi mun hafa bein áhrif á örlög marga ríkja í austurhluta Evrópu. Hún markar dauða hinnar róttæku tilraunar með thatcherisma í Austur-Evrópu. Á yfirborðinu er kreppa Lettlands afleiðing af því að neytendur hafa fengið háar upphæðir lánaðar, hærri upphæðir en nokkurt vit var í. Afleiðingar þessa er ríkisstjórnin nú að fást við með hörðum aðgerðum. Þegar dýpra er kafað sést að orsökin er í raun græðgi erlendra bankamanna, misheppnaðar umbætur í efnahagsmálum og stjórnmálakerfi sem einblíndi á upptöku Evru sem allsherjarlausn fyrir hagkerfið.

Atburðir í Lettlandi undanfarin tvö ár tákna dauðateygjur hinnar róttæku nýfrjálshyggjumeðferðar í anda Thathcer, sem neydd var upp á landið eftir upplausn Sovétríkjanna. Vesturveldin kröfðust þess, undir forystu Bandaríkjanna, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fengi úrslitavald um efnahagsþróun í fyrrum hagkerfum landanna sem verið höfðu í Sovétríkjunum.

Annars vegar eru vestrænir bankar, fyrst og fremst allir sænskir bankar, sem meira og minna lögðu efnahag Lettlands undir sig eftir 1990 sem „áhrifasvæði“ sitt. Þeir eru í bandalagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Raunar eru síðarnefndu aðilarnir tveir afar ósammála upp á síðkastið.

Hins vegar eru vaxandi grasrótarmótmæli almennings. Síðan í janúar hafa miklar mótmælagöngur verið gengnar gegn ríkisstjórninni, og andstaðan hefur nýverið kjörið á þing þjóðlegan flokk Rússa í fyrsta sinn síðan 1990. Þessi flokkur hefur verulegan stuðning Letta, sem sýnir hversu andstaðan við rán frjálshyggjuaflanna á samfélagsverðmætum, sem orðið hefur s.l. tvo áratugi, ristir djúpt. Þar til í núverandi kreppu var Lettlandi flaggað í vestrænum ríkjum sem „fyrirmyndarbarni“ árangurs frjálshyggjustefnunnar á svæðinu. Vöxturinn byggði hins vegar aðeins á auðveldum aðgangi að lánsfé, óeðlilega miklum hækkunum á fasteignaverði og sívaxandi lánum neytenda. Eins og nú er ljóst kom góðærið aðeins örlitlum hópi bankamanna og óligarka til góða.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í stríði við Evrópusambandið

Nú hvíla allra augu í Lettlandi á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Hvað munu þau gera til að styðja efnahag landsins í þessum kröggum. Verulegur hluti núverandi vandræða stafar af þeirri þráhyggju stjórnvalda að festa gengi gjaldmiðilsins við evruna í þeirri von að landið muni ná að ganga inn á Evrusvæðið á næstu fjórum árum. Hinir einu sem græða á fastgengi við evru eru þeir sem eiga skuldabréf í Lats, gjaldmiðli Lettlands. Þetta mun koma fáum að gagni því sá samdráttur efnahagskerfisins sem er nauðsynlegur til að viðhalda tengingunni mun að lokum leiða til að verðmæti skuldabréfanna lækkar mjög, nema ríkisskuldabréfa.

Eins og venjulega krefst AGS mikils niðurskurðar í ríkisútgjöldum sem forsendu fyrir lánveitingu. Til að mæta þeim kröfum samþykkti ríkisstjórnin í fyrra mánuði aðgerðir sem munu leiða til gríðarlegra kauplækkana og niðurskurðar lífeyris.

Almennur Letti fær um 400 evrur á mánuði í kaup. Niðurskurður á launum leiðir til meiri samdráttar vegna þess neytendur kaupa minna og gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar. Stefna AGS er einföld, en samdráttur í eftirspurn og verðhjöðnun er nokkuð sem Bandaríkin og Evrópusambandslöndin er afar umhugað um að forðast undir öllum kringumstæðum. Fulltrúar AGS á svæðinu hafa leitast við að bera af sér ábyrgðina og sagt að kröfur um hinn villimannslega niðurskurð í ríkisútgjöldum hafi komið frá nágrannaríkjum Lettlands.

