Um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og íslensk stjórnvöld

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er þekktur fyrir harkalegt framferði í efnahagsmálum. Fái hann tækifæri til þess að stýra opinberum fjárstraumum ríkja beitir hann aðferðum sem leiða til niðurskurðar í velferðarkerfi, einkavæðingu opinberrar þjónustu og annars slíks. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart – ráðleggingar sjóðsins, jafnvel til vestrænna ríkja, ganga á hverju ári út á það að skera þurfi niður í opinberum rekstri og einkavæða banka, fjölmiðla, heilbrigðiskerfi og menntakerfi, eða það af þessum fyrirbærum sem enn kynni að vera í eigu ríkisins. Þetta er raunar opinber stefna flestra alþjóðlegra fjármálastofnana, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, OECD o.fl. Ríki eins og Noregur og Ísland hafa getað hundsað þessar „ráðleggingar“ í krafti þess að það hefur verið byggt upp öflugt velferðarkerfi á vegum hins opinbera, sem þessar þjóðir hafa haft efni á að greiða fyrir úr eigin vasa.

Núverandi kreppa hefur skyndilega afhjúpað innihaldsleysið í þessari stefnumótun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra alþjóðlegra peningastofnana. Sjóðurinn hefur fylgt nýklassískum hagfræðikenningum út í ystu æsar, og þær kenningar hafa fengið að spreyta sig á alþjóðavettvangi undanfarin 30 ár eða svo. Árangurinn er sá að nú er uppi almenn umræða í heiminum um að síðustu dagar kapítalismans séu runnir upp. Í stað þess að veita velsæld og ríkidæmi um allan heim hefur frjálshyggjukapítalisminn leitt til djúprar heimskreppu af því tagi sem ekki hefur sést síðan 1929-1933. Heimskreppunni hefur slegið niður með sérlega kröftugum hætti hér á landi, þannig að Ísland er orðið tákn og tilraunastöð fyrir viðbrögð við kreppunni. Augljóslega er kominn tími til að huga að forsendum alþjóðlegrar fjármálastefnu, og best er að hver byrji þá athugun heima hjá sér.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var afar harkalega gagnrýndur um 1999-2001 fyrir aðferðir sínar í Austur-Asíu, og rifjað var upp hvernig sjóðurinn hafði farið með Afríkuríki og önnur þróunarríki á 9. áratug 20. aldar. Sjóðurinn lenti einnig í miklum mótvindi í Suður-Ameríku. Argentína gerði beinlínis uppreisn gegn sjóðnum og dró sig út úr alþjóðakerfi nýfrjálshyggjuhagfræði. Gagnrýnin á alþjóðahagkerfið varð mjög sýnileg með mótmælum andstæðinga kerfisins í Seattle, Genúa, Gautborg og víðar. Almennt var litið svo á að sjóðurinn hefði gert illt verra með „hjálp“ sinni og „ráðleggingum“, dýpkað kreppur í stað þess að draga úr áhrifum þeirra. Afleiðingin varð sú að mjög dró úr áhrifum sjóðsins og um skeið leit út fyrir að hann hefði lifað sitt fegursta. En þá kom bankahrunið á Íslandi, og Ísland leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð.

Á heimasíðu samtaka sem fylgjast með alþjóðafjármálastofnunum er fjallað um viðbrögð sjóðsins við þeirri beiðni (http://www.bicusa.org/en/Article.3929.aspx). Þar segir:

The last global financial crisis that the IMF found itself in the limelight was during the Asian financial crisis, which began in 1997, and spread like a contagion through Southeast Asia and then to Russia and Latin America. The Fund is notoriously famous for having exacerbated the Asian financial crisis through its overly austere loan conditionalities to the affected countries. Has the IMF learned its lesson or will it also intensify the economic pain of this current financial crisis? What is already apparent is a certain level of duality in the IMF loan program conditions for Indonesia in 1998 versus Iceland in 2008; there is a significant difference, almost a reversal, of structural conditionality in the banking and financial sector. In Indonesia the IMF ordered the closure and/or privatization of 16 banks, whereas in Iceland, the Fund is not at all prescribing the privatization of Iceland's largest mortgage lender (called the Housing Financing Fund). Does this demonstrate that the Fund has one rule for Northern borrowers and another for Southern? Or is this a sign that the IMF may be fundamentally altering its economic positions having learned lessons from the Asian financial crisis and having a lot to prove in the current one?

Það eru síðustu tvær spurningarnar sem vekja athygli, fær Ísland sérmeðferð af því að það er ríkt og hvítt, eða er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búinn að læra af mistökum undanfarinna áratuga? Naomi Klein er ekki viss um að svo sé. Hún bendir á að skilyrði sjóðsins hafi ekkert breyst í Lettlandi (http://this.is/nei/?p=3715 ).

Í Lettlandi hefur reiði almennings að miklu leyti beinst að aðhaldsaðgerðum ríkisvaldsins – fjöldauppsögnum, niðurskurði félagslegrar þjónustu og launalækkun hjá hinu opinbera – allt aðgerðir sem gripið er til, til að uppfylla skilyrði fyrir neyðarláni frá IMF (og nei, þar hefur ekkert breyst).

