Vandinn við Icesave

Yfirlýsingar bandaríska lögfræðingsins Lee Buchheit um samninga Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið hafa ekki opnað augu þess hluta ríkisstjórnarinnar sem vill láta Alþingi skrifa upp á samninginn. Þar fer fremstur í flokki fjármálaráðherrann sem virðist algerlega ákveðinn í að eyðileggja pólitískan feril sinn. Vera má að hann eigi eftir einhver ár í ráðherrastól, en þar mun hann sitja í skugga þessa máls, hvernig sem það fer. Steingrímur J. Sigfússon hefur í 20 ár eða svo sagst vera sósíalisti eða vinstri maður, og vel má vera að það finnist honum sjálfur hann vera, en framganga hans í Icesave málinu er eins langt frá því að vera vinstrimennska og nokkur möguleiki er. Steingrímur gengur í því máli erinda auðvaldsins og hagar sér eins og samviskulaus innheimtulögfræðingur sem er staðráðinn í að bera fátæku ekkjuna út úr húsi hennar.

Skyldu þessar hugmyndir eiga við núverandi ástand á Íslandi? Ég veit ekki hvernig bandaríski lögfræðingurinn hugsar málið, en mér sýnist augljóst að svo sé. Til hafa orðið gríðarlegar skuldir vegna óstjórnar og skefjalausrar einkavæðingar. Yfirgangur nýfrjálshyggju og alþjóðavæðingar hefur leitt til þjóðargjaldþrots á Íslandi og nú á almenningur að borga reikninginn. Auðvitað sjá flestir Íslendingar að hér er maðkur í mysunni og fáir ljá máls á því að skrifa undir Icesave-samninginn nema hörðustu stuðningsmenn Samfylkingarinnar. En Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson hafa slegist í þennan hóp og gert út leiðangur til Bretlands og Hollands. Svavar kom heim úr þeim leiðangri með hinn alræmda Icesave-samning og nú hafa þessir gömlu Alþýðubandalagsmenn reynt í tvo mánuði ásamt Samfylkingunni að koma samningnum í gegn um Alþingi, án árangurs. Ekkert útlit er fyrir að það takist.

Eitt af grundvallaratriðum í umfjöllun alþjóðasamtaka eins og Attac um skuldavanda þriðja heimsins er hugtakið „odious debts.“ Átt er við að fara verði sérstaklega með skuldir sem hafa orðið til undir óstjórn eða einræðisstjórn. Oft hafa þessar skuldir orðið til vegna lána sem valdamenn hafa tekið í þeim tilgangi að mylja undir sig eða bandamenn sína. Valdamenn þessir missa síðan völdin, lýðræði kemst á í landi eða eitthvað annað gerist sem leiðir til að óstjórn í landi afhjúpast. Lánin standa eftir og eftirlitsstofnanir alþjóðakerfis fjármálaheimsins ætlast yfirleitt til þess að saklaus almenningur í viðkomandi landi borgi ósómann. Þetta gagnrýnir Attac og telur að almenningur í þriðja heiminum eigi ekki að súpa seyðið af óstjórn valdamanna sem oft gengu erinda nýfrjálshyggju, alþjóðavæðingar og fjármagnseigenda í ríku löndunum.

Hér er um gríðarlegt réttlætismál að ræða. Það var gerð uppreisn í landinu til að steypa þeim stjórnvöldum sem stóðu að nýfrjálshyggjuruglinu. Það hlýtur að mega ætlast til að þau stjórnvöld sem við tóku sinni starfi sínu af alvöru. Í stað þess ákveða þau að taka við hlutverki innheimtulögfræðingsins, ganga erinda alþjóðafjármagnskerfisins og heimta að Alþingi samþykki samning sem er algerlega ótækur. Auðvitað gengur þetta ekki. Stjórnvöld sem standa að slíkum gjörningi geta ekki ætlast til neins stuðnings eða tryggðar við sig. Almenningur, jafnt sem Alþingi, neitar að samþykkja slíka afarkosti. Takist ríkisstjórninni með einhverjum hætti að þræla skuldbindinum í þessum anda gegnum þingið hlýtur næsta skrefið að verða skattaverkfall.

Grundvallaratriði í umfjöllun um núverandi kreppu íslenska hagkerfisins (sem allir keppast við að lýsa yfir að eigi sér engin fordæmi, sem hún á kannski ekki hér á landi en fordæmin eru mörg annars staðar í heiminum) hlýtur að vera að hafna því að ríkisvaldið beri ábyrgð á þeim skuldum sem til var stofnað í nafni Icesave.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar nú „endurreisn“ íslensks efnahagslífs, en hann var einmitt meðal þeirra aðila sem hvað ákafast hvatti til einkavæðingar og alþjóðavæðingar á sínum tíma. AGS er þess vegna vanhæf stofnun á þessu sviði. AGS ætti alls ekki að koma að neinum þætti þessa máls og alls ekki að því að stýra nokkrum þætti í íslensku efnahagslífi vegna þess að sjóðurinn á stóran þátt í þeim hugsmíðum sem urðu til á vegum nýfrjálshyggjunnar til að réttlæta ránsherferð auðmagnsins um heiminn. Það verður að krefjast þess og fara fram á að óháð stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna verði sett á fót til að sinna vandamálum af þessu tagi. Sameinuðu þjóðirnar og hvorki AGS né ESB eiga að fjalla um mál eins og Icesave-samninginn. Núverandi aðstæður eru með öllu óþolandi, aðilar eins og AGS hafa sjálfdæmi í eigin sök, er leyft að koma nálægt því hvernig farið er með mál sem rísa vegna kreppu sem þeir eiga sjálfir mesta sök á. Og „vinstri“ stjórn með Steingrím J. Sigfússon innanborðs getur eftir þetta ekki orðið annað en brandari.

Við borgum ekki!