Samkvæmt heimildum úr bankaheimi Evrópusambandsins eiga Evrópusambandið og AGS nú í harðvítugum innbyrðis deilum vegna þess hvernig aðstoða eigi Lettland. Í desember fékk Lettland 7,5 millarða evra í neyðaraðstoð til að koma á jafnvægi, frá alþjóðlegum hópi sem meðal annars AGS og Evrópusambandið eiga aðild að. Þetta nemur 34% af þjóðarframleiðslu Lettlands.

Verðið sem Lettar hafa orðið að greiða nemur umtalsvert meiru en „fleskpund“ Shylocks. Lánveitendurnir kröfðust niðurskurðar í launum ríkisstarfsmanna um 20%, lífeyrissjóðsgreiðslna um 20% og 70% niðurskurðar á lífeyrissjóðsgreiðslum til þeirra lífeyrisþega sem enn eru á vinnumarkaði.

Þessar gríðarlegu kjaraskerðingar eru kallaðar „innri gjaldfelling“ með kerfismálfari embættismanna á vegum AGS. Á tímum heimskreppunar á 4. áratug 20. aldar voru þær kallaðar sínu rétta nafni – launa- og verðlækkanir.

Stjórnin í Riga lítur svo á að upptaka evru sé töfralausn á öllum vandamálum landsins. Reynsla Slóveníu, sem tók upp evruna snemma árs 2007 og býr nú við verstu efnahagskreppu í Evrópusambandinu annars staðar en í Eystrasaltslöndunum, sýnir að það er engin töfralausn að taka upp evru.

Þrátt fyrir að þing Lettlands hafi samþykkt í mars að skera niður ríkisútgjöld um einn milljarð dollara (700.000 milljónir evra) á þessu ári og síðan á hverju ári í þrjú ár, þá hefur AGS neitað að afhenda 200 milljónir evra lán, fyrr en eftir svokallaða „endurskoðun.“ Nýjar fréttir frá Lettlandi herma að ríkisstjórnin hafi hafnað kröfum AGS um niðurskurð í lífeyri sem skilyrði fyrir því að 200 milljón evra lánið verði afhent.

AGS krefst samkvæmt lettneskum heimildum sem vel eru kunnar kröfum sjóðsins hærri fasteignaskatts í landi þar sem fasteignaverð er í frjálsu falli. Swedbank, sem er stærsti lánveitandi í Lettlandi, tilkynnti að 54% af öllum fasteignalánum bankans séu „á kafi,“ þ.e. að verðmæti lána bankans séu hærri en markaðsviðri húsanna sem eru að veði fyrir húsnæðislánunum. Húsnæðisverð fer lækkandi.

Skilyrði Evrópusambandsins fyrir því að afhenda 1,2 milljarða evra í lán í lok júlí eru að ríkisstjórnin noti 50% þess til að hjálpa lettnesku bönkunum. Og ríkisstjórnin í Lettlandi varð að skera niður um 700.000 milljónir til að fá 1,2 milljarða lánið, sem þýðir að innspýtingin í hagkerfið er aðeins hálfur milljarður evra nettó. En þegar búið er að reikna út hvaða áhrif niðurskurður í ríkisútgjöldum og launum á efnahagsvöxt í landinu í heild sinni, kemur í ljós að „aðstoðin“ táknar efnahagslegan koss dauðans fyrir Lettland.

Þau átök sem eru í gangi á bak við tjöldin milli AGS og Evrópusambandsins snúast greinilega um áætlanir Lettlands um að taka upp evru. Þetta telur stjórnin í Riga ranglega að muni verða henni til bjargar. Evrópusambandið krefst þess að Lettland tjóðri gjaldmiðil sinn við gengi evrunnar áður en landið tekur upp evru til að sýna „aga“ sinn. Sambandið hefur lýst því yfir að það muni halda Lats í þröngu sviði plús mínus 1%. Reglur ERM gera engu að síður ráð fyrir því að umsækjandi hafi 15% svigrúm á þessu sviði. Sambandið reynir einnig með örvæntingarfullum hætti að halda verðbólgu niðri með því að skera niður í ríkisútgjöldum til að mæta kröfum Maastricht sáttmálans um evruna.

Ástæðan fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hafnað því að afhenda sinn hluta neyðarlánsins til Lettlands er að sögn heimildamanna þessi: Bandaríkjamenn gera tilraun til að skera á tjóðrið milli gjaldmiðils Lettlands og evrunnar, sem neyðir um leið hinar þjóðirnar sem hafa tjóðrað gjaldmiðil sinn við evru í von um að komast inn á evrusvæðið til að skera á tengslin. Þetta eru Eistland, Litháen og Búlgaría. Bandaríkin vonast til að þessi lönd neyðist til að fella gengi gjaldmiðils síns og hverfa frá evrudraumnum. Fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrisjóðsins, Ken Rogoff, gaf þetta í skyn þegar hann staðhæfði nýlega í viðtali að „Lettland ætti að fella gengi gjaldmiðils sína, Lats, til að hindra að kreppan versni. AGS gerði mistök þegar hann leyfði Lettlandi að halda gjaldmiðilstjóðrinu.“

Efnahagshamfarir

Landið er nú þegar á meðal þeirra landa í Evrópusambandinu sem hefur orðið verst úti í hinni tveggja ára löngu heimskreppu, og meðal nýkapítalískra landa aðeins í öðru sæti á eftir Úkraínu. Táknrænar byggingaframkvæmdir eins og tvíburaturnarnir Panorama Plaza á leiðinni frá höfuðborginni Riga til flugvallar borgarinnar standa nær tómir og verslunarkjarnar eru draugaborgir.

Skuldir hins opinbera eru nú 24% af þjóðarframleiðslu og opinberar atvinnuleysistölur sýna 16% atvinnuleysi. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs féll þjóðarframleiðsla um hvorki meira né minna en 18%. Þetta má bera saman við lánadrifinn vöxt tímabilsins 2005-2007 þegar hagkerfi Lettlands óx um 10% á ári, allt með evrum sem fengnar voru að láni.

Nú hefur spilavítinu verið lokað vegna heimskreppunnar. Fasteignaverð féll um þriðjung á s.l. ári, gjaldþrotum fyrirtækja fer fjölgandi og bankar eru að leysa til sín æ meir af fasteignum og bílum. Í Riga hefur meðalverð íbúða fallið um 68% síðan kreppan hófst í ágúst 2007.

Efnahagurinn er í frjálsu falli. Utanríkisverslun Lettlands hefur minnkað um 38% á einu ári og engar góðar fréttir þaðan. Iðnaðarframleiðsla hefur fallið á einu ári um 19%. Verslun hefur minnkað um 24%.

Svipað og á Íslandi þá eru 90% allra lána í erlendum gjaldeyri, evrum.

Ríkisstjórn forsætisráðherrans Valdis Dombrovskis segir að gengisfelling muni leiða til gjaldþrots þúsunda fyrirtækja og einstaklinga. En „innri gengisfelling“ samkvæmt ráðleggingum AGS, til að komast hjá gengisfellingu, mun leiða til sömu ef ekki verri niðurstöðu með gríðarlegum efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum átökum. Dombrovskis viðurkennir að meginverkefni hans sé nú að „varðveita frið í samfélaginu.“ Það er ekki of mikið sagt.

Ef Lettland fellur ...

Nú er ástandið þannig að fjöldamótmæli og órói vex hratt í Lettlandi með hverri nýrri niðurskurðarkröfu til að halda gjaldmiðlinum tjóðruðum við evruna, og það er næsta víst að ríkisstjórnin mun að lokum verða að gefa eftir og fella gengið. Um leið munu önnur ríki í austanverðri Evrópu einnig gefa eftir, en það er undir því komið hvort stjórnvöld í Brussel bregðast við með skynsamlegum hætti, sem er sjaldséð nú til dags.

Ef gjaldmiðill Lettlands verður felldur með skipulegum og kerfisbundnum hætti, mun það jafnvel nú verða viðráðanlegt ferli. Það myndi þýða að Evrópusambandið yrði að viðurkenna að skilyrði Maastricht sáttmálans séu ekki óbreytanleg lögmál alheimsins og að það yrði að hætta að fiska í óhreinu vatni stjórnmála. Evrópusambandið verður í stuttu máli að koma fram með ásættanlega lausn á gjaldmiðilsvanda Lettlands.

Það virðist afar ólíklegt út frá kröfum Evrópusambandsins fram að þessu. Ef Lettland er látið sigla sinn sjó og landið lendir í vaxandi stjórnleysi mun allt fara á versta veg. Það mun hafa áhrif í Litháen, Eistlandi og Búlgaríu.

Fyrir Búlgaríu er vandamálið ekki það að halda föstu gengi við evruna, heldur að endurnýja samkeppnishæfni og efla hagvöxt, og þetta er miklu erfiðara án gengisfellingar. Ef Búlgaría sker á tjóðrið, mun það hafa mikil áhrif um alla Suðaustur Evrópu.