Noregsferð og Tax Justice Network

Til allra félaga í Attac samtökunum á Íslandi!

Miðvikudaginn 17. febrúar nk.verður haldinn félagsfundur hjá Attac-samtökunum á Íslandi.
Fundurinn verður haldinn í JL-húsinu, sal hjá Reykjavíkur Akademíunni við hringbraut- 4. hæð. Fundurinn hefst kl. 20.00. Allir eru velkomnir.

Dagskrá fundarins:

20:00 Einar Már og Gunnar Skúli segja frá Noergsför þeirra á vegum Attac í Noregi og svara síðan fyrirspurnum frá fundargestum.

Þann 4. febrúar sl. fóru þrír fulltrúar frá Attac-samtökunum á Íslandi, þeir Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Bjarni Guðbjörnsson sagnfræðingur og Gunnar Skúli Ármannsson læknir til að hitta fulltrúa norsku ríkisstjórnarinnar á opnum fundi í Ósló. Fulltrúar norsku Attac-samtakanna skipulögðu fundinn ásamt með íslensku deildinni. Yfirskrift fundarins er „Á AGS að fara frá Íslandi?“ Attac-samtökin á Noregi og Íslandi hafa búið til sameiginlegar tillögur um hvernig hægt sé að standa að því að endurreisa efnahag Íslands án aðkomu AGS. Mikill hljómgrunnur er fyrir því í Noregi að aðstoða Ísland þannig að Íslendingar geti hafnað afarkostum AGS, Breta, Hollendinga og ESB varðandi Icesave-málið, og án þess að Ísland þurfi að fara að þvingandi skilyrðum AGS fyrir aðstoð.

20:50 Kaffi

21:10 John Cristiansen hagfræðingur er formaður ritararáðs samtakanna Tax Justice Network heldur fyrirlestur um starfsemi Tax Justice Network - (Samtök um réttláta skatta)

Christensen starfar í London og hefur m.a. fjallað um hvernig skattaskjólum og undanskotum skatta hefur verið beitt við arðrán í þriðja heiminum, sérstaklega í Afríku og Suður-Ameríku. Að hans sögn hefur fjármagnsflæði frá Afríku numið 600 milljörðum dollara síðan um 1980. Hluti af skýringunni felst í spillingu sem vestrænar stofnanir, t.d. bankar í ríkjum sem bjóða upp á bankaleynd (Liechtenstein, Sviss, Delaware í Bandaríkjunum) standa fyrir. Slík spilling er sjaldnast kölluð slíku nafni en er að sögn Christensens jafn slæm og það sem venjulega er kallað slíku nafni.

Tax Justice Network (Samtök um réttláta skatta) er alþjóðlegur hópur fræðimanna og aðgerðasinna sem vinnur að rannsóknum á skattkerfum og að því að benda á misfellur svo sem skattsvik, skattaskjól, aflands-„eyjar“ og alþjóðleg undirboð skatta, oft af hálfu smáríkja. Slík fyrirbæri spilla að áliti samtakanna tilraunum þjóðríkja til að skattleggja þegna sína með réttlátum hætti. Þau valda líka truflunum á markaðshagkerfinu með því að umbuna fjármálastarfsemi óábyrgra fjárfesta og með því að beina fjárfestingum á vafasamar brautir. Orðið réttlæti er haft í nafni samtakanna vegna þess að þeim er umuhugað um að beita skattalagningu á vegum félagslegs réttlætis.

Fundurinn á miðvikudaginn er því ætlaður til að ræða möguleika á því og til að kynna tillögur Attac-samtakanna um endurreisn Íslands án aðkomu AGS og kynna starfsemi Tax Justice Network - (Samtök um réttláta skatta)