Attac á Íslandi hittir fulltrúa norsku ríkisstjórnarinnar á opnum fundi í Ósló

Þann 4. febrúar n.k. munu þrír fulltrúar frá Attac-samtökunum á Íslandi, þeir Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Bjarni Guðbjörnsson sagnfræðingur og Gunnar Skúli Ármannsson læknir hitta fulltrúa norsku ríkisstjórnarinnar á opnum fundi í Ósló. Jafnframt munu sitja fundinn fulltrúar norsku Attac-samtakanna, en þau hafa skipulagt fundinn ásamt með íslensku deildinni. Yfirskrift fundarins er „Á AGS að fara frá Íslandi?“

Attac-samtökin á Noregi og Íslandi eru að undirbúa sameiginlegar tillögur um hvernig hægt sé að standa að því að endurreisa efnahag Íslands án aðkomu AGS. Mikill hljómgrunnur er fyrir því í Noregi að aðstoða Ísland þannig að Íslendingar geti hafnað afarkostum AGS, Breta, Hollendinga og ESB varðandi Icesave-málið, og án þess að Ísland þurfi að fara að þvingandi skilyrðum AGS fyrir aðstoð. Fundurinn er ætlaður til að ræða möguleika á því og til að kynna tillögur Attac-samtakanna um endurreisn Íslands án aðkomu AGS.