Jean Paul Sartre bendir í formála að bók Frantz Fanon, The Wretched of the Earth, á að kapítalisminn hafi tvö andlit. Í heimalöndunum sé aðránið falið á bak við slæðu siðmenningar, en í nýlendunum, sem nú eru þróunarlönd, sé arðránið nakið. Þar sé ekkert á milli kúgunarinnar og þeirra kúguðu. Ofbeldi, manndráp, kynþáttahyggja og skipulegt ójafnrétti sé það ástand sem ríkir í þriðja heiminum.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan Sartre skrifaði formála sinn hefur heimsvaldastefnan viðhaldið efnahagslegri undirokun þriðja heimsins. Meðal þeirra verkfæra sem hún hefur notað er einmitt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Í grein Auðuns Kristbjörnssonar í Dagblaðinu Nei. er sagt frá því hvernig sjóðurinn var beinlínis notaður til að viðhalda og auka arðrán bandarískra auðhringa í Ekvador (http://this.is/nei/?p=3742). Stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands virðist benda til þess að hið tvöfalda siðgæði kapítalismans gildi áfram. Í ákveðnum, siðmenntuðum löndum, helst þar sem mótmælendatrú ríkir og germönsk tungumál eru töluð, skal gríma siðmenningarinnar sitja á kapítalismanum, jafnvel þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráði ferðinni. Annars staðar, í Austur-Evrópu, Suður-Ameríku, Afríku og Asíu skal gríman tekin af.

Gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur sett sín spor. Raunar er það svo að eina ríkisstjórnin sem hefur sett gagnrýni á hann í stefnuskrá sína er norska ríkisstjórnin, sem nú situr. Sú ríkisstjórn er vinstri stjórn og hugmyndagrunnur hennar er að miklu leyti byggður á gagnrýni á nýfrjálshyggjuna. Í stefnuplaggi hennar, Soria-Moria yfirlýsingunni frá 20. desember 2005 segir m.a. að ríkisstjórnin skuli (http://www.regjeringen.no/nb/dep/smk/dok/rapporter_planer/Rapporter/2005... ):

  • arbeide for større åpenhet om Norges rolle i Verdensbanken og IMF, og vurdere endringer i forhold til politisk styrking og mandat for Norges rolle.
  • gå inn for at Verdensbanken og IMF demokratiseres. Utviklingsland må gis langt større innflytelse blant annet ved at stemmeretten ikke utelukkende knyttes til innskutt kapital.
  • lede an i arbeidet med å avvikle utestående gjeld til de fattigste landene i tråde med det internasjonale gjeldsleetinitaitivet. kostnader ved sletting av gjeld skal ikke fortrenge norsk bistand jfr den vedtatte gjeldsplanen. Det skal ikke stilles krav til privatisering som forusetning for sletting av gjeld. Arbeide for opprettelsen av en gjeldsdomstol for behandling av spørsmål om illegitim gjeld.

Hér eru mörg athyglisverð atriði. Fyrir það fyrsta getum við litið svo á að þriðji heimurinn sé svæði sem hafi búið við kreppuástand í áratugi. Meðal þeirra ráðstafanna sem norska vinstri stjórnin leggur til er að skuldir þeirra verði felldar niður, til að létta á kreppunni. Í annan stað hugar stjórnin að stefnu Noregs sjálfs í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Lagt er til að umræðan um stefnu Noregs í sjóðnum verði opnuð, og að stjórn sjóðsins verði gerð lýðræðisleg.
Í Noregi fjalla þrjár stofnanir í opinbera kerfinu um stefnu landsins í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norges bank, fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Ísland er í sama hópi og Noregur í AGS, hópi Norðurlanda og Eystrasaltslanda. Frjálshyggjustjórnin sem hér hefur setið ályktaði að sjálfsögðu ekki neitt um stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að minnsta kosti ekki í þá átt sem norska vinstri stjórnin gerði árið 2005. Um stefnumótun á þessu sviði sér Seðlabankinn, en forsætisráðuneytið (sem efnahagsráðuneyti) og fjármálaráðuneytið kom einnig að samskiptum við bankann. Víst er að Ísland hefur stutt nýfrjálshyggjustefnuna í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fram að þessu. Nú kemur það okkur í koll. Hefði Ísland unnið með Noregi t.d. að því að minnka áhrif nýfrjálshyggjunnar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stæði Ísland sjálft betur að vígi þegar það þarf að leita til sjóðsins. En engin von var til þess á meðan Davíð Oddsson réði ríkjum hér á landi með fulltingi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, fyrst í ríkisstjórn og síðan í Seðlabanka. Vel að merkja: Hannes Hólmsteinn situr enn í bankaráði Seðlabankans.

Eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar hlýtur því að verða að breyta um stefnu í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þarf að endurskoða þá stefnu frá grunni.

(birtist áður í Dagblaðinu Nei